Hún kemur kannski örlítið undarlega fyrir sjónir en er ekki mjög ógnandi að sjá. Þessi litla jurt (Centaurea calcitrapa) er þó talin vera hluti að miklum innrásarher sem ógnar Bandaríkjunum. Mark Rey aðstoðarlandbúnaðarráðherra hefur sagt að nýjar plöntur séu mesta vandamál bandarískra skóga að sjálfum eldinum slepptum. Vandamálið er metið á 138 milljónir dala á ári. NatureServe segir innrás væntanlega sem grafa muni undan efnahag og stefna helstu náttúruperlum landsins í hættu. Fjöldi annarra umhverfissamtaka hefur tekið sér varðstöðu á landamærum Bandaríkjanna í stríðinu við framandi plöntur. Þykir það tíðindum sæta að ríkisstjórn Bush og umhverfissamtök hafi snúið bökum saman í þessari miklu orrustu. Hvernig ætli standi á því?
Fátt er betur fallið til að skapa samstöðu þjóðar en innrás í land hennar og bæði ríkisstjórnin og umhverfisverndarsamtök vilja eðlilega hagnýta sér það. En líklega það þó meiri þátt í þessari vakningu gegn innrásarjurtunum að „vandamálið“ er til staðar. Frá landnámi Evrópumanna í Ameríku hafa 50 þúsund nýjar plöntur verið fluttar til nýja heimsins. Ýmsar þeirra móta landslagið, aðrar sjá um að gefa af sér 98% af kornuppskeru Norður-Ameríku og talið er að allt að 5 þúsund innrásarjurtir hafi farið í stríð við 17 þúsund heimajurtir. Það er auðvitað erfitt að meta hvernig sú barátta stendur en víða má sjá útlendingana skjóta rótum þar sem jafnvel voru mjög einkennandi innlendar plöntur áður.
Eins og svo oft áður hafa ýmis vinstrisinnuð umhverfisverndarsamtök tekið að sér að ýkja vandann stórkostlega. Barátta þeirra gegn þessum „útlendingum“ fellur auðvitað vel að hamagangi þeirra gegn alþjóðavæðingunni. Þau hafa því auðvitað lagt til auknar viðskiptahömlur til að koma í veg fyrir flutning á náttúruafurðum milli landa.
Og eins og svo oft áður þegar „umhverfisvandamál“ af þessu tagi eru rædd gleymist málin eiga sér aðra og fallegri hlið en þá sem umhverfisverndarsinnar gapa um. Í þessu máli má gjarnan halda því til haga að margar þessara jurta hafa komið að ómetanlegu gagni, bæði við fæðuöflun og í baráttunni við uppblástur. Þegar allt kemur til alls hafa svo allar plöntur á jörðinni einhvern tímann skotið rótum meðal þeirra sem fyrir voru.