… beiddi Bjarna bónda Þorsteinsson að selja mér 1 tn. af mó. Hann svaraði: „Nei, nei, nei; djöfull þá flöguna ég læt. Þeir sem geta ekki haft að sér hér á haustin, þeir verða að drepast þar sem þeir eru komnir. Nei djöfull þá flöguna að ég læt“. |
– Úr Dagbók Magnúsar Hj. Magnússonar, færsla um 28. janúar 1910, varðveitt á Landsbókasafni Íslands. Síðar birt í ritinu Kraftbirtingarhljómi guðdómsins, öðru bindi ritraðarinnar „Sýnisbóka íslenskrar alþýðumenningar“, bls. 288. |
Þá gekk skáldið að ósk eiginkonu sinnar til hreppstjórans í Stórubervík og sagði að þau vantaði eldivið og fýrspýtur og bað um nokkrar móflögur að láni. Hreppstjórinn svaraði fljótt: Djöfull þá flöguna ég læt. Þeir sem ekki geta haft að sér á haustin verða að drepast þar sem þeir eru komnir. |
– Halldór Kiljan Laxness, úr 2. kafla „Fegurðar himins“, sem er fjórði hluti Heimsljóss. Hér tekið úr 5. útgáfu Heimsljóss II, bls. 146. |
Eru tilvísanir of fáar eða eru tilvísanir ekki of fáar? Hver hefur verið með of fáar tilvísanir og hver hefur ekki verið með of fáar tilvísanir? Hvenær eru tilvísanir of fáar og hvenær eru tilvísanir ekki of fáar? Fari í helvíti sem tilvísanirnar eru of fáar. Og þó.
Tarna er skrýtin þula en kannski ekki svo mjög á skjön við þá umræðu sem haldið hefur verið úti undanfarnar þrjár vikur og íslenskir fjölmiðlamenn hafa sent út eins og heimsviðburð. Í þrjár vikur hafa ákveðnir fjölmiðla- og fréttamenn, sem sjálfir eru efalítið afar nákvæmir í eigin heimildanotkun, verið gríðarlega áhugasamir um vinnubrögð við fræðibókaskrif og fjallað um deilur fræðimanna um þau eins og glæpamál er varði þjóðaröryggi og landvarnir. Þessi áhugi fjölmiðlafólksins þarf ekki að koma á óvart, jafnvel þó hann sé í verulegu ósamræmi við það hvernig þeir hafa hingað til tekið á því þegar fræðimenn hafa deilt um vinnubrögð og aðferðir. Þó hingað til hafi íslenskir fjölmiðlamenn haft nákvæmlega engan áhuga á slíkum umræðum þá er á það að líta að nú hefur verið gagnrýndur Hannes Hólmsteinn Gissurarson og reynt að grafa undan fræðimannsorði hans og þá er að duga eða drepast.
Fyrir fáum árum varði Ólína Þorvarðardóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Nýs vettvangs, doktorsritgerð við heimspekideild Háskóla Íslands. Ritgerðin vakti ekki tóma kátínu í því sem kannski má kalla íslenskan fræðiheim og þar gagnrýndu ýmsir vinnubrögð höfundarins og má þar nefna fræðimennina Einar G. Pétursson, Sverri Jakobsson og Sverri Tómasson. Var Ólína meðal annars gagnrýnd fyrir notkun tilvísana, en eins og kunnugt er þykir íslenskum fréttamönnum nú sem fræðiheiður manna velti á því hvaða aðferð þeir fylgja í þeim efnum, og ekki endilega í doktorsritgerðum heldur í hverju sem þeir senda frá sér. Ekki höfðu íslenskir fréttamenn hins vegar mikinn áhuga á þessari gagnrýni og ekki einu sinni þeir sem áður höfðu sagt hástemmdar fréttir af ritgerð nýja doktorsins. Fréttamenn sem í dag halda umræðuþætti og næstum rjúfa dagskrá til að segja frá gagnrýni á ævisögu sem gefin hefur verið út fyrir almennan markað höfðu akkúrat engan áhuga á gagnrýni fræðimanna á vinnubrögð við doktorsritgerð við háskóla Íslands. Fréttamönnum, sem elta uppi fólk sem situr í dómnefnd bókmenntaverðlauna sem einkaaðilar efna til handa sjálfum sér, þeim datt ekki einu sinni í hug að ræða við þá dómnefndarmenn Háskólans sem metið höfðu ritgerð Ólínu tæka til doktorsvarnar. Enda virðist fræðiáhugi íslenskra fréttamanna hafa hafist um leið og Hannes Hólmsteinn Gissurarson var gagnrýndur.
En af hverju segir Vefþjóðviljinn að ákafi nokkurra fjölmiðlamanna nú þurfi ekki að koma á óvart? Jú, fólk þarf ekki að hafa fylgst lengi með íslensku þjóðlífi til að vita að ákveðin þjóðfélagsöfl hreinlega umhverfast þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson er annars vegar. Ofsinn undanfarnar vikur er kjörið dæmi um það. Dettur kannski einhverjum í hug að fréttamenn eða fræðimenn hefðu látið eins og þeir gerðu ef einhver annar en Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefði átt í hlut? Svo mikið hefur legið á að segja neikvæðar fréttir af bók Hannesar að fréttastofa Ríkisútvarpsins sagði meira að segja frá því að síðar sama dag yrði fluttur neikvæður ritdómur um bók hans í tilteknum útvarpsþætti. Og fréttastofa Ríkissjónvarpsins sendi menn á staðinn og tók ritdómarann upp á band til að sýna um kvöldið með stórfréttinni. Kannast einhver við að neikvæðir ritdómar þyki almennt fréttaefni – og það meira að segja áður en þeir eru birtir? Dettur einhverjum í hug að heilbrigt fréttamat rólegra manna ráði hér för? Dettur einhverjum í hug að íslenskir fjölmiðlamenn hefðu látið eins og þeir hafa gert, ef nokkur annar hefði átt í hlut, já nema kannski Hrafn Gunnlaugsson.
En þó ofsinn sé algengur í íslenskum vinstrikreðsum þá er það vitaskuld ekki svo að á þeim bæjum séu allir blindaðir af sama hatri. Í fyrradag var til dæmis rætt við Gísla Gunnarsson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, og var eitt og annað athyglisvert í svörum hans:
Ja ég sjálfur er nú Samfylkingarmaður og hef alltaf talist til vinstri í stjórnmálum og ætti þess vegna samkvæmt reglunni að vera á móti Hannesi. En ég hins vegar tala hér sem fræðimaður, ekki sem stjórnmálamaður. En mér finnst að margir fræðimenn megi aðeins fara að hugsa sinn gang í þeim efnum og skilja þar greinilegar á milli. Ég tek sem dæmi að ég hef heyrt marga gagnrýna bók Hannesar og þá spyr ég: eruð þið búin að lesa bókina? Dettur það ekki í hug, segja viðkomandi, kemur það ekki til hugar. Og svo er ég skammaður fyrir að lesa bókina af félögum mínum hér í Háskólanum. |
Nei, þeim félögum hans, sem gagnrýna Hannes Hólmstein og bók hans af festu og þunga, þeim dettur sko ekki í hug að lesa hana. Guðný Halldórsdóttir, sem vílar ekki fyrir sér að þjófkenna Hannes, segir í Morgunblaðinu í gær að hún hvorki hafi lesið bók hans né ætli sér að gera það. Hún hafi svona gluggað í hana. En þegar Hannes Hólmsteinn Gissurarson á í hlut þykja þetta eflaust góð og gild vinnubrögð. Það er ekki einu sinni notuð sú heldur óvandaða aðferð að skjóta fyrst og spyrja svo; nei ef Hannes Hólmstein ber í sigtið þá er bara að skjóta spurningalaust. Eins og orð Gísla Gunnarssonar bera með sér þá eru það ekki einungis einhverjir hægri menn sem átta sig á því hvílík áhrif Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur á sálarlíf íslenskra vinstrimenningarmanna. Annar maður sem ekki hefur mikinn áhuga á að reka erindi íslenskra hægrimanna, Hallgrímur Helgason rithöfundur, lýsti lífsreynslu sinni í tímaritsgrein fyrir tveimur árum:
Ég varð þeirrar óvæntu ánægju aðnjótandi í vetur að Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifaði hólgrein um bók eftir mig í Morgunblaðið. Málefni greinarinnar var reyndar að mestu fremur sjálfsögð fordæming á alltof áralöngum stalínisma Halldórs Laxness; sorglegum þætti í ævi stórskálds, sem allir gætu tekið undir, en greinin var skrifuð af röngum manni; hann var einn af „hinum“. Dagana á eftir leið mér eins og ég væri skyndilega orðinn stórhættulegur smitberi. Gömlu kunningjarnir, þessar þægilega kratíseruðu vinstri-sálir, hlupu út í horn þegar þeir sáu mig. Vildu helst ekki þurfa að tala við mig. Ein sú stórundarlegasta og miður skemmtilegasta tilfinning sem ég hef upplifað. I had been touched by evil. |
Hrós frá Hannesi Hólmsteini Gissuarsyni og kratasálirnar eru horfnar þér, um stund að minnsta kosti. Þessar lýsingar Gísla og Hallgríms þurfa ekki að koma á óvart. Það sem fremur kemur á óvart er hversu lengi þessu sama vinstraliði helst uppi að láta eins og það sjálft sé opið og umburðarlynt en einmitt hinir séu skoðanakúgarar sem ofsæki andstæðinga sína. Næstum á hverjum degi má lesa grein eða hlusta á pistil frá þessu fólki eða heyra viðtöl þess hvers við annað um það hversu erfitt því sé gert að tjá sig; hvernig „óttinn“ nagi samfélagið. Og svo er það gjarnan sama fólkið sem metur aðra eftir vinum þeirra eða stjórnmálaafstöðu og sú saga er ekki nokkurra vikna gömul, eitthvað sem má afsaka með langri þrá eftir valdastólum eða einhverju slíku. Hverfum í dæmaskyni aftur í tímann. Árið 1986 var kosið til borgarstjórnar Reykjavíkur og höfðingjar eins og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson reyndu allt til að knésetja meirihluta sjálfstæðismanna, sem borgarstjórinn í Reykjavík, Davíð Oddsson, fór fyrir. Réðust þau að sínum hætti mjög persónulega að borgarstjóranum og reyndu að láta kosningarnar snúast um persónu hans. Bar það þá til að nokkrir þjóðkunnir listamenn skrifuðu undir yfirlýsingu sem birt var í Morgunblaðinu þar sem þeir lýstu yfir stuðningi við Davíð. Og það var eins og við manninn mælt. Vinstrimenn gengu af göflunum. Æði vinstrimanna var slíkt að það var sérstaklega rætt í útvarpsþætti Hallgríms Thorsteinssonar nokkrum dögum eftir kosningarnar. Hallgrímur sagðist hafa heyrt „aldeilis hrikalegan munnsöfnuð“ notaðan um þetta listafólk og ræddi í þættinum við einn þeirra sem skrifað hafði undir umrædda yfirlýsingu, Þórarin Eldjárn rithöfund. Þórarinn sagði að margir hefðu haft samband við sig vegna yfirlýsingarinnar og væri það yfirleitt fólk í tengslum við Alþýðubandalagið og væri það sammerkt með öllu þessu fólki að það teldi sig hafa að minnsta kosti jafnmikinn ef ekki meiri ráðstöfunarrétt yfir atkvæði hans en hann sjálfur. Þórarinn sagði að hann og fleiri sem skrifað höfðu undir stuðning við Davíð Oddsson hefðu orðið varir við það að yfir þeim væri einhvers konar eignarréttur og hefði hann meðal annars verið spurður að því hvað hann hefði fengið borgað fyrir stuðninginn. Orðrétt sagði Þórarinn Eldjárn:
Þetta fólk getur ekki hugsað sér, að maður taki afstöðu út af neinu öðru en að maður fái eitthvað fyrir. Og um leið er það gefið upp, hver er valútan sem það lætur í staðinn. Það er til dæmis hylli og það er skrifað vel um mann og það er sagt að maður sé gott skáld. Munstrið ruglast, og þá er maður það ekki lengur. |
Ekki dettur Vefþjóðviljanum í hug að Hannes Hólmsteinn Gissurarson sé gallalaus og að verk hans séu hafin yfir gagnrýni. Auðvitað getur fólk haft sína skoðun á því hvort að hann hefði átt að hafa fleiri eða færri tilvísanir í bók sinni um Halldór Laxness, og slíkar skoðanir geta vel verið sprottnar af heilbrigðum áhuga á heimildanotkun í fræðiritum. Það er vitaskuld ekki þannig að Hannes Hólmsteinn verði ekki gagnrýndur af betri hvötum en hatri. En hver getur svarað því fyrir sig hvað sé líklegast til að hafa ráðið för ýmissa síðustu vikurnar. Fólksins sem reyndi að gera Hannesi eins erfitt fyrir og það gat, áður en bókin kom út. Fræðimannanna sem sumir virðast enn vart hafa sætt sig við að Hannesi hefur verið leyft að kenna við Háskóla Íslands. Þáttarstjórnandanum sem lýsti þeirri persónulegu skoðun sinni fyrir áramót að óþarfi hafi verið að bíða eftir svörum Hannesar þar sem hann ætti engar málsbætur – og hikaði svo ekki við að yfirheyra hann sjálfur í þætti sínum þrátt fyrir að þá væri ekki aðeins trúverðugleiki Hannesar í húfi heldur þáttastjórnandans sjálfs, og þannig mætti áfram telja. Alltsaman heilbrigð gagnrýni?