Laugardagur 10. janúar 2004

10. tbl. 8. árg.

Ídag eru 75 ár liðin frá því að ungur blaðamaður gekk ásamt hundi sínum upp í lestarvagn á járnbrautarstöðinni í Brussel og hélt áleiðis til Sovétríkjanna. Erindi hans þangað var að segja lesendum sínum frá því sem raunverulega færi fram þar eystra og fletta ofan af þeim sem þaðan sögðu skrautsögur. Sama dag, hinn 10. janúar 1929, tóku að birtast í barnablaði belgísks dagblaðs, Le Vingtième Siècle, teikningar er sýndu blaðamanninn í leik og starfi og reyndist hann eiga heldur viðburðaríka ævi. Ferðin til Sovétríkjanna varð árangursrík þó hættur hafi leynst við hvert fótmál, eins og hann átti eftir að kynnast víðar. Hann átti meðal annars eftir að taka glæpamenn Chicago til bæna, koma Tapíóka hershöfðingja frá völdum, ná veldissprota Ottókars Sýldavíukonungs úr höndum Bordúríumanna og stíga fyrstur manna fæti á Tunglið, hálfum öðrum áratug áður en Neil Armstrong kom þangað.

Í ferð sinni til Sovétríkjanna sá hinn ungi blaðamaður, sem Tinni heitir, margt sem dæmigert var fyrir það sem þar tíðkaðist.

Hann varð meðal annars vitni að því þegar auðtrúa breskum vinstrimönnum voru sýndar verksmiðjur sem sagt var að gengju á fullum afköstum, öfugt við það sem haldið væri fram á Vesturlöndum. Þegar Tinni skoðaði þær hins vegar nánar sá hann að þar fór engin sérstök starfsemi fram en aðeins hafði verið búinn til reykur og hávaði á meðan einfeldningarnir stóðu og göptu. Eins og flestir vita nú þá voru hinir og þessir vestrænir vinstrimenn tíðir gestir í Sovétríkjunum og fóru síðan heim og sögðu glæsisögur af framgangi sósíalismans. En Tinni var ekki eins grænn og þeir og skyggndist undir yfirborðið, en slíkt virðist geta reynst ótrúlegasta og jafnvel besta fólki ofviða á öllum tímum. Hvort sem í hlut á ríki, stjórnmálaflokkur eða einfaldlega einstaklingur sem fólk kynnist, þá er eins og sumt fólk skuli alltaf vera jafn grænt, að minnsta kosti fyrst í stað.

Tinni gerði fleira en fylgjast með vestrænum einfeldningum. Hann fylgdist með fundi þar sem öreigarnir fengu að kjósa. Sú kosning fór þannig fram að fyrst var kjósendum kynnt að í boði væru þrír listar og væri hinn fyrsti boðinn fram af Kommúnistaflokknum…

… eftir að það hafði verið tilkynnt voru allir þeir sem væru andvígir þeim lista beðnir um að gefa sig fram…

… að þessu sinni reyndist það enginn vera og því var tilkynnt að Kommúnistaflokkurinn hefði verið kjörinn með öllum greiddum atkvæðum.

Hið opinbera slær ekki slöku við, það er þó óhætt að fullyrða. Á vef Samtaka atvinnulífsins var í vikunni sagt frá þróun í fjölda starfa hér á landi og óhætt er að taka undir með Samtökum atvinnulífsins að þróunin er áhyggjuefni. Á fimm ára tímabilinu 1998 til 2002 fjölgaði starfandi mönnum á landinu um 10,4%, sem út af fyrir sig er ekki áhyggjuefni, en það er skiptingin á milli hins opinbera og einkageirans hins vegar. Fjölgunin hjá hinu opinbera, bæði ríki og sveitarfélögum, var 17,3% á þessu tímabili, en fjölgunin í einkageiranum var 8,3%, eða innan við helmingur af fjölguninni hjá hinu opinbera. Þegar litið er á skemmra tímabil, þróunina á milli áranna 2001 og 2002, er þróunin enn óhagstæðari. Þá fækkaði starfsmönnum einkageirans um 4% en starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga fjölgaði um 5%. Vaxandi atvinnuleysi á árinu 2002 hafði því engin áhrif á þróunina hjá hinu opinbera, þvert á móti þandist það út þegar einkageirinn varð að skera niður.

Nú kann einhver að hugsa með sér að þetta sé nú bara jákvætt. Störf séu störf og betra sé að ríki og sveitarfélög útvegi mönnum störf en að þeir mæli göturnar alla daga. Gott ef satt væri, því þá væri lítill vandi að eyða atvinnuleysi og halda uppi öflugu hagkerfi. En sú aðferð að láta hið opinbera sjá um að halda niðri atvinnuleysi hefur þegar verið reynd og sú tilraun endaði með ósköpum. Það var ekkert atvinnuleysi í ríkjum sósíalismans þar til Múrinn hrundi, en efnahagsástandið var skelfilegt enda starfskraftar illa nýttir og hagkvæmni skipti engu máli.

Staðreyndin er sú að engin leið er að láta hagkerfið ganga upp með því að hið opinbera taki til sín sífellt stærri hluta starfandi fólks. Eftir því sem starfsmönnum hins opinbera fjölgar, fækkar þeim sem greiða launin þeirra, það er að segja skattgreiðendum í einkageiranum. Að lokum verður báknið óviðráðanlegt og skattbyrðin óbærileg. Ríki og sveitarfélög búa ekki við það nauðsynlega aðhald sem einkafyrirtæki gera. Rekstur stofnana þarf ekki nauðsynlega að vera góður til að þær haldi áfram starfsemi. Stjórnendur þeirra þurfa aðeins að hafa hæfileika til að sannfæra þá sem fara með fjárveitingarvald hins opinbera um að stofnanirnar séu nauðsynlegar og þurfi meira fé til rekstrarins. Þessa hæfileika skortir sýnilega ekki, en það sem skortir er hins vegar að þeir sem úthluta skattfénu viti hvenær verður að segja nei. Það er ekki alltaf til stundarvinsælda fallið að segja nei, en ef þeir sem fara með fjárveitingarvaldið munu ekki hér eftir gera það oftar en hingað til, verða allir starfandi Íslendingar á launaskrá hins opinbera þegar fram líða stundir.