Þetta er líka reynsla annarra landa og þá ekki sízt Bandaríkjamanna. Þar hefur í meira en hundrað ár verið í gildi löggjöf gegn hringamyndun, bæði á landsvísu og í einstökum ríkjum Bandaríkjanna. Frægust er sú löggjöf, sem kennd er við John Sherman, öldungardeildarþingmann, en þau lög tóku gildi árið 1890 eða fyrir rúmlega eitt hundrað árum. Megin tilefni þeirra var myndun Standard Oil, olíuhringsins, en aðaleigandi hans var John D. Rockefeller. |
– Leiðari Morgunblaðsins 29. desember 2003. |
S
Velgengni Standard Oil Company fylgdi meira framboð, aukin gæði og lægra verð á olíu til neytenda. Sherman lögin, eins og önnur svonefnd lög gegn hringamyndun, voru sett með annað en hagsmuni neytenda í huga. |
vona einu sinni til tvisvar á ári víkur leiðarahöfundur Morgunblaðsins að svonefndum Sherman lögum í Bandaríkjunum. Hann lætur einnig fylgja með yfirborðskennda vísun í málaferli bandarískra yfirvalda gegn Standard Oil Company of New Jersey frá árinu 1911. Þessi upprifjun er jafnan notuð til rökstyðja kröfur um auknar hömlur á íslenskt atvinnulíf.
Já var ekki Rockefeller harðsvíraður kapítalisti sem braut samkeppni í olíuiðnaði á bak aftur, muldi litla keppinauta sína mélinu smærra, myndaði auðhring og hirti einokunargróða af saklausum almenningi? Og var hann ekki þessi skelfir þar til hann fékk makleg málagjöld í dómsölum; dæmdur sekur á grundvelli Sherman laganna?
Standard Oil var vissulega meiriháttar þátttakandi í ótrúlegum uppgangi olíuiðnaðarins á síðari hluta nítjándu aldar. Árið 1870 var það lítið fyrirtæki í Ohio með um 4% markaðshlutdeild en tuttugu árum síðar var það risavaxin fyrirtækjasamsteypa með 85% af innlendri olíuhreinsun á sinni könnu. Margt þurfti til að ná þessum frábæra árangri; bjóða járnbrautarfélögunum birginn, fjárfesta í nýrri flutningatækni, sýna mikla útsjónarsemi við kaup á hráolíu til vinnslu og halda afar nákvæmt bókhald um allan rekstur fyrirtækisins. Það var ekki af engu sem fyrirtækið dafnaði.
En hvað með neytendur? Sátu þeir ekki eftir með sárt ennið þegar Standard Oil „hrifsaði“ til sín æ stærri hluta markaðarins? Árið 1869 kostaði gallon af steinolíu 30 cent en 7,4 cent árið 1890 og 5,9 cent árið 1897. Ástæðan fyrir því að Standard Oil stækkaði svo ört var ekki síst geta fyrirtækisins til að bjóða betur en keppinautarnir. Sú geta kom ekki af sjálfu sér og var ekki fengin með sérleyfum eða annarri opinberri fyrirgreiðslu heldur útsjónarsemi á opnum markaði í keppni við ótal aðra þátttakendur. Neytendur fengu meiri og betri olíu á lægra verði. Þegar dómur féll í máli fyrirtækisins árið 1911 hafði markaðshlutdeild þess í olíuhreinsun þegar fallið niður í 64% og að minnsta kosti 147 olíuhreinsunarstöðvar kepptu við það. Þeirra á meðal voru stórfyrirtæki á borð við Gulf, Texaco og Shell.
Á síðari hluta níunda áratugar nítjándu aldar var hins vegar vaxandi stuðningur, ekki síst meðal bandarískra bænda, við að setja lög og reglur gegn sameiningu fyrirtækja. Þá eins og svo oft síðar þótti mönnum einnig að einstakir menn væru að raka til sín meiri auði en áður væru dæmi um þótt þá eins og jafnan síðan hafi þetta verið tilfinning en ekki staðreynd. Á sama tíma varð fjarskiptabylting, járnbrautir og símalínur teygðu sig í allar áttir og fjöldaframleiðsla leysti einyrkjann af hólmi. Þjóðfélagið var á hraðferð frá bóndanum til iðnrekandans. Undir þessum kringumstæðum vildu margir spyrna við fæti og ýmiss konar verndarstefnum óx fiskur um hrygg. Í þingskjölum frá þessum tíma má finna fjölda bænaskjala frá bændum og smáum framleiðendum um reglur gegn stórfyrirtækjum eða auðhringjum. Þar má jafnframt finna fullyrðingar um að framleiðslu á ótrúlegasta varningi stafi hætta af samþjöppun, allt frá eldspýtum til járnbrautarteina. Þetta höfðu menn á tilfinningunni þótt framleiðsla á flestum, ekki öllum, vörum ykist hratt á þessum tíma og verð færi hraðlækkandi. En eins og dæmin sanna gera menn sér ekki að góðu að framleiðsla aukist og verð lækki því þá kemur upp ásökun um undirboð. Það var því ekki síður vandi að gera þeim sem þannig eru stemmdir til hæfis fyrir rúmum hundrað árum en nú. Upp úr þessum jarðvegi urðu Sherman lögin til. Þeim var ætlað að verja stöðu lítilla fyrirtækja gegn hagkvæmni hinna stóru. Neytendur áttu ekki að fá að skipta við þann sem bauð best heldur þann sem þrýsti mest á þingmenn eins og Sherman. Á sama tíma og Sherman lögin voru samþykkt blasti við hverjum sem lokaði ekki öllum skilningarvitum að tollar voru helsta viðskiptahindrunin í Bandaríkjunum. Sherman lögin tóku ekkert á þessum hindrunum enda taldi Sherman stórfyrirtækin ekki síst skaðleg þar sem þau „græfu undan“ þeirri stefnu bandarískra stjórnvalda að „vernda innlenda framleiðslu með tollum“. Til að vernda óhagkvæma innlenda framleiðslu var því ekki aðeins þörf fyrir tollmúra, að mati Shermans, heldur varð einnig að setja bönd á hagsýnustu iðnrekendur meðal heimamanna. Aðeins þremur mánuðum eftir að Sherman lögin öðluðust gildi voru svonefnd McKinley tollalög samþykkt á Bandaríkjaþingi en þau höfðu hamlandi áhrif á samkeppni erlendis frá enda voru með þeim sett ný met í tollaálögum. Þau hefðu ekki verið samþykkt án atbeina Shermans.
Þessu til viðbótar má geta þess að Sherman sóttist eftir útnefningu Repúblíkanaflokksins til forsetaframboðs árið 1888 (og raunar einnig 1880 og 1884) en laut í lægra haldi fyrir Benjamin Harrison sem varð forseti. Eðlilega voru þetta Sherman mikil vonbrigði því hann þótti sigurstranglegur um tíma. Hann mátti ekki síst þakka manni að nafni Russel Alger ósigurinn en Alger var forstjóri Diamond Match Company. Auðhringur Algers varð skotspónn áhugamanna um lög gegn hringamyndun og fyrri samskipti Shermans og Algers hafa ekki dregið úr áhuga Shermans að koma böndum á fyrirtækjasamsteypur. Enda mun Benjamin Harrison forseti hafa sagt þegar hann undirritaði Sherman lögin að þar með hefði „John Sherman veitt Alger ráðningu“.
Það er útbreiddur misskilningur að með dómi í máli Standard Oil hafi sannast á fyrirtækið að það hafi dregið úr framleiðslu, hækkað verð og stundað ófyrirleitin vinnubrögð gagnvart viðskiptavinum sínum og keppinautum. Það var hins vegar dæmt til að leysa sjálft sig upp þar sem það væri andstöðu við Sherman lögin. Auðhringur var einfaldlega bannaður með Sherman lögunum. Formið var bannað hversu vel eða illa sem það kynni að reynast hluthöfum eða viðskiptavinum.
Þótt ekkert bendi til að nauðsynlegt hafi verið að brjóta Standard Oil upp á sínum tíma, heldur hafi neytendur þvert á móti notið hagkvæmni fyrirtækisins í meiri og betri olíu á lægra verði, er svo sem ekki að undra að Morgunblaðið sæki sér stuðning í þetta mál aldargamla mál þegar það vill rökstyðja aukin opinber afskipti af atvinnulífinu. Sherman lögin og málaferlin gegn Standard Oil hafa verið notuð af fleirum en leiðarahöfundum Morgunblaðsins á þennan hátt því einhvern veginn hefur orðið til sú hefð að þeir, sem ekki hafa nein skárri rök fyrir lagasetningu gegn hringamyndun, geta látið sér nægja að hrópa „Sherman lögin“ og „Standard Oil“, og þá fallast allir á aukin afskipti hins opinbera af atvinnulífinu.
Ef til vill segir það nokkra sögu um hve veikur málstaðurinn er þegar helsta haldreipi manna er að vitna með svo yfirborðskenndum hætti aftur í aldir.