Mánudagur 5. janúar 2004

5. tbl. 8. árg.

Þ

Að mati American Woman Road & Travel er Cadillac XLR bíll ársins.

að segir nokkra sögu að Toyota Prius var valinn bíll ársins 2004 á alþjóðlegu bílasýningunni í Detroit í gær. Prius er svonefndur blendingur. Hann gengur fyrir bensíni en safnar um leið raforku inn á rafhlöðu sem nýtt er þegar best hentar til dæmis við kaldræsingu og hægan akstur. Þegar meira afls er þörf tekur bensínmótorinn við. Þessi tækni gerir það að verkum að bíllinn eyðir aðeins um 5 lítrum á hundraðið. Hann hefur notið óvæntra vinsælda í Bandaríkjunum þar sem menn hafa ekki beinlínis verið frægir fyrir að velta sparneytni bíla mikið fyrir sér. Annar bílaframleiðandi, DaimlerChrysler kynnti stefnu sína til næstu ára á sýningunni og af henni að dæma mega ökumenn eiga von á ýmsum nýjungum í flestum gerðum bílvéla á næstu árum. Mark Chernoby aðstoðarforstjóri fyrirtækisins segir að „DaimlerChrysler muni ekki einbeita sér að einni ákveðinni tækni á næstu árum heldur muni bæði bensín- og díselvélar, rafmagnsmótorar, blendingar og efnarafalar leika hlutverk í því að minnka þau áhrif sem bílar hafi á umhverfið“. Þetta er í samræmi við það sem bílaframleiðendur hafa verið að gera undanfarna áratugi en orkunýting bílvéla og mengunarvarnir hafa tekið stórstígum framförum og þá um leið dregið úr þeim áhrifum sem bílar hafa á loftið sem íbúar í stórborgum anda að sér.

Hvað sem öllum áhyggjum af umhverfinu og spám um framtíðartækni  líður valdi tímaritið American Woman Road & Travel hins vegar Cadillac XLR sem bíl ársins. Hann er með 320 hestafla 4,6L V8 vél og eyðir tvö- til þrefalt á við Prius. Blaðið hefur um 15 ára skeið helgað sig umfjöllun um konur á vegum úti.

Nú um áramótin fóru bankar að auglýsa lán í erlendri mynt til íbúðarkaupa. Meðal annars auglýsti einn bankinn að um væri að ræða lán á „evrópuvöxtum“. Sem kunnugt er hefur lítill hópur manna krafist þess undanfarin ár að Ísland gefist upp á því að vera frjálst og fullvalda ríki og gangi í Evrópusambandið svo landsmenn geti fengið lán á evrópuvöxtum. Ef marka má auglýsingar bankanna er ljóst að sjálfstæði Íslands er ekki lengur í hættu af þessari ástæðu. Vextir í Bandaríkjunum er hins vegar lægri en í Evrópu svo þess verður væntanlega skammt að bíða að gerðar verði kröfur um að Ísland verði eitt ríkja Bandaríkjanna svo landsmenn geti fengið lán á ameríkuvöxtum.