Helgarsprokið 4. janúar 2004

4. tbl. 8. árg.

Flestir hafa heyrt af því hve menntun er gríðarlega mikilvæg. Því meiri menntunar sem maður aflar sér, því betra, og skiptir í raun litlu hver menntunin er, svona þannig, menntun er eiginlega góð samkvæmt skilgreiningu. Og ef hefðbundin menntun er góð, hvað má þá segja um símenntun? Hún er ekki síðri, enda er fólk nú í sífellu hvatt til að „bæta við sig þekkingu“ svo lengi sem nokkur kostur er. Svo lengi lærir víst sem lifir. Menntun, símenntun og endurmenntun eru orð dagsins. Svo sannfærðir eru menn um þetta að jafnvel það að afplána stutt námskeið getur skilað manni hærri launum, betri stöðu og hamingjan veit hverju öðru. Fyrirtæki og stofnanir greiða þátttökugjöld fyrir starfsmenn sína og meira að segja ýmis stéttarfélög – sem rekin eru fyrir nauðungargjöld svokallaðra félagsmanna sinna – gera hið sama, þó þar sé í raun verið að láta þá starfsmenn sem ekki sækja námskeið greiða námskeiðsgjöld fyrir félaga sína, sem að því búnu fá hærri laun og ganga fyrir um störf og umbun.

En já, endurmenntun, hún er semsagt gríðarlega góð og meira að segja til sérstök endurmenntunarstofnun og kennd við Háskóla Íslands sem býður upp á þúsund og eitt námskeið fyrir þá sem vilja endursímennta sig og verða þar með hæfari, betri og verðmætari í hinu og þessu. Eini gallinn er að þau eru svo mörg að fáir hafa tök á að sækja þau öll og auk þess hætt við að mörg stórgagnleg námskeið hverfi í það haf áríðandi námskeiða sem Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands býður upp á. Nýlega kom út námskrá Endurmenntunarinnar og sést þar glöggt hversu valið getur orðið erfitt. Vefþjóðviljinn vill því koma væntanlegum símenntamönnum til aðstoðar og vekja athygli á nokkrum námskeiðum sem óhætt virðist að mæla sérstaklega með við.

Fyrsta námskeiðið nefnist „Kynleg hegðun“ en því er í námskrá endurmenntunarstofnunar lýst svo:

Lögum samkvæmt ber að kyngreina opinbera tölfræði og viðtals- og skoðanakannanir. Af hverju? Sjaldnast er það svo að vatnsþétt skil séu milli kynjanna en oft er munur sem eðlilegt er að þeir hafi í huga sem í starfi sínu þurfa að sinna fólki. Í námskeiðinu er reynt að varpa ljósi á það hvernig kynin birtast í ýmsum rannsóknum, hvaða breytingar hafa orðið síðustu ár og áratugi og eru að verða og hvernig við getum mætt þörfum fólks með það í huga að ef til vill þurfi líka að taka tillit til þess að um er að ræða karla og konur, stelpur og stráka. Meðal þess sem er skoðað er afbrotaþróun kynjanna, mismunandi mataræði, staðan í skólunum, fjölmiðlaneysla, notkun á vímuefnum og kynlífshegðun.

Kennarar á þessu námskeiði verða alls níu, þar á meðal félagsfræðingarnir spaugsömu, Ingólfur V. Gíslason og Þorbjörn Broddason, og eru frekari meðmæli eiginlega óþörf.

Næst er rétt að nefna námskeið sem virðist litlu síðra og nefnist „Afbrýðisemi í samböndum“, en því er svo lýst í námskránni:

Afbrýðissemi er er ekki óalgengt vandamál í samböndum fólks og kemur oft upp í hjónabandsráðgjöf/meðferð og er jafnvel meginástæða fyrir því að hjón/pör leita aðstoðar ráðgjafa eða meðferðaraðila. Í mörgum tilfellum er ljóst að afbrýðisemi er meginástæða sambúðarvanda og getur leitt til enn frekari vanda, s.s. í kynlífi og jafnvel ofbeldis. Í námskeiðinu er fjallað um hugtök og skilgreiningar á afbrýðisemi, eðli afbrýðisemi, allt frá sjúklegri afbrýðisemi sem hefur þó truflandi áhrif á samband. Fjallað er um birtingarmyndir og fylgifiska afbrýðisemi og mat á afbrýðisemi, m.a. mat á hættu á ofbeldishegðun. Þá er fjallað um hugræna atferlismeðferð og fjölskyldumeðferð (systemic) við afbrýðisemi. Í námskeiðinu eru fluttir fyrirlestrar og unnið í vinnuhópum og hlutverkjaleikjum. Tekin eru raunhæf dæmi til útskýringar á greiningu og meðferð og eru þátttakendur hvattir til að leggja fram tilfelli til umræðu.

Kennari á þessu tímabæra námskeiði er Padmal de Silva, en að sögn Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands er hann „sérfræðingur á sviði afbrýðisemi, kynferðisvandamála fólks og átraskana“ svo hér er ekki síðri kanóna í boði.

Þriðja námskeiðið nefnist „Er sá guli að hverfa? Litróf, breytingar á því og möguleg úrræði“ og er því lýst svo:

Á undanförnum árum hefur rannsóknum á líftíma lita fleygt fram og hefur mönnum vaxið skilningur á breytingum á litrófi og hvernig atferli manna, einkum í iðnvæddum ríkjum, hefur orðið til að hraða þeim. Á námskeiðinu verður sjónum meðal annars beint að rannsóknum undir forystu dr. Amaik Sponz frá háskólanum í Szóhód, en Sponz-hópurinn hefur sýnt fram á að á undanförnum áttatíu árum hefur blái liturinn stækkað hraðar á kostnað gula litarins í litrófinu en á 300 árum þar á undan. Einnig verður fjallað um niðurstöður rannsókna á steingerðum jurtum og þá sögu sem þær segja um sambandið milli notkunar mannkyns á málmi og stöðu gula litarins í litrófinu, einkum gagnvart höfuðlitum en einnig verður stuttlega vikið að togstreitu gula litarins og undirlita. Kynntar verða kenningar sem segja að innan fárra áratuga verði guli liturinn að mestu horfinn úr náttúrunni en nemendur munu einnig fræðast um andstæð sjónarmið, meðal annars þau sem kynnt voru í Rönne-skýrslu UNESCO árið 2001 og þær tillögur sem þverfagleg nefnd sérfræðinga, meðal annars á sviði breytingarvirkni fólksfjölgunar, litrófsþrengsla og rýmisskila grunnlita („Toppolino-nefndin“) kynnti á síðasta ári.

Að sögn verða kennarar „kynntir þegar nær dregur“ en rétt þykir að vekja athygli á því að vilyrði hafi fengist fyrir því að „fulltrúi úr Toppolino-nefndinni [flytji] gestafyrirlestur og [svari] fyrirspurnum einn námskeiðsdaginn. Þær umræður fara fram á ensku eða ítölsku“, svo óhætt er að mæla með þessu námskeiði fyrir þá sem treysta sér til að tala þær tungur tvær.

Fjórða námskeiðið sem hér verður vakin athygli á nefnist „Lausnamiðuð nálgun í lífi og starfi“ og er því svo lýst:

Lausnamiðuð nálgun er áhrifamikil, gagnleg og margreynd aðferð til jákvæðra breytinga hjá einstaklingum, fjölskyldum, stofnunum og fyrirtækjum. Með þessari nálgun er er lögð áhersla á að fólk einblíni ekki á vandamálin og orsök þeirra við úrlausn mála heldur sjái það sem er að virka og geri meira af því. Sjónarhornið er lausnin (ekki vandamálið), framtíðin (ekki fortíðin), hvað gengur vel (ekki illa) og það leiðir til jákvæðs og raunsæs árangurs. Með sjónarhornið á lausnir hafnar þessi hugmyndafræði hefðbundnum hugmyndum sem álíta að besta leiðin til árangurs sé að finna orsök vanda, með því að greina hann, tala um hann og álykta út frá honum. Markmið og tilgangur námskeiðsins: Að sýna fram á árangursríka aðferð til að ná meiri árangri í lífi og starfi. Í námskeiðinu eru kynntar ýmsar leiðir að þessu marki og ýmis tækni kennd sem hefur verið notuð og rannsökuð af fagfólki í ýmsum stéttum með miklum árangri.

Þetta verða allt þörf námskeið og óhætt að hvetja alla til að skrá sig sem fyrst. Og þó. Því miður verður aðeins tekið við skráningum á þrjú af þessum fjórum námskeiðum, því eitt þeirra er ekki á vegum Endurmenntunarstofnunar Háskóla Íslands og verður víst ekki kennt annars staðar en í hugarheimi Vefþjóðviljans. Og þangað ætti enginn að hætta sér.