Laugardagur 3. janúar 2004

3. tbl. 8. árg.

Blaðamenn sem fréttastofa Stöðvar 2 ræddi við í gær voru ekki lítið ósáttir við orð sem forsætisráðherra lét falla á gamlársdag í þættinum Kryddsíld á þessari sömu stöð, en þar gagnrýndi hann tiltekna fjölmiðla fyrir að draga taum eigenda sinna. Blaðamenn DV og Fréttablaðsins könnuðust í samtölum við fréttastofuna ekkert við að sjónarmið eigenda blaðanna hefði haft nokkur áhrif á skrif blaðanna og kröfðust þess að dæmi yrðu nefnd um hið gagnstæða. Og blaðamaður af öðru blaði taldi blaðamenn „faglega“ og að því er virtist alls ófæra um að gera nokkuð sem ekki væri fullkomlega „faglegt“ og hafið yfir allan vafa. Ef marka má svör blaðamannanna er útilokað fyrir eigendur fjölmiðla að fá blaðamenn til að gera nokkuð sem ekki er algerlega fullkomið út frá sjónarhóli sanngjarnrar og heiðarlegrar blaðamennsku.

Blaðamenn eru miklu betri en annað fólk.

Eins og sjá má af þessum viðbrögðum blaðamannanna hafa sumir blaðamenn tilhneigingu til að setja sjálfa sig býsna hátt á stall og lyfta sér upp yfir hinn almenna mann. Þeir virðast reyndar, ef marka má fyrrnefnd viðtöl, alls ekki vera mennskir, heldur miklu fremur einhverjar guðlegar verur. Þeir eru – allir sem einn – fullkomlega heiðarlegir og hafa að auki fullkomna yfirsýn yfir það hvort þau verkefni sem yfirmenn þeirra fela þeim kunna að þjóna ákveðnum annarlegum tilgangi eða ekki. Blaðamenn sjá strax í gegnum það ef ritstjórar þeirra eða aðrir yfirmenn útgáfunnar óska eftir því að þeir fjalli um tiltekið mál með tilteknum hætti, ræði við tiltekna menn og láti tiltekin atriði koma fram í frétt, sem ef til vill á að þjóna ákveðnum málstað. Blaðamenn láta bara alls ekki blekkjast, því að þeir eru ekki eins og annað fólk. Og blaðamönnum dytti auðvitað aldrei í hug að taka þátt í því vísvitandi að þegja um mál sem kæmu eiganda fjölmiðils illa eða að segja óvenjulega rækilega frá því sem kæmi honum vel. Blaðamenn eru nefnilega heilagir menn.

Það er sennilega þessi heilagleiki sem varð til þess – svo dæmi sé tekið úr því að þess er óskað – að Fréttablaðið hefur ekki enn fjallað um bók sem fyrrverandi forstjóri Húsasmiðjunnar skrifaði fyrir rúmu ári. Í bókinni komu fram óþægilegar ásakanir fyrir eigendur Húsasmiðjunnar og Fréttablaðsins, en í stað þess að segja frá ásökununum eins og aðrir fjölmiðlar gerðu, var ritaður leiðari í Fréttablaðið þar sem ritstjóri þess sagði að sjónarmið forstjórans fyrrverandi væru bara skoðun en ekki frétt og þess vegna yrði ekkert um þau fjallað. Skoðanir fjölmargra annarra eru að vísu birtar í Fréttablaðinu á hverjum degi, en ekki skoðanir þessa fyrrverandi forstjóra sem allir aðrir töldu fréttnæma eins og gefur að skilja. Þeir sem vilja geta auðvitað trúað því að þetta viðhorf ritstjórans hafi eingöngu byggst á faglegu mati og heiðarlegri blaðamennsku.

Það er dálítið sérstakt þegar einstaklingar innan ákveðinna starfsstétta fara að ímynda sér að allir í stéttinni séu allt öðru vísi en allt annað fólk. Að af einhverjum óútskýranlegum ástæðum verði allir sem starfa á tilteknu sviði svo heiðarlegir og svo skynsamir að slíkt fyrirfinnist ekki meðal annarra manna. Og svo má velta því fyrir sér hvort einhverjum blaðamanni dettur til dæmis í hug að menn í öðrum starfsstéttum séu hafnir yfir gagnrýni með sama hætti. Ætli einhverjum blaðamönnum þyki til dæmis að stétt stjórnmálamanna sé prýdd slíku öndvegisfólki að þar finnist enginn sem eigi sinn líka meðal hins almenna manns? Skyldu einhverjir blaðamenn skrifa upp á það að stjórnmálamenn hugsuðu aldrei um annað en „þjóðarhag“, eða að í stjórnmálum væru sérhagsmunapot, atkvæðaveiðar, eða hvaðeina sem stundum er gagnrýnt, með öllu óþekkt? Eða er heilagleikinn eingöngu til staðar í stétt blaðamanna? En ef svo er, hvað á þá að halda um þá stjórnmálamenn sem áður störfuðu sem blaðamenn? Þeir eru ófáir. Eru þeir enn fullkomlega hlutlausir og hafnir yfir gagnrýni, eða hvarf heilagleikinn þegar þeir skiptu um starfsvettvang? Skyldu þeir þá verða heilagir á ný þegar þeir hætta í stjórnmálum, eða er nauðsynlegt að vera á launaskrá hjá fjölmiðli til að öðlast heilagleikann? Og er það þá launatékkinn um hver mánaðamót sem gerir blaðamennina hlutlausa gagnvart eigendum fjölmiðlanna?

Gott væri ef þeir blaðamenn sem telja sjálfa sig og starfsbræður sína annarrar gerðar en annað fólk myndu upplýsa hvernig á því stendur og hvort eða hvernig hinn almenni maður getur orðið fullkomlega heiðarlegur, réttsýnn og skynsamur eins og blaðamaður.