Á síðustu vikum hefur, eins og oft endranær, verið fjallað um fjárskort í heilbrigðiskerfinu. Það hefur jafnvel verið talað um niðurskurð og í þeirri umræðu fylgir gjarna með að nú sé enn verið að skera niður eftir niðurskurð síðustu ára. Tal af þessu tagi stangast illilega á við staðreyndir málsins, því staðreyndin er sú að útgjöld til heilbrigðismála hafa farið ört vaxandi á síðustu árum, og þegar litið er til fjárlaga næsta árs verður það ár engin undantekning. Hér er ekki aðeins um að ræða krónutöluhækkun, heldur hækkun að raungildi. Í skýrslum OECD hefur til að mynda komið fram að framlög til heilbrigðismála hafi hér á landi vaxið um 4% af landsframleiðslu á hverju ári á síðustu þremur áratugum, en vöxturinn í OECD hafi verið mun minni, eða að meðaltali 2,5%. Aukningin hér á landi á síðustu árum hefur verið enn meiri, eða 6% samkvæmt sömu heimildum. Íslendingar verja hærra hlutfalli landsframleiðslu sinnar til heilbrigðismála en OECD ríkin gera að meðaltali og er það breyting frá því sem var allt fram á níunda áratuginn þegar hlutfallið var lægra hér á landi.
Það hve Ísland ver miklu fé til heilbrigðismála miðað við önnur ríki, og hin gífurlega aukning útgjalda ríkisins til heilbrigðismála samfara stöðugum skorti á fé inn í heilbrigðiskerfið, hlýtur að vera til marks um að fjármunum sé ekki nægilega vel varið innan kerfisins. Þó að stundum sé látið að því liggja í umræðum um heilbrigðismál, að þeir sem vilji fara vel með fé og spara innan heilbrigðiskerfisins hafi minni áhuga á velferð annarra en þeir sem jafnan krefjast meiri útgjalda, er lítið fyrir þau sjónarmið gefandi. Vitaskuld vilja allir sæmilegir menn sem mesta velferð allra, en menn eru ósammála um leiðirnar. Sumir sjá aldrei aðra lausn á vandamálum en að ríkið leggi fram meira fjármagn, en aðrir telja nauðsynlegt að leita annarra leiða, svo sem að leysa heilbrigðiskerfið úr viðjum ríkisrekstrarins. Þeir gera sér grein fyrir því að ríkisútgjöld geta ekki vaxið endalaust og að aukning þeirra dregur úr verðmætasköpun í þjóðfélaginu og dregur þar með smám saman úr velferðinni. Gott heilbrigðiskerfi er dýrt og engin leið er að standa undir því nema verðmætasköpunin sé mikil.
Besta leiðin til að auka verðmætasköpun er að auka svigrúm einstaklinganna, meðal annars með lækkun skatta. Lægri skattar eru þess vegna mikilvægt velferðarmál, ekki aðeins vegna þess að með lægri sköttum hefur fólk meira á milli handanna til skamms tíma litið, heldur einnig vegna þess að lægri skattar fela í sér aukna verðmætasköpun til lengri tíma litið. Þeir sem fjalla um þjóðmál verða að horfa til langs tíma ekki síður en til skamms tíma og þeir mættu oftar stilla sig um að leggja til skammtímalausnir sem hafa öfug áhrif til lengri tíma litið.