Í nýjasta tölublaði Bjarma er rætt við dr. theol. h.c. Sigurbjörn Einarsson biskup um lífið og tilveruna. Bjarmi spyr um eitt og annað sem gjarnan kemur til tals um jólaleytið, segir meðal annars að jólaundirbúningur og jólahald hafi breyst og „einkennist æ meira af sölumennsku og efnishyggju“ og biður um álit dr. Sigurbjörns á því hvort til sé „einhver leið til að gefa þeim nýtt eða sitt rétta innihald á ný“. Nú er það svo, að menn geta sjálfsagt deilt um margt í þróun mála, bæði hvað hafi gerst og svo hvort það sé þá heldur til góðs eða ills nema hvort tveggja sé. Sjálfsagt verður því þó ekki mótmælt af viti að undanfarna áratugi hefur þróunin verið sú, mishröð þó milli ára, að auglýsingar, kaupmennska og viðskipti fyrir jól hafa aukist mjög verulega. Hefur stóraukin velmegun haft þar mikið að segja, fólk hefur getað veitt sér meira og þá eftir meiru að slægjast fyrir kaupmenn og framleiðendur. En þó varla verði efnt til mikla deilna um það hvort þróunin hafi verið í þessa átt, þá er ekki þar með sagt að ekkert sé um þau mál að segja eða hugsa. Dr. Sigurbjörn svarar Bjarma svo:
Það er svo en það tjóar ekki að fjasa um þessa hluti. Hvað er unnt að gera þrátt fyrir þetta? Það verður hver og einn að eiga við sjálfan sig. Okkur er allt of tamt að láta þrælka okkur. Við gerum okkur ómyndug með því að apa þann lífstíl sem mest ber á í kringum okkur. Vitaskuld er í þessu öllu spilað á heilbrigðar tilfinningar þegar verið er að benda á og auglýsa jólagjafir. Einn af leyndardómum kristinnar trúar er sá að vilja gleðja, að vilja hjálpa öðrum. Þetta er undirrótin að jólagjöfunum. Þær eru að uppruna til einhvers konar viðurkenning á því að mannkynið þáði ómetanlega gjöf þar sem Jesús var. Hann er gjöf jólanna. En svo hafa menn farið að leika á þessa strengi með gífurlegu offorsi í gróðaskyni. Ég er ekki að ásaka einn né neinn. En það er eins og ég sagði: Við erum ekki nauðbeygð til þess að lúta hvaða valdi sem er og dansa eftir hverjum pípublæstri. |
Jólin hafa misjafnan sess í huga fólks. Fyrir mörgum eru þau fæðingarhátíð Jesú krists, þess fagnaðar sem Guð veitti öllum lýðum. Þau eru gleðitími þar sem menn fagna þeirri gjöf sem er öllum öðrum meiri og sú ein sem í raun skiptir nokkru. Í huga annarra hafa jólin ekki þessa skírskotun. Þar kunna þau að vera vel þeginn dagamunur, frí frá daglegu amstri, ánægjustundir með fjölskyldunni, allskyns venjuhelgað ritúal, áhrifamikil tónlist, góður matur, vandaðar gjafir en án þess að minnst sé á nokkurn æðri mátt í neinni alvöru eða það þyki koma sérstaklega til álita að hann eigi raunverulegan hlut að máli, jafnvel þó skroppið sé, kannski í hefðarskyni eða umgjarðarleit, í kirkju eða annað guðshús. Fyrir enn öðrum eru jólin svo kannski ekki neitt neitt, bara nýr dagur sem tók við þar sem þeim fyrri sleppti. Það er svo misjafnt sem mennirnir leita að og misjafn tilgangurinn sem fyrir þeim vakir, eins og Tómas segir á einum stað.
Ekkert er það sem allir eru sammála um og þá ekki heldur svör dr. Sigurbjörns Einarssonar í Bjarma. En þau eru athyglisverð allt að einu. Það er ástæða til að taka undir þá ábendingu dr. Sigurbjörns – brýningu jafnvel öllu heldur – að fólk er ekki nauðbeygt til að láta undan þeim þrýstingi sem hér er verið að tala um. Hvort sem átt er við auglýsingar á varningi, heimsskilning sem lesa má úr vinsælum kvikmyndum, stundarviðhorf vinahópsins eða það sem af og til er jafnvel kallað gildismat heillar kynslóðar, þá er hver einn og einasti í raun frjáls að sínu vali. Hver og einn má og ætti að eiga gerðir sínar, meginákvarðanir, viðhorf og lífsskoðun við eigin sannfæringu og vera reiðubúinn að standast þau próf sem hún leggur fyrir hann, að minnsta kosti ef allt er með felldu. Hvort kaupmaður er að bjóða glingur, grilluseljari nýtt þúsundáraríki eða nýr og ferskur spámaður birtist og býður orlof frá hversdagsleikanum, þá þarf enginn í raun að láta undan slíkum þrýstingi, hversu freistandi sem þó er alltaf hægt að búa slík boð. Þó sumir hafi raunar vanið dómgreind sína af því að skipta sér of mikið af daglegum ákvörðunum þá er það ekki svo að fólk sé í raun varnarlaust fyrir slíkum þrýstingi. Fólk ætti þvert á móti að spyrja dómgreind sína ráða og fara frekar eftir henni en kenningu dagsins, á hvaða sviði tilverunnar sem hún kann að birtast eins og skyndileg svalalind sem einhver Móses nútímans hefur slegið úr kletti.
Það ætti ekki að þurfa að hugsa fyrir fólk. Jú víst er um það, sumir skulu alltaf vera útsettari en aðrir fyrir bráðræðisákvörðunum og gleypa einhverja fluguna eins og lífsþreyttur lax og sem bítur á af pirringi frekar en hungri. En það er bara þannig. Hvort sem það var Guð eða tilviljunin sem gerði það, þá var manninum gefinn frjáls vilji. Það á ekki að reyna að svipta manninn þessum frjálsa vilja með því að vernda hann út í það óendanlega fyrir röngum ákvörðunum hans sjálfs. Á sem allra flestum sviðum tilverunnar ætti það að vera á ábyrgð hvers og eins að velja ekta vöru en stökkva ekki á hvaða dót sem er, ef svo mætti segja. Hvort sem hversdagsleg álitamál eða grundvallarspurningar lífsins eru í húfi þá fer best á því að hver og einn eigi svarið við sína eigin sannfæringu og þurfi ekki að þola að gildismat annars sé neytt upp á hann, hversu „réttara“ sem það kann svo að vera í raun og veru. Jafnvel þó að það geti verið skítt að horfa á annað fólk taka „rangar“ ákvarðanir þá er mikils virði að fólk sé frjálst að því að taka eigin ákvarðanir og þá ekki aðeins „réttu“ ákvarðanirnar. Þó einum geti þótt átakanlegt að horfa upp á rangar ákvarðanir, sem kannski eru teknar undir síbylju auglýsinga, heimsmynd tískukvikmynda, viðhorfum dagsins eða jafnvel einfaldlega meinloku einstaklings, þá er það gjaldið sem sanngjarnt er að greiða fyrir það örlæti að manninum var á sínum tíma gefinn frjáls vilji.
Og að þessu sögðu óskar Vefþjóðviljinn lesendum sínum öllum gleðilegra jóla.
Yður er í dag frelsari fæddur. Altaristafla Mosfellskirkju í Árnesprófastdæmi, mynd tekin úr þriðja bindi Kirkna Íslands, ritraðar Þjóðminjasafns Íslands, Húsafriðunarnefndar og biskupsstofu. |