Helgarsprokið 21. desember 2003

355. tbl. 7. árg.

Andlátsfréttir gagnmerkra manna, eru meðal þess sem hin skárri dagblöð birta reglulega. Þetta blaðaefni er eiginlega í senn eðlilegt og undarlegt. Þó hinir látnu hafi vafalítið oftast verið hinir nýtustu borgarar þá er sennilega algengast að hér séu blöðin að segja lesendum sínum að nú sé dauður nokkur sem þeir hafa aldrei heyrt nefndan fyrr og munu aldrei nokkurn tíma heyra nefndan framar. Menn geta verið hinir merkustu, haft mikil og varanleg áhrif á umhverfi sitt, án þess þó að verða fjöldanum sérstakega minnisstæðir. Og jafnvel þó svo standi um stund að nafn þeirra sé flestum kunnugt, þá líður sjaldan á löngu þar til það hverfur til þeirrar almennu gleymsku sem flestum er búin. Á dögunum kom út ævisaga Valtýs Stefánssonar, manns sem meðal annars var ritstjóri Morgunblaðsins um tæplega fjörutíu ára skeið og ávann því nafnið blað allra landsmanna og sjálfum sér einkunnina faðir íslenskrar blaðamennsku. Hversu margir ætli kunni á Valtý nokkur veruleg skil nú, eða jafnvel aðeins þekki nafn hans, svo ekki sé farið fram á meira? Hversu margir ætli líti upp við það að nú býðst vegleg og vel unnin ævisaga hans, saga sem um leið er ekki aðeins saga Morgunblaðsins, áhrifamesta dagblaðs Íslandssögunnar, heldur segir einnig margt um íslenskt þjóðlíf á tuttugustu öld?

Nei, þó flestir þekki til Morgunblaðsins, þá er ekki þar með sagt að ævisaga þess manns sem mestu hefur ráðið um þróun þess, veki athygli þeirra. Sem vitanlega er ósköp eðlilegt. Hver hefur ekki kveikt á ljósaperu án þess að fyllast áhuga á Edison? Hversu margir kusu ekki Ólaf Ragnar án þess einu sinni að þekkja Gunnar Stein í sjón, hvað þá meira? En hvort sem ævisaga Valtýs Stefánssonar, sem Jakob F. Ásgeirsson hefur nú sent frá sér, vekur athygli fleiri eða færri, þá er hún jafn fróðleg. Ekki síst mætti hún vera hnýsileg því fólki sem er ólíklegast allra Íslendinga til að lesa hana; gösprurum, vinstrimönnum og ungu fólki, að ekki sé talað um unga sígasprandi vinstrimenn sem alltaf skal vera meira en nóg til af. Valtýssaga getur nefnilega orðið til að vekja mönnum skilning á ýmsu; og þá ekki síður orðið til þess að slá á ýmsar yfirborðshugmyndir sem margir hafa gert sér um svo margt í íslensku þjóðlífi tuttugustu aldar.

Eftir því sem tímar líða fækkar þeim sem hafa til þess að gera óbrjálaða hugmynd um þau átök sem stóðu um framtíð Íslands og hvar landið skyldi skipa sér meðal annarra ríkja. Sumir halda meira að segja að þar hafi tekist á sambærileg öfl og beitt svipuðum meðulum. Sennilega hafi báðir farið offari og svona, en allir hafi nú viljað vel og það sé fyrir mestu. Sameiginlegt markmið, ólíkar leiðir. – Jájá. Ein af þeim myndum sem Valtýssaga dregur upp, er það hvað liggur að baki því að Morgunblaðið varð að því blaði sem með hæfilegri fjarlægð frá skáldlausri nákvæmni má kalla blað allra landsmanna. Undir forystu Valtýs Stefánssonar lagði Morgunblaðið áherslu á að flytja fræðandi efni um ólík mál, skemmtiefni ýmiss konar og fréttir af innlendum og erlendum málefnum. Og það sem skipti ekki minnstu, Morgunblaðið kostaði jafnan kapps að skilja að stjórnmálaskrif sín og fréttirnar. Morgunblaðið var jafnan borgaralegt blað, barðist fyrir verslunarfrelsi, frelsi borgarans til orðs og æðis og fylgdi Sjálfstæðisflokknum að málum. En allt var þetta ákvörðun blaðsins en ekki flokksins, öfugt við það sem alltaf einhverjir hafa ímyndað sér. Og stjórnmálaskrif blaðsins voru sett fram með öðrum hætti en tíðkað var á öðrum blöðum; blöðum sem ýmsum kvað vera eftirsjá í.

Valtýr og Winston fara yfir stöðuna í stríðinu.

Í Valtýssögu fæst svolítil innsýn í þá blaðamennsku sem stunduð var á vinstri vængnum, þarna þar sem andans mennirnir skrifuðu víst: „Valtýr og samherjar hans í stjórnmálum voru iðulega kallaðir landráðamenn, auðvaldsleppar, kvislingar, lygarar, mútuþegar, svikarar, agentar, æsingamenn, falsarar, hyski, böðlar, níðingar, hræsnarar, kúgarar, illþýði, rindlar, fantar, utanveltubesefar, ragmenni, leppar Bandaríkjaauðvaldsins, fól, ærulaus ræskni, meinsærismenn, fífl, arftakar Júdasar, úrhrök þjóðfélagsins – svo aðeins fátt eitt sé talið upp af orðaleppum Þjóðviljans.“ Og svo virðast menn stundum hissa á að vinstriblöð hverfi þegar þau þurfa að treysta á þá sem kaupa þau af fúsum og frjálsum vilja. En það er nú eitt, Morgunblaðið mátti á tímum Valtýs, eins og kannski einnig á öðrum tíma, keppa við blöð sem haldið var gangandi af öðrum ástæðum en þeim að nokkur verulegur fjöldi manns vildi í raun kaupa þau eða hefði smekk fyrir þeirri blaðamennsku sem þar var stunduð undir yfirskini fréttaflutnings. „Kommúnistar geta vitaskuld gefið út sitt blað eins lengi og Stalín vill“ sagði Valtýr í bréfi til Huldu dóttur sinnar og bætti við: „Og aðstaðan við Tímann er sérstök að því leyti að Sambandið getur slett hvaða taprekstri sem er ofaná verslunarbákn sitt.“ Morgunblaðið á hinn bóginn þurfti að höfða til fólks, þurfti að vera skrifað þannig að fólk vildi lesa það, það var ekki bara gefið út á kostnað einhverrar verslunarsamsteypu til að þjóna sérstökum hagsmunum.

Og það voru ekki bara einhverjir smápjakkar sem stóðu fyrir orðbragði því sem Þjóðviljinn dældi yfir menn. Í Valtýssögu fæst ofurlítil mynd af manni eins og Halldóri Kiljan Laxness og framgöngu hans. Í bókinni segir frá því þegar Halldór tekur upp á því árið 1952 – og þá er hann fimmtugur að aldri, kominn nálægt Nóbelsverðlaunum – að ásaka Valtý fyrir að hafa stolið ritlaunum sem skáldið hefði átt inni hjá Morgunblaðinu, tuttuguogátta árum áður. Gengu greinar á víxl um skeið og virðist málatilbúnaður Halldórs með hreinum ólíkindum, og verður ekki trúverðugri þegar rakin eru vinsamleg samskipti hans og blaðsins lengi eftir að Valtýr átti að hafa stolið af honum launum, svona samkvæmt því sem Halldór hélt fram tæpum þremur áratugum síðar. Enda lagði Halldór ekkert fram til stuðnings ásökunum sínum annað en orðbragð sem flestir aðrir ná að vaxa upp úr, talsvert fyrir fimmtugt. Um þetta segir í Valtýssögu: „En svona var Þjóðviljinn skrifaður, það var allt leyfilegt – og Halldór Laxness var sannarlega í annarlegu hugarástandi á þessum árum. Hann hélt því til dæmis fram að Keflavíkursamningurinn 1946 væri „samningur um að íslenska þjóðin skuli útþurrkuð“ og að þeir sem mæltu fyrir samningnum, forsætisráðherrarnir Ólafur Thors, Stefán Jóhann Stefánsson og Bjarni Benediktsson, stæðu eftir „með blóði drifnar hendur“, „ósnertanlegir eins og maður sem hefur myrt unnustu sína“!“ Morgunblaðið hafði því gjarnan eitt og annað um stjórnmálaskrif Halldórs að segja, en um skáldsögur hans var yfirleitt fjallað mjög vinsamlega í blaðinu.

Í Valtýssögu kemur ótalmargt fram um sögu Morgunblaðsins og vitaskuld margt sem kemur stjórnmáladeilum ekkert við. Á einum stað er sagt frá því að í Alþýðublaðinu hafði birst frétt þess efnis að tveir drengir hefðu hrapað í bjargi úti á landi og annar látist. Morgunblaðið hafði hins vegar ekkert sagt af málinu og kom það til af því að fréttaritari þess hafði ekki látið svo lítið að hringja suður. Ívar Guðmundsson, hinn kunni fréttastjóri, hringdi í fréttaritarann og spurði hvort hann hefið ekki vitað af slysinu og sá hélt það nú, ekki væri um annað talað á staðnum. Nú hvers vegna þá ekki að láta vita af því, vildi Ívar vita. Ja ég vildi nú vita hvernig þessu lyktaði, annar dó þegar en hinn var lagður á sjúkrahús og vart hugað líf, svaraði fréttaritarinn svokallaði. Aldarfjórðungi síðar, á sextíu ára afmæli Morgunblaðsins rifjaði Ívar þetta upp og bætti við að enn lifði strákur svo það hefði getað orðið bið á fréttinni.

Aðalatriði bókarinnar er þó vitaskuld Valtýr sjálfur, ferill hans, skoðanir og lífsviðhorf. Ef marka má bókina hefur Valtý Stefánssyni jafnan verið mjög hugað um að verða landi sínu og þjóð að sem mestu liði, hann velur sér nám eftir því sem hann telur landið í þörf fyrir, hann er óþreytandi að fræða og hvetja til framfara og í greinum hans blasir víða við sú hugsun að framkvæmdamenn eigi að verða ekki aðeins sér heldur landinu til gagns og ávinnings. Og umfram ýmsa aðra sem þó verða til gagns, hver á sínum stað, þá var Valtýr alltaf að og á ólíkum vígstöðvum og undi sér ekki hvíldar. Hann sat iðulega á blaðinu fram á nótt og þá gjarnan eftir að hafa eytt drjúgum tíma á vikulegum stjórnarfundi Skógræktarfélagsins, þar sem hann var lengi formaður, en skógrækt landsins varð honum geysilegt kappsmál. Það var strax á fyrsta formennskuári sínu sem hann hóf baráttu fyrir því að friðað yrði til ræktunar landsvæði nokkurt ofan Reykjavíkur og fáir borgarbúar höfðu þá heyrt getið. Landsvæði þetta fékk fljótlega, að tillögu Sigurðar Nordals, nafnið Heiðmörk og þangað hafa margir síðar gert sér ýmis erindi á ólíkum tímum sólarhrings.

Valtýr Stefánsson sat um tíma í bæjarstjórn Reykjavíkur. Í framboðsræðu árið 1938 lýsti hann þeim muni sem meðal annars væri á sjálfstæðismönnum og vinstri mönnum:

Deila okkar við vinstri flokkana snýst að miklu leyti um það hvort okkar starf eða þeirra, okkar stefna eða þeirra, er hagkvæmari og heillavænlegri fyrir alla alþýðu manna í landinu. Stefnurnar, aðferðirnar, eru svo gerólíkar, okkar og þeirra, sem framast er unnt. Kjörorð okkar er: Sjálfstæð þjóð því aðeins að hér búi sjálfstæðir einstaklingar. Stefna okkar er að gera sem flesta þjóðfélagsþegna sjálfbjarga, sem fæsta hjálparþurfi – svo þeir sem hjálpar þurfa að njóta geti átt von á sem mestum stuðningi. Stefna hinna er að sýna hjálparþörfina í þjóðfélaginu sem mesta, með því að gera sem flesta ósjálfbjarga. Slík eru vanheilindi þeirra manna og svik við þá sem þurfa aðstoðar við. Þeir hafa þá trú, rauðu broddarnir, að þeir geti upphafið sjálfa sig á rústum hins frjálsa framtaks þjóðarinnar með því að gera sem flesta af verkalýð landsins að ölmusuleitandi ríkisþrælum.

Og er það ekki enn svo að vinstri menn þjóðfélagsins vilja í raun hafa sem flesta á bótum, hvaða nafni sem nefnast? Bregðast þeir ekki illa við ef einhver vill fækka bótaþegum en lækka þess í stað skatta, þannig að sem flestir geti framfleytt sér á afrakstri eigin vinnu en þurfi ekki bótagreiðslur ríkisins til að draga sig að landi? Hvað finnst vinstri mönnum til dæmis um þá hugmynd að frekar eigi að styðja tekjulitla öryrkja en þá sem eru með góðar tekjur eða búa að stuðningi tekjuhás maka? Kalla slíkar hugmyndir ekki yfirleitt á málaferli?

Já, hefur svo mikið breyst, þegar allt kemur til alls?