Laugardagur 20. desember 2003

354. tbl. 7. árg.

Vilt þú samkeppni eða fákeppni? Þannig hefur ein elsta bókaverslun höfuðborgarinnar, Bókabúð Lárusar Blöndals, spurt að undanförnu. Bókabúð Lárusar hefur auglýst að tvær keðjur séu að verða einar á markaðinum, annars vegar séu Hagkaup, Bónus, og fjölmörg fyrirtæki þeim nátengd og hins vegar séu bókabúðir Máls & menningar, Penninn og Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar. Í auglýsingum Bókabúðar Lárusar er neytendum bent á að hver og einn hefur áhrif á slíka þróun, allt eftir því hvar hann ákveður að eiga viðskipti sín. Auðvitað geta menn haft mismunandi skoðanir á því hvort Bókabúð Lárusar lýsir þróuninni rétt eða þá því hvort sú þróun er góð eða slæm, en það er annað mál. Það sem er ánægjulegt, er ábendingin um það að það séu neytendur sjálfir sem ráði heilmiklu um þróunina.

Það er einfaldlega mjög eðlilegt að þeir sem telja að einhver fyrirtæki séu orðin „of stór“, „of sterk“ eða of eitthvað, að það fólk bregðist við með því að eiga sín viðskipti annars staðar. Þeir sem telja að Bónus og Hagkaup séu að „ganga af bókabúðunum dauðum“, þeir fara þá einfaldlega í Listhúsið í Laugardal og versla við Lárus Blöndal. Hinir, sem sjá ekkert að því að bóksalan færist í stórmarkaðina, þeir fara þá bara þangað. Það er einmitt æskilegt að hinn almenni maður fái að taka slíkar ákvarðanir, hver fyrir sig, og enginn neyði gildismat sitt yfir á aðra. Það sem er hins vegar óeðlilegt er að hið opinbera hafi sett sérstök samkeppnislög í þeim tilgangi að koma með valdi á þeirri „samkeppni“ sem neytendur virðast ekki tilbúnir að vernda með viðskiptum sínum. Ef að neytendur eru ekki áhugasamari um „virka samkeppni“ en svo að þeir fara til þeirra sem eru stærstir, þá verður bara svo að vera. Þá á hið opinbera ekki að skipta sér af því. Enda er ekkert sem segir að fáir stórir berjist af minni hörku – með verðlagningu, þjónustu og gæðum – um hylli neytenda en margir litlir.

Í samkeppnisteoríunum eru margar meinlokur. Ein þeirra snýst til dæmis um verðmerkingu í verslunum. Opinberir eftirlitsmenn hafa ætt í verslanir og sektað þær sem ekki hafa nógu áberandi verðmiða á vörunum. Hvern ætli sé þar verið að vernda? Ætli einhver viðskiptavinur hafi lent í því að kaupmaðurinn neitaði að segja honum hvað vara kostaði? Og ætli kúnninn hafi að því búnu verið þvingaður til að kaupa hana? Verðmerkingaroffors þeirra á Samkeppnisstofnun er skýrt dæmi um æsing sem tæplega verður neytendum til gagns og að minnsta kosti þeir eiga enga heimtingu á. Hvernig er annars hægt að sannfæra sjálfan sig um það að fólk úti í bæ eigi heimtingu á því að það sé bannað að reka verslun á Íslandi án þess að hafa verðmerkingu á hverri vöru? Að það væri í raun betra fyrir neytendur að slíkri verslun yrði lokað með lögregluvaldi en að hún fengi að standa opin?

Þó margt af því sem starfsmenn Samkeppnisstofnunar gera og segja virðist benda til að þar á bæ sé rekið stríð sem helst verði líkt við trúarbragðastríð, þá má ekki alltaf áfellast starfsmenn stofnunarinnar. Þeir sitja uppi með lög sem þeim er ætlað að framfylgja, svona eins og ekki þýðir að skamma skattstjórann fyrir álagningarhlutfallið. Hitt er svo annað mál að það eru samkeppnisstofnunarmenn allra landa sem knýja áfram umræðuna um aukin völd sín og áhrif. Þeir fara um heiminn, halda ráðstefnur og gefa út rit og hver rökstyður eigin kröfur með vísan í það sem félagarnir eru að segja, það sé „þróunin á alþjóðavísu“. Vefþjóðviljinn er á hinn bóginn mjög eindregið þeirrar skoðunar að taka þurfi svo kölluð samkeppnislög til gagngerrar endurskoðunar og þá í öfuga átt við það sem samkeppnisstofnanaiðnaðurinn óskar.