Engin skerðing á tekjum ríkisins er svo smá að ekki sé ástæða til að fagna henni og þess vegna er ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli nú standa að frumvarpi til lækkunar erfðafjárskatts um helming eða þar um bil. Erfðafjárskattur er ekki veigamikill tekjuliður hjá ríkinu og að óbreyttum lögum var áætlað að hann myndi skila um 800 milljónum á næsta ári. Erfðafjárskatturinn er hins vegar sérlega ósanngjarn skattur. Hann er tekinn af eignum sem þegar er búið að skattleggja og hann verður stundum til þess að erfingjar lenda í vandræðum og neyðast til að selja eignir sem verið hafa lengi í eigu fjölskyldunnar. Með þeim breytingum sem nú standa til lækkar almenna skatthlutfall erfðafjárskattsins um helming, úr 10% í 5%, og hámarkið úr 45% í 10%. Þar við bætist að frímarkið hækkar úr 60.000 krónum í 1.000.000 króna.
Annað þarft mál er niðurfelling sjómannaafsláttar, en með sjómannaafslættinum hefur ríkið niðurgreitt störf sjómanna um meira en einn milljarð króna á hverju ári. Nú hefur fjármálaráðherra haft forystu um að þessi afsláttur verði lækkaður í áföngum svo hann falli niður í ársbyrjun 2008. Niðurgreiðsla á launum einnar starfsstéttar hefur verið afar óeðlileg, því launagreiðslur eiga vitaskuld að koma með beinum hætti frá vinnuveitendum en ekki með óbeinum hætti með afslætti á sköttum.
Þriðja þingmálið sem hér skal nefnt er minna gleðiefni. Það kemur frá nokkrum þingmönnum sem sjá sér hag í að minna á sig meðal kjósenda sinna með því að leggja fram þingsályktunartillögu til að þrýsta á um gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Sex þingmenn lögðu ályktunina fram, en nú má gera ráð fyrir að einn þeirra, Sigurjón Þórðarson þingmaður Frjálslynda flokksins, hafi fallið frá tillöguflutningnum. Ástæðan er auðvitað sú, að eins og allir hljóta að hafa gert sér grein fyrir, þá var það kýrskýrt af hans hálfu – eins og hann mun hafa orðað það – að göngin gætu ekki legið undir Vaðlaheiði. Hann vildi allan tímann fá göng undir Holtavörðuheiði og þótt þingmaðurinn hafi í upphafi staðið að ályktun um Vaðlaheiðargöng hljóta allir að sjá að ekki er hægt að ætlast til að hann fylgi henni eftir þegar þetta úrslitaatriði náði ekki fram að ganga.