Þegar sveitarstjórnarmenn koma saman ætti að fara hrollur um skattgreiðendur. Fulltrúaráðsfundur Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var fyrir helgi var engin undantekning þar á og stóð undir nafni sem hrollvekja. Ef marka má fréttir af fulltrúaráðsfundinum var almenn samstaða þar um að „efla sveitarstjórnarstigið“. Verkefnin séu spennandi(!) en kostnaðarsöm og tryggja þyrfti nægt fjármagn til þeirra. Það er óhætt að ráðleggja skattgreiðendum að halda fast um budduna þegar sveitarstjórnarmenn eru í þessum ham, því þeir hafa einstakt lag á að taka að sér fleiri spennandi verkefni en þeir ráða við og hækka skatta jafnframt því sem þeir auka hallarekstur og skuldasöfnun. Vefþjóðviljinn hefur oft gagnrýnt ríkisvaldið fyrir of háa skatta og of mikla eyðslu, en ríkisvaldið er þó nánast hátíð hjá sveitarstjórnunum. Og víst er að ráð sveitarstjórnarmanna batna ekki eftir því sem þeir koma fleiri saman og leggjast allir á eitt um að ná sem mestu skattfé til sín og takast á hendur sem flest verkefni.
Reynslan sýnir að þingmenn og ráðherrar eiga margir nokkuð erfitt með að standast þrýsting til aukinna útgjalda, en þeir eru þó almennt öllu staðfastari en sveitarstjórnarmennirnir sem virðast beinlínis í sífelldri leit að nýjum verkefnum til að sóa skattfé. Hvers kyns samkomur þeirra, jafnvel sakleysislegir nefndarfundir, snúast yfirleitt upp í keppni um nýjar útgjaldahugmyndir. Sveitarstjórnarmenn virðast sannfærðir um að skattgreiðendur geri sér ekki grein fyrir því að nýjar útgjaldahugmyndir kosta hærri skatta – og það má ef til vill til sanns vegar færa að nokkru leyti. Sveitarstjórnarmenn – og aðrir stjórnmálamenn – hafa nefnilega þá afsökun að vera undir stöðugum þrýstingi fólks sem vill að aðrir greiði fyrir áhugamál þess. Þessir tveir hópar mynda svo margvísleg bandalög sem snúast í megindráttum um það, að taka fé af hinum almenna manni til að greiða áhugamál þrýstihópanna gegn því að þrýstihóparnir stuðli að endurkjöri stjórnmálamannanna.