Helgarsprokið 23. nóvember 2003

327. tbl. 7. árg.
„Þá skellti mamma upp úr og sagði að Lotta mætti segja þú“. – Og „fjandinn“ líka? spurði Lotta. – Nei, ekki „fjandinn“, sagði mamma. Þegar mamma var farin fram sagði Lotta: – Nú veit ég. Þegar ég meina „fjandinn“ segi ég „Fransson“ því mamma er svo ánægð þegar ég segi „Fransson“.“
– A. Lindgren. Börnin í Skarkalagötu.

Mikið Fransson eru það margir sem virðast halda að ríkið geti allt, að það sé bara bókstaflega omnípótent. Með lögum skal ekki land byggja og ólögum eyða, nei aldeilis ekki. Með lögum skal heldur hvers manns vanda leysa.

„Þessi lög eru sett til að þau sem að lögin setja, sem og einhverjir kjósenda þeirra, finni til vellíðunnar af þeirri ástæðu einni saman að lögin voru sett.“

Fyrir nokkrum árum lögðu þingmenn Kvennalistans fram þingsályktunartillögu þar sem skorað var á forsætisráðherra að skipa nefnd sem vinna skyldi að framgangi stefnu Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum. Frá þessu var sagt hér í blaðinu snemma árs 1997 með þeim orðum að enginn efaðist um að góður hugur byggi að baki. Og það kann að vera, að þessi tillaga hafi verið lögð fram af góðum hug en þá hljóta flutningsmenn að hafa verið einfaldir í meira lagi ef þeir hafa trúað því að það drægi úr ofbeldi gegn konum ef um það væri fjallað í nefnd á vegum forsætisráðuneytis. En voru þingmenn Kvennalistans á þessum árum einfeldningar?

Nú fyrir skömmu var lagt fram frumvarp til laga um bann við kaupum á vændi. Og auðvitað hverfur vændi eins og dögg fyrir sólu þegar lögin taka gildi. Í það minnsta hætta allir að kaupa það, rétt eins og allir hættu að kaupa fíkniefni daginn sem þau voru bönnuð. Í greinargerð frumvarpsins er látið svo líta út að lögin muni draga úr ofbeldi gegn konum og svo er vísað til tveggja sérfræðinga um sænsku leiðina svo kölluðu en við hana eru lögin kennd. Fyrst er það hún Gunilla Ekbert en hún ku starfa sem sérstakur ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar í vændi og mansali og því augljóslega sérfræðingur á breiðu sviði. Í greinargerð frumvarpsins segir að Gunilla hafi sagt á fundi hjá Stígamótum að árangurinn af sænsku leiðinni hafi ekki látið á sér standa, „þannig hafi götuvændi í sænskum borgum nánast horfið“ [sic]. Svo er það hún Margareta Winberg en hún var jafnréttisráðherra Svíþjóðar þar til á dögunum að hún var gerð að sendiherra í Brasilíu. Hún tók víst undir allt sem sagt er í greinargerðinni og allt sem hún Gunilla sagði líka og þarf því ekki að hafa fleiri orð um hana.

En svo kom hún Petra Östergren. Hún hafði víst ekki bara talað við vinkonur sínar heldur líka nokkrar vændiskonur og þá kom í ljós að sænsku lögin höfðu ekki verið sænskum vændiskonum sérstaklega hjálpleg, eiginlega bara þvert á móti. Öryggi vændiskvennanna var minna og aðstæður allar verri eftir tilkomu laganna. Því auðvitað hvarf vændið ekki þó götuvændið hyrfi. Að þessu komst hún Petra og sagði svo öllum sem vildu heyra og örfáum betur. En þá kom í ljós að flutningsmenn tillögunnar, ásamt ýmsum viðmælendum fréttamanna ríkisútvarps, voru ekki sammála henni Petru. Þeir höfðu samt ekki, svo vitað sé, rætt við vændiskonur sem búa við löggjöfina margrómuðu í Svíþjóð. Þeir voru ekki ósammála henni af því að þeir vissu betur heldur af einhverjum allt öðrum ástæðum. Kannski vegna þess að hún var ekki sérstakur ráðgjafi sænsku ríkisstjórnarinnar eða vegna þess að hún var ekki í sænsku ríkisstjórninni eða vegna þess að einhver þeirra taldi sig hafa séð hana fljúga burt á kústskafti.

Hvað um það, áfram skal haldið með frumvarpið, hvað svo sem rök og reynsla segja. Því þessum lögum er alls ekki ætlað að draga úr vændi eða að styðja þau sem það stunda. Þessi lög eru það sem á ensku kallast „feel good legislation“ og mætti allt eins kalla friðþægingarlög á íslensku. Þessi lög eru sett til að þau sem að lögin setja, sem og einhverjir kjósenda þeirra, finni til vellíðunnar af þeirri ástæðu einni saman að lögin voru sett. Þetta eru svona lög sem sett eru í bandarískum sjónvarpsþáttum eins og Vinstri vængnum þegar Bartlett forseti er að rifna af réttlætiskennd og skrifar undir eitthvað sem veldur því að alla samstarfsmenn hans kitlar alveg Fransson mikið í magann og finnst rosalega gaman að vera í opinberri þjónustu.

En hvað sem öllum friðþægingarlögum líður þá hverfur ekki bara það sem þau banna. Og það vita eiginlega allir, líka þeir sem leggja fram frumvörp að friðþægingarlögum. Bönnin valda líka mikilli vanlíðan margra og það vita næstum allir, líka þeir sem leggja fram frumvörp að friðþægingarlögum. En vellíðan þeirra sjálfra skiptir þá einfaldlega meira máli.