Laugardagur 22. nóvember 2003

326. tbl. 7. árg.

Í ritgerð um Kreppuna miklu eftir hagfræðinginn og sagnfræðinginn Lawrence W. Reed er leitast við að leiðrétta ýmsan þann misskilning sem uppi er um þetta tímabil, þ.e. árin 1929 til 1941. Á fyrstu árum Kreppunnar féll framleiðslan um helming, kaupmáttur hrapaði, hlutabréfaverð féll um 90% og atvinnuleysi margfaldaðist. Reed segir að í kennslubókum sé kapítalismanum jafnan kennt um þetta hörmungarástand. Þar segi að Kreppan hafi hafist vegna hruns á hlutabréfamarkaði, einum af hornsteinum kapítalismans, og Herbert Hoover forseti hafi fylgt þeirri stefnu að ríkisvaldið ætti að halda að sér höndum í efnahagsmálum og þess vegna hafi ástandið versnað enn frekar. Franklin Delano Roosevelt, sem tók við af Hoover, hafi aftur á móti nýtt afl ríkisins til að koma efnahagslífinu aftur í gang, og af þessu sé ætlast til að nemendur dragi þá ályktun að kapítalismanum sé ekki treystandi. Reed segir að þessi lýsing á atburðum eigi heima í þjóðsagnasöfnum en ekki sögubókum.

Reed bendir á að Kreppan mikla hafi ekki verið fyrsta kreppan í Bandaríkjunum, en hún hafi varað lengst og dregist vegna inngripa ríkisvaldsins og mistaka við stjórn peningamála. Peningamagni í umferð hafi verið leyft að aukast mikið megnið af þriðja áratug aldarinnar, en svo hafi seðlabankinn skyndilega gripið í taumana undir lok áratugarins og dregið snöggt úr peningamagninu. Reed segir hrun hlutabréfamarkaðarins ekki hafa verið orsök heldur afleiðingu Kreppunnar miklu. Orsakanna sé að leita í aðgerðum seðlabankans og stjórnmálamannanna. Þetta hljómar líklega skringilega í eyrum þeirra sem hafa lesið að Hoover hafi verið algerlega á móti ríkisafskiptum og Roosevelt hafi verið fylgjandi þeim, en Reed segir að Roosevelt sjálfur hafi að minnsta kosti ekki litið þannig á. Í kosningunum þegar hann felldi Hoover hafi hann deilt á Hoover fyrir háa skatta, mikil ríkisútgjöld, skuldasöfnun, höft á milliríkjaviðskipti og að halda milljónum uppi á bótum. Roosevelt sagði Hoover stýra mestu útgjaldastjórn á friðartíma í sögu Bandaríkjanna, og varaforsetaefni Roosevelts sakaði Hoover um að leiða Bandaríkin í átt að sósíalisma. Og þetta voru, að sögn Reed, alveg réttmætar ásakanir.

Vandinn er sá, segir Reed, að þó að frambjóðandinn Roosevelt hafi lofað mikilli lækkun ríkisútgjalda, minni umsvifum ríkisins, og auknu svigrúmi einkaaðila, þá hafi forsetinn Roosevelt, sem tók við árið 1933, fylgt allt annarri stefnu. Hann hafi gengið enn lengra en Hoover í ríkisútgjöldum, skattheimtu og afskiptum af atvinnulífinu og þess vegna hafi teygst jafn mikið úr Kreppunni miklu og raun ber vitni.