Mánudagur 17. nóvember 2003

321. tbl. 7. árg.

Forseti Íslands hefur undanfarið ferðast um Bandaríkin og síðastliðinn föstudag mun ferðin hafa náð hápunkti er Ólafur Ragnar Grímsson og Jimmy Carter, tveir valdamestu menn heims, héldu stuttan fund í Atlanta. Carter nýtur gríðarlegs álits í Bandaríkjunum eins og sést af því að hann var valinn úr hópi fjölmargra umsækjenda til að stýra Carter-stofnuninni, sem eins og flestar þýðingarmestu stofnanir Bandaríkjanna er staðsett í Atlanta. Þessi merka stofnun hefur það að meginmarkmiði, samkvæmt frétt Morgunblaðsins um helgina, að „leggja lið baráttu fyrir lýðræði, mannréttindum og þróunaraðstoð við fátækustu ríki heims“ og því skiljanlegt að forseti Íslands sæki hana heim. Og svo vel tókst til á leiðtogafundinum að Morgunblaðið gat á laugardaginn slegið upp fyrirsögninni „Árangursríkur fundur með Jimmy Carter“ og var vissulega kominn tími til að eitthvað sem Carter tengist bæri árangur.

Þetta er geysilegur sigur fyrir Ísland og Íslendinga og í raun ótrúlegt að forsetinn hafi náð svo árangursríkum fundi með Carter. Og það sem meira er, Vefþjóðviljinn hefur fyrir því áreiðanlegar heimildir að Ólafur Ragnar hyggist nú láta kné fylgja kviði og hafi þegar gert ráðstafanir til að ná tali af Gerald Ford í síma. Fyrst mun Ólafur Ragnar þó halda til Englands þar sem hann hyggst hitta James Callaghan til skrafs og ráðagerða. Mun þar þó einkum um „vinnufund“ að ræða en upphaflega hafði verið stefnt að þríhliða viðræðum milli Callaghans, Ólafs og Edwards Heaths en af því gat ekki orðið vegna anna Heaths. Ofan á þetta bætist að forsetinn hefur nýlega fengið sent bréf frá Helmut Schmidt en það reyndist því miður vera á þýsku.