Fjárlög eru – eins og nafnið ætti að gefa einhverja vísbendingu um – lög. Þeir sem taka að sér að stýra ríkisstofnunum eiga að fara eftir þessum lögum og reka stofnanirnar í samræmi við þau. Úthluti Alþingi einni af stofnunum ríkisins 100 milljónum króna, til að standa undir rekstri næsta árs, ber stjórnanda stofnunarinnar að reka hana fyrir 100 milljónir króna eða minna. Stjórnandinn má til dæmis ekki reka stofnunina fyrir 121 milljón króna. Þetta er tiltölulega einfalt og ætti ekki að valda miklum ágreiningi. Raunin er þó sú að í háum stöðum hjá ríkinu starfar fjöldi manna sem ár eftir ár hunsar fjárlögin og keyrir fram úr heimildum þeirra eins og þær skipti þá engu máli. Samtök atvinnulífsins hafa tekið saman yfirlit yfir þessa framúrkeyrslu fyrir stofnanir á heilbrigðissviði nokkur ár aftur í tímann. Í þessari samantekt samtakanna má sjá lista yfir 34 stofnanir sem hafa sérlega slæman feril að þessu leyti og hafa að meðaltali keyrt rúmlega 21% fram úr fjárlögum á hverju ári. Stjórnendur þessara stofnana hafa því eytt 121 milljón króna fyrir hverjar 100 milljónir króna sem þeir hafa fengið úthlutað.
Heilbrigðismál eru stærsti útgjaldaliður ríkisins og þar er jafnframt mikill vöxtur. Samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að vöxturinn verði rúmlega 9% milli ára og útgjöld til málaflokksins á næsta ári verði rúmir 110 milljarðar króna. Aukningin er 9,4 milljarðar króna, en ef hægt hefði verið að halda í horfinu hefði á næsta ári mátt fella niður vörugjald af ökutækjum, bifreiðagjald og hátekjuskatt, og auka þrátt fyrir það afgang fjárlaga. Aukning útgjalda og framúrkeyrsla eru því mikið vandamál og valda skattgreiðendum miklum búsifjum. Það þarf því engan að undra að nú eru æ fleiri farnir að átta sig á því að ekki verður lengur unað við óbreytt rekstrarfyrirkomulag á heilbrigðissviði. Eina lausnin á þessum vanda er sú að auka hlut einkaaðila og leyfa þeim að taka að sér reksturinn. Ríkið þyrfti ekki að hætta að borga brúsann, en gæti samið við einkafyrirtæki um tiltekna þjónustu gegn föstu gjaldi. Gera má ráð fyrir að gjaldið yrði að jafnaði lægra en nú er, þannig að aukningin þyrfti ekki að verða jafn mikil og verið hefur. En miðað við reynsluna af framúrkeyrslu ríkisstofnana skiptir ekki minna máli að gjaldið sem samið væri um er það gjald sem ríkið mundi á endanum greiða. Einkafyrirtæki geta ekki leyft sér það sem stjórnendur ríkisstofnana eiga augsýnilega auðvelt með, að eyða að vild og rukka ríkið svo eftirá fyrir óráðsíuna.