Föstudagur 14. nóvember 2003

318. tbl. 7. árg.

N

Jólagjöf verkalýðsforystunnar til atvinnulausra í ár er lækkun atvinnuleysisbóta svo fjármagna megi milljónagreiðslur til hátekjufólks í fæðingarorlofi.

ú stendur til að breyta atvinnuleyisbótum á þann veg að fyrstu þrír dagarnir eftir að menn missa vinnuna verði bótalausir og einnig eru áformaðar breytingar á fyrirkomulagi greiðslna til fiskverkafólks þegar húsum er lokað vegna hráefnaskorts. Þetta þýðir einfaldlega að 70 þúsund króna bætur fyrir fyrsta mánuðinn án atvinnu lækka um nokkur þúsund krónur. Gert er ráð fyrir að með þessu megi spara, sem er ágætt markmið. Því miður hefur ekki farið mikið fyrir þessu markmiði í ríkisrekstrinum síðustu ár og kemur því enn frekar á óvart að borið skuli niður á þessum stað. Og þó ekki. Á því er einföld skýring.

Atvinnuleysisbætur eru greiddar úr atvinnuleysistryggingasjóði sem hefur tekjur sínar af tryggingagjaldi. Tryggingagjaldið er lagt á allar launagreiðslur. Almennt tryggingagjald er í dag 4,84% sem launagreiðendur greiða af öllum launagreiðslum. Árið 2000 var hlutur atvinnuleysistryggingasjóðs í tryggingagjaldinu hins vegar lækkaður þrátt fyrir að gjaldið væri á sama tíma hækkað. Ástæðan var sú að nýr bótasjóður með nýstárleg markmið var kominn til sögunnar. Í janúar árið 2001 hóf fæðingarorlofssjóður að greiða hæstu félagslegu bætur í Íslandssögunni. Líklega hefur ekki verið stofnað til meiri varanlegrar aukningar á ríkisútgjöldum á einu bretti um áratuga skeið en með þeir gjörningi. Á þessu ári fá um 50 einstaklingar 600 þúsund krónur á mánuði eða meira úr fæðingarorlofssjóði. Gera má ráð fyrir að hæstu bæturnar úr fæðingarorlofssjóði til þessa séu vel á aðra milljón króna á mánuði. Lægstu bæturnar eru hins vegar innan við 40 þúsund á mánuði. Eitt af helstu markmiðum fæðingarorlofssjóðs var að „jafna rétt“ til fæðingarorlofs.

Eftir að fé var fært úr atvinnuleysistryggingasjóði yfir í fæðingarorlofssjóð er augljóslega erfiðara um vik að bregðast við auknu atvinnuleysi. Peningarnir sem upphaflega átti að nýta til að rétta hlut þeirra sem misstu vinnuna voru færðir yfir í fæðingarorlofssjóð. Það dugði þó fæðingarorlofssjóði skammt og tryggingagjaldið var einnig hækkað um síðustu áramót. Tryggingagjaldið hefur því hækkað um 21% (úr 3,99 í 4,84%) til að mæta fjárþörf fæðingarorlofssjóðs og sjóðurinn hefur einnig fengið hlut af því sem atvinnuleysistryggingasjóður fékk áður. Þrátt fyrir þessar skattahækkanir, sem takmarka augljóslega svigrúm fyrirtækja til launahækkana, og atlögu að atvinnuleysistryggingasjóði stefnir nú engu að síður í gjaldþrot fæðingarorlofssjóðs.

Verkalýðshreyfingin þver og endilöng studdi þessi lög um fæðingarorlof af alefli.

Gert er ráð fyrir því að á næsta ári muni ríkisstjórnarflokkarnir gera þá breytingu á samstarfi sínu að forsætisráðuneytið fari yfir til Framsóknarflokksins en utanríkisráðuneytið og umhverfisráðuneytið yfir til Sjálfstæðisflokksins. Þetta verða hins vegar ekki fyrstu forsætisráðherraskiptin sem fara fram utan kosninga og án sérstakra breytinga á stjórnarsamstarfi. Í dag eru einmitt fjörutíu ár liðin frá því að Bjarni Benediktsson tók endanlega við embætti forsætisráðherra af Ólafi Thors. Hafði viðreisnarstjórnin svonefnda þá setið í rúm fjögur ár og undir forystu Bjarna sat hún í tæplega sjö til viðbótar. Jóhann Hafstein stýrði stjórninni svo síðasta árið sem hún sat. Viðreisnarárin voru að mörgu leyti mikill framfaratími á Íslandi, höftum var aflétt og viðskiptafrelsi aukið að mun. Eftir alþingiskosningar árið 1971, þegar viðreisnarstjórnin hafði setið í tólf ár, komust vinstri menn til valda, með afleiðingum sem ýmsir hefðu mátt hafa í huga síðastliðið vor, þegar þess var freistað að koma vinstri stjórn til valda eftir einmitt tólf ára hlé. Enginn stjórnmálaflokkur er alvondur og enginn er fullkominn, engin ríkisstjórn vinnur tóm afreksverk og engri er alls varnað. En þegar horft er yfir söguna og það athugað hvernig ólíkum öflum hefur farist stjórn landsmála úr hendi, þá sjá flestir samt hvað snýr upp og hvað snýr niður.