Fimmtudagur 13. nóvember 2003

317. tbl. 7. árg.
Morgunblaðið sló yfrirlýsingu Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur upp, neðst á síðu 12, síðast liðinn föstudag.

Það kemur alltaf betur og betur í ljós hvernig svo kallaður meirihluti í borgarstjórn Reykjavíkur, R-listinn, vinnur. Og undanfarnar vikur hafa það ekki verið pólitískir andstæðingar R-listans sem hafa gefið borgurunum skýrustu myndina af aðferðum og eðli meirihlutans – og alls ekki fjölmiðlarnir, sem fæstir hafa nokkurn áhuga á því að bregða ljósi á það sem miður fer hjá vinstri meirihlutanum í Reykjavík. Undanfarnar vikur hefur Steinunn Birna Ragnarsdóttir, fyrrverandi varaborgarfulltrúi R-listans og varaformaður menningarmálanefndar Reykjavíkurborgar, upplýst hvernig svokallaðir félagar hennar í borgarstjórnarflokki R-listans bönnuðu henni að taka til máls í borgarstjórn og segja skoðun sína á tilteknu máli sem til umræðu hefur verið á liðnum mánuðum. Þetta mál sýnir meira en margt annað hversu illa R-listinn stendur, hversu sjálfum sér sundurþykkur hann er og hversu lítið má út af bregða til að ævintýrið verði úti. Það er svo mikið kapp lagt á að fela ágreininginn sem er innan R-listans að menn þora ekki að leyfa að nokkur minnsti ágreiningur vitnist. Steinunn Birna Ragnarsdóttir varaborgarfulltrúi má ekki einu sinni lýsa sjálfstæðri skoðun á því hvort að það eigi eða eigi ekki að rífa tiltekið kvikmyndahús.

Í síðustu viku sat Þórólfur Árnason borgarstjóri R-listans fyrir svörum um ýmis mál í Ríkissjónvarpinu og ræddi þar meðal annars um mál Steinunnar Birnu. Eftir þann þátt taldi Steinunn Birna „óhjákvæmilegt“ að senda frá sér tilkynningu. Þar sagði hún meðal annars, og kemur þar margt fróðlegt fram og er við Vefþjóðviljann að sakast um skáletrið:

Samkvæmt samkomulagi við oddvita vinstri grænna í borgarstjórn, Árna Þór Sigurðsson, var ákveðið að ég talaði fyrir málinu á borgarstjórnarfundinum daginn eftir og sendi ég honum eintak af ræðunni um morguninn til umsagnar. Hann hafði engar athugasemdir við ræðuna. [] Þegar ég mætti á fundinn mæltist formaður skipulags- og byggingarnefndar Steinunn Valdís Óskarsdóttir til þess að ég tæki ekki til máls og gaf þær skýringar að hún vildi ekki að ólík sjónarmið borgarfulltrúa R-listans kæmu fram í þessu máli á fundinum. [] Nokkru síðar á fundinum átti ég samtal við formann borgarráðs Alfreð Þorsteinsson sem kvaðst myndu bregðast harkalega við ef ég tæki til máls og sagði í því sambandi: „til hvers? það er ekki spurning hvort, heldur hvenær Austurbæjarbíó verður rifið, það er búið að ákveða þetta“.

Varaborgarfulltrúi R-listans sem ætlar að tjá sig í borgarstjórn, hann sendir sem sagt oddvitanum væntanlega ræðu sína til umsagnar áður en hann fær að tala. Oddvitinn virðist vera svona eins og stjórnmálaráðgjafi varamannsins, pólitískur eftirlitsmaður, og geta menn nú velt fyrir sér hvernig speglar fjölmiðlanna létu þessi vinnubrögð væru notuð innan til dæmis Sjálfstæðisflokksins. Og Steinunn Valdís, hún vildi samkvæmt þessu ekki leyfa Steinunni Birnu að tjá sig svo ekki kæmi fram á fundinum að ólík sjónarmið væru um þessi mál innan R-listans. Það er ekki eins og það hafi átt að ráða málinu endanlega til lykta þarna, nei Steinunn Valdís vill einfaldlega alls ekki að borgarbúar fái að vita um ólík sjónarmið innan R-listans. Alfreð Þorsteinsson, hann hótar að „bregðast harkalega við“ og spyr bara „til hvers?“ þegar varaborgarfulltrúi úr hans eigin liði vill segja sína skoðun á léttvægu máli. Hvernig ætli fjölmiðlar létu ef þessar aðferðir tíðkuðust annars staðar en innan R-listans? Hvernig þykir fólki að heyra að kjörnir fulltrúar banna eigin samherjum að setja fram sínar skoðanir af þeirri ástæðu að það þjónar engum tilgangi, öllum málum hafi í raun verið ráðið til lykta áður en umræðurnar hafi hafist og engu verði breytt, hvað sem hver segir?