Lögð hefur verið fram á Alþingi tillaga til þingsályktunar um aðgerðir gegn ójafnvægi í byggðamálum. Tillagan gerir ráð fyrir að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir Alþingi áætlun um aðgerðir til að draga úr „fyrirsjáanlegu ójafnvægi í byggðamálum“. Helstu röksemdirnar fyrir flutningi tillögunnar koma fram í greinargerð með henni og þær lýsa ágætlega hversu líklegt er að „aðgerðir“ í byggðamálum skili árangri. Vandinn er nefnilega sá, ef marka má greinargerðina, að verið er að gera of mikið í byggðamálum og þess vegna þarf að gera meira. Þetta hljómar auðvitað einkennilega í eyrum flestra, sem skýrist af því að flestir eru ekki þingmenn annarra kjördæma en Norðausturkjördæmis. Flutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru tveir nútímalegir þingmenn Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og þeir sjá fyrir sér mikinn vanda í kjördæmi sínu vegna framkvæmda í næsta kjördæmi. Og þar sem þeir telja að ríkið beri ábyrgð á framkvæmdunum í næsta kjördæmi vilja þeir að ríkið hlutist til um enn frekari framkvæmdir annars staðar, og þá vafalaust í Norðvesturkjördæmi.
Orðin kjördæmapot og sérhagsmunagæsla eru meðal fjölmargra sem koma upp í hugann þegar slíkar tillögur eru lesnar, en tillagan sýnir hve langt sumir þingmenn – jafnvel þessir nútímalegu jafnaðarmenn – eru tilbúnir að ganga til að kaupa atkvæði. En um leið sýna þeir óvart fram á hve vitlaus hin svo kallaða byggðastefna er, því ef marka má tillöguna verður aldrei nóg að gert í byggðamálum. Einn landshluti eða eitt byggðarlag mun væntanlega alltaf fá meira í sinn hlut en aðrir þegar ríkið útdeilir skattfé í nafni byggðastefnu, og þá verður það væntanlega alltaf að nýrri og nýrri röksemd fyrir auknum framlögum til málaflokksins. Ef mikið er framkvæmt á Norðausturlandi þarf næst að framkvæma mikið á Norðvesturlandi, því næst á Suðurlandi og svo koll af kolli, hring eftir hring.
Hugmyndir um meint „ójafnvægi í byggðamálum“ eða tilraunir til að ná fram „jafnvægi í byggð landsins“ eru af ýmsum ástæðum dæmdar til að mistakast. Og jafnvel þótt ríkið kæmist að niðurstöðu um að einhver tiltekin dreifing byggðar væri æskilegt markmið í byggðamálum og tækist að þvinga þá dreifingu fram, þá verður aldrei hægt að kalla þá dreifingu jafnvægi. Ríkið mun aldrei geta tryggt jafnvægi í byggð landsins nema með því að hætta afskiptum af byggðaþróun. Ríkið getur hins vegar, með því að dreifa skattfé út um landið, viðhaldið ójafnvægi í byggð landsins og komið í veg fyrir að eðlilegt jafnvægi náist.