Mánudagur 20. október 2003

293. tbl. 7. árg.

Sumir eru sífellt á verði um heiður og sóma opinberra starfsmanna. Gerast ekki reiðari en þegar einhver gefur í skyn að þeir opinberir starfsmenn vinni ekki af tómri fagmennsku; „vegur að starfsheiðri þeirra“ eins og það heitir yfirleitt. Einhverra hluta vegna hafa ýmsir þessara vökulu varðmanna þó sofið á verðinum upp á síðkastið; að minnsta kosti rétt á meðan Ögmundur Jónasson, alþingismaður og formaður BSRB, hefur tekið starfsmenn Landsvirkjunar og fleiri til bæna. Síðastliðinn föstudag skrifaði Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, grein í DV  þar sem hann svaraði nýlegri grein Ögmundar í sama blaði. Þorsteinn segir Ögmund hafa haldið því fram að strafsmenn Landsvirkjunar hafi staðið fyrir miklum „skollaleik“ í sambandi við útboð vegna Kárahnjúkavirkjunar og þeim þótt allt til vinnandi að „keyra kostnaðarverðið niður – tímabundið ef ekki vildi betur, til að líta svo út að framkvæmdin stæðist.“

Um þessar og aðrar ásakanir Ögmundar segir Þorsteinn Hilmarsson svo í grein sinni: „Hvernig væri hægt að gera það sem ofangreind lýsing felur í sér? Útboð og útboðsgögn, kostnaðaráætlanir, arðsemisútreikningar, yfirferð tilboða og samningagerð vegna Kárahnjúkavirkjunar eru umfangsmikil og flókin. Það er vandséð hvernig fámennur hópur stjórnenda gæti hagrætt slíkum gögnum leynilega. Fölsun og lögbrot af því tagi sem Ögmundur heldur fram að hafi átt sér stað eru útilokuð nema stór hluti þeirra rúmlega 250 starfsmanna sem vinna hjá Landsvirkjun og fjöldi manns á verkfræðistofum og ráðgjafafyrirtækjum úti í bæ vissu af henni [svo] eða hefðu sjálfir [svo] látið hafa sig út í að hagræða niðurstöðum, bregðast trúnaði og fremja grafalvarleg afbrot. Meinar Ögmundur að allt þetta fólk hafi verið þvingað til að þegja yfir þessu eða taka þátt í því – eða á það að hafa verið með á nótunum og gert þetta af fúsum og frjálsum vilja? – Ég held að fáir trúi því. Taki menn ásakanir Ögmundar alvarlega varpa þær skugga á starfsheiður og heilindi stórs hóps manna. Ekki verður séð að sá sem ber þær fram telji að sá fjölmenni hópur sem vann að undirbúningi Kárahnjúkavirkjunar hafi til að bera sjálfsvirðingu og metnað í starfi. Ég tel að ásakanir af þessu tagi séu síst þeim sæmandi sem veita forystu stærstu launþegasamtökum landsins.“

Já Ögmundur virðist ekki gefa mikið fyrir starfsheiður fólksins á Landsvirkjun eða annarra sem komið hafa nálægt undirbúningi hinnar umdeildu virkjunar. Auðvitað er Ögmundur Jónasson frjáls að sínum skoðunum á Kárahnjúkavirkjun og þeim útreikningum sem búa að baki henni. En er ekki eitthvað fróðlegt við þögn þeirra sem svo oft virðast fúsir til að bera blak af opinberum starfsmönnum ef orði er hallað á þá, hvað þá meira? Enginn þeirra sér ástæðu til að verja starfsfólk Landsvirkjunar fyrir formanni BSRB.