Dómurinn sýnir ljóslega, hver réttaráhrif eru tengd við það, að ákvæði almennra laga séu talin andstæði stjórnarskránni. Ákvæðin hafa ekki verið metin gild réttarheimild og varð ekki beitt í dómsmálinu. Við getur borið, svo sem dæmið sýnir, að eitt tiltekið ákvæði sé í ósamræmi við stjórnarskrá, en lögin að öðru leyti séu ósamþýðanleg henni. Í dóminum kemur einnig fram, að Hæstiréttur fellir ekki lögin eða einstök ákvæði úr gildi út af fyrir sig. Þau standa að formi til áfram. Væri því hugsanlegt, að lyktir máls yrðu aðrar, ef hliðstætt dómsmál kæmi til Hæstaréttar að nýju, þótt það sé ólíklegt… |
– Ármann Snævarr, Almenn lögfræði |
Í íslenskri lögfræði hefur aldrei verið litið svo á að dómstólar geti fellt lög eða einstök lagaákvæði úr gildi, þrátt fyrir að þeir geti vikið sér undan að beita þeim í tilteknum málum, ef dómurunum þykir sem beiting þeirra gengi gegn fyrirmælum stjórnarskrár. Lögin standi hins vegar að formi til og það geti verið að þeim verði beitt í öðru máli. Þannig yrði haldið áfram að prenta lögin í lagasafni og reglugerðir sem væru studdar við lögin héldu gildi sínu eftir atvikum. Þetta hefur laganemum verið kennt áratug eftir áratug en engu að síður gerðist það í síðustu viku að Hæstiréttur kvað upp dóm þar sem ekki ekki verður betur séð en byggt sé á því að fyrir tæpum þremur árum hafi Hæstiréttur hreinlega dæmt tiltekin lög úr gildi.
„Ekkert í [forsendum fyrri öryrkjadómsins] veitir tilefni til þeirrar ályktunar, að löggjafanum sé óheimilt að láta tekjur maka hafa áhrif á tekjutryggingu öryrkja til skerðingar…“ |
Hér á Vefþjóðviljinn við nýjasta „öryrkjadóm“ Hæstaréttar, en þó megintíðindi dómsins hafi frá almennu sjónarmiði verið þau, að – þvert á það sem stjórnarandstæðingar og forysta Öryrkjabandalagsins héldu fram á sínum tíma – stjórnvöldum sé heimilt að skerða tekjutryggingu þeirra öryrkja sem eiga tekjuháa maka, þá er einnig ástæða til að líta á þá niðurstöðu réttarins, að þar sem að samkvæmt fyrri „öryrkjadómi“ hafi skerðingarreglu þágildandi laga ekki verið beitt, þá hefðu bótaþegar eignast kröfuréttindi á hendur ríkinu og sú eign nyti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar og yrði ekki skert aftur í tímann. Í þessu eina atriði vann forysta Öryrkjabandalagsins sigur í Hæstarétti í síðustu viku en í öllum öðrum atriðum – það er að segja öllum þeim atriðum sem máli skipta og tekist hafði verið á um af alvöru – var málflutningi forystumanna Öryrkjabandalagsins hafnað. Og þetta eina atriði, sú niðurstaða Hæstaréttar er að minnsta kosti hæpin, eða, eins og flestir þeir lögfræðingar sem fjölmiðlar hafa leitað til síðustu daga hafa sagt, hún „kemur á óvart“. Hún er byggð á því að hin fyrri lög hafi verið dæmd úr gildi með fyrri „öryrkjadómi“ í desember árið 2000. En eins og áður sagði er sá skilningur annar en sá sem viðgengist hefur í íslenskri lögfræði fram að þessu.
En þetta eru smáatriði sem eflaust geta vakið umræður í lögfræðitímaritum en skipta litlu í hinni almennu þjóðmálaumræðu. Þar skiptir annað máli. Með dómi sínum á fimmtudaginn tók Hæstiréttur nefnilega skýra afstöðu til þeirra deilna sem yfirskyggðu allar aðrar hér á landi í desember árið 2000 og janúar árið 2001. Eftir hinn fyrri „öryrkjadóm“ héldu stjórnarandstaðan og forystumenn Öryrkjabandalagsins því ítrekað fram að Hæstiréttur hefði kveðið á um að óheimilt væri að tengja tekjutryggingu öryrkja við tekjur maka hans. Eftir að kynnt var lagafrumvarp sem breytti tekjutengingunni þannig að hún minnkaði töluvert án þess þó að hverfa með öllu sátu stjórnarþingmenn vikum saman undir ásökunum um stórfelld stjórnarskrárbrot og hvað eina.
„Ég hef skilið úrskurð Hæstaréttar þannig, að hann lýsi því afdráttarlaust yfir að það stríði gegn mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar að tengja tekjutryggingu öryrkja við tekjur makans. Það á að halda því áfram, bara í minna mæli heldur en áður. Þannig að ég fæ ekki betur séð en að framkvæmdavaldið sé að gefa Hæstarétti langt nef,“ sagði Össur Skarphéðinsson í viðtali við Morgunblaðið. „Dómur Hæstaréttar segir hins vegar fortakslaust að þetta sé óheimilt og þetta standist ekki hin nýlegu mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar,“ bætti Össur við á Alþingi. Steingrímur J. Sigfússon kvaðst vera þeirrar skoðunar að það væri ómögulegt að túlka niðurstöðu Hæstaréttar öðruvísi en svo að óheimilt væri að skerða tekjutryggingu öryrkja vegna tekna maka. „Samkvæmt dómi Hæstaréttar þá á að greiða öryrkja óskerta tekjutryggingu vegna tekna maka. Það er heimilt að tengja tekjutrygginguna við hans eigin tekjur en ekki við tekjur maka,“ sagði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir. „Síðan er það auðvitað undarlegt, og kannski undarlegast af öllu, að það eigi ekki að fara að þeirri niðurstöðu sem Hæstiréttur komst að, sem er að aftengja tekjutryggingu öryrkja frá tekjum maka. Það verður ekki gert. Þannig að það verður ekki farið að niðurstöðu Hæstaréttar í þessu máli,“ sagði Ögmundur Jónasson. Sérfræðingnum Lúðvík Bergvinssyni nægðu svo ekki kenningar eins og þessar heldur bætti hann um betur og sagði að tekjutenging námslána væri brot á stjórnarskrá lýðveldisins.
Þessi var skoðun stjórnarandstöðunnar og utan þingsala söng forysta Öryrkjabandalagsins með. Einhverra hluta vegna hafa fréttamenn engan áhuga á að rifja upp stóryrði þessa fólks nú þegar stjórnarandstaðan og forysta Öryrkjabandalagsins reynir að gefa þá mynd af hinum síðari „öryrkjadómi“ að þar hafi þau unnið einhvern sigur. Fréttamenn sem fyrir tæpum þremur árum voru óðfúsir að sýna formann Öryrkjabandalagsins halda því fram að Hæstiréttur hafi með fyrri dómi sínum bannað löggjafanum að láta tekjur maka öryrkja hafa áhrif á tekjutryggingu hans, virðast með öllu hafa týnt upptökum sínum. Að minnsta kosti hefur þeim ekki tekist að endursýna þær en leggja sig hins vegar mjög fram um að endursýna í röngu samhengi og skýringalaust tiltekin orð Halldórs Ásgrímssonar, að því er virðist í þeim tilgangi að gefa ranga mynd af aðalatriðum málsins.
Og til að ekkert fari milli mála um skoðun Hæstaréttar Íslands á því hvernig stjórnarandstaðan og talsmenn Öryrkjabandalagsins túlkuðu „öryrkjadóm“ hinn fyrri, þá er rétt að vitna hér til þess sem Hæstiréttur segir sjálfur um sinn fyrri dóm. Um þann dóm segir Hæstiréttur: „Þótt dómsorð hafi verið samhljóða kröfugerð Öryrkjabandalags Íslands í málinu ber að túlka það í ljósi forsendna dómsins sjálfs. Ekkert í þeim veitir tilefni til þeirrar ályktunar, að löggjafanum sé óheimilt að láta tekjur maka hafa áhrif á tekjutryggingu öryrkja til skerðingar, en því valdi eru þó settar þær skorður, sem að framan er lýst.“
Þessu virðast fréttamenn hafa lítinn áhuga á og er þetta þó aðalatriði málsins. Eitt lítið atriði í fréttaflutningi og umræðu um þetta mál er svo athyglisvert. Að morgni síðastliðins fimmtudags gerði málefnalegasti stjórnmálamaður landsins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sér ferð í ræðustól Alþingis og greindi frá því að sér væri kunnugt um það að síðdegis yrði nýr „öryrkjadómur“ birtur og í því sambandi væri rétt að minna á tiltekin orð Halldórs Ásgrímssonar um hugsanlegar afsagnir ráðamanna og að forvitnilegt yrði að vita hvort nú hæfust afsagnir. Þessi orð Ingibjargar kunna að vera skýringin á ofuráhuga sumra fréttamanna á þessum ummælum Halldórs, en nokkrir fréttamenn láta enn eins og allt sem frá Ingibjörgu kemur séu markverð stórtíðindi. En þessi undarlega ræða Ingibjargar er einkum athyglisverð fyrir annað. Það væri nefnilega forvitnilegt að vita hvað fékk hana til að koma með þessar undarlegu athugasemd í Alþingi þennan morgun, því ekki áttu þær heima í umræðu dagsins. Getur verið að Ingibjörg Sólrún hafi verið búin að sjá dómsorð Hæstaréttar þennan morgun? Ef einungis er litið á dómsorðið en dómurinn sjálfur ekki lesinn mætti nefnilega ætla að stjórnarandstaðan og talsmenn Öryrkjabandalagsins hafi komið séð og sigrað. Það er ekki fyrr en menn lesa dóminn sjálfan sem þeir sjá að stjórnarandstaðan og talsmenn Öryrkjabandalagsins komu, missýndist og voru sigruð.