Hvað er hollt og hvað óhollt? Það vefst fyrir ýmsum að svara slíkri spurningu því fjölmargar kenningar eru uppi um þetta atriði og niðurstöður rannsókna eru oft og tíðum misvísandi. Þó eru þeir til sem vilja með einhverjum hætti hindra annað fólk í að neyta þess sem það langar til vegna þess að þeir eru sjálfir sannfærðir um að það sé óhollt. Ef þeir sem lengst ganga í þessum efnum næðu vilja sínum fram fengi ekki nokkur maður að neyta annars en ávaxta, og þá auðvitað aðeins þeirra sem ræktaðir eru með tilteknum hætti. Ekki er hægt að segja að enn hafi borið á einmitt þeim kröfum, en þess hefur þó verið krafist að lagður sé sérstakur skattur á „óhollan“ mat, eða aðgangur að honum takmarkaður með öðrum hætti. Eitt af því sem á helst undir högg að sækja er það sem kallað er sælgæti, þar á meðal súkkulaði.
Á vef samtakanna The Center for Consumer Freedom er mælt gegn tilburðum ríkisafskiptasinna á matarsviðinu og mælt með því að fólk fái að ráða því hvað það lætur ofan í sig. Í grein sem birtist í fyrradag er fjallað um lögsóknir þeirra sem allt þykjast vita um gæði matvæla og þar er meðal annars vikið að súkkulaði og mögulegum kostum þess. Í greininni er vísað í nýlega rannsókn á súkkulaði sem birtist í The Journal of the American Medical Association. Samkvæmt rannsókninni getur neysla á dökku súkkulaði lækkað blóðþrýsting og vísað er í aðrar heimildir um að súkkulaði geti dregið úr því sem kallað hefur verið slæmt kólestról.
Nú sannar þetta út af fyrir sig ekkert að súkkulaði sé sérstakt heilsufæði, en þó er ekki hægt annað en segja að þetta bendi að minnsta kosti til þess að sumir geti haft gott af því að borða súkkulaði. Þetta er athyglisvert í ljósi þess að súkkulaði er líklega meðal þess sem myndi lenda á listanum yfir óæskileg matvæli ef farið yrði að banna eða takmarka aðgang að matvælum, eins og sumir hafa farið fram á. Staðreyndin er sú, eins og komið er inn á í fyrrnefndri grein, að þrátt fyrir miklar rannsóknir hefur engin niðurstaða fengist í það hvað sé hollt og hvað ekki. Enginn veit hvað fólki er fyrir bestu í þessum efnum og skoðanir á því breytast með tímanum. Jafnvel þótt allir vissu fyrir víst hvað væri hollt og hvað ekki gæfi það þeim enga heimild til að reyna að hafa áhrif á mataræði annarra. En þegar óvissan er jafn mikil og raun ber vitni eru hugmyndir um að ríkið reyni að þvinga ákveðnu neyslumynstri upp á fólk verulega varasamar.