Miðvikudagur 20. ágúst 2003

232. tbl. 7. árg.

Y

firmenn á Stöð 2 vilja breyta til og hafa þess vegna ákveðið að Þorsteinn J. Vilhjálmsson muni ekki stýra þættinum Viltu vinna milljón? næsta vetur. Þessi ákvörðun þeirra er þáttarstjórnandanum líklega vonbrigði, en svona er þetta bara, þeir sem stýra sjónvarpsstöðvum ráða efni sjónvarpsstöðvanna. Þessu hafa fjölmargir þáttastjórnendur kynnst í gegnum tíðina. Menn fá tækifæri til að stjórna þáttum, en svo kemur að því að krafta þeirra er ekki lengur óskað því stjórnendur stöðvanna vilja breyta til. Þá pakka menn saman og fara að gera eitthvað annað eins og gengur. Og yfirleitt án þess að saka stjórnendur stöðvanna um annarleg sjónarmið, enda er það nú svo að stjórnendur sjónvarpsstöðva að ekki sé talað um eigendur þeirra hafa öðrum mönnum meiri áhuga á að vinsælt og gott efni sé á boðstólum.

En þó þáttastjórnendur fari yfirleitt án þess að saka stjórnendur og eigendur sjónvarpsstöðva um annarleg sjónarmið, eru til undantekningar. Ein undantekningin er maður sem stjórnað hefur spjallþættinum Silfri Egils á Skjá einum í fjóra vetur, Egill Helgason. Stjórnendur Skjás eins munu hafa farið þess á leit við Egil að hann gerði breytingar á þættinum, sem þarf ekki að koma á óvart þar sem slíkir þættir, eins og annað fjölmiðlaefni, hafa sinn líftíma. Ef stjórnendur þátta neita að gera breytingar, nú þá er væntanlega fátt við því að segja að þeir hverfi til annarra starfa og aðrir spreyti sig. En þetta sættir Egill Helgason sig ekki við. Og ekki nóg með það, í símaviðtali í Íslandi í dag lýsti hann þeirri skoðun sinni að það væri einhver ótti í þjóðfélaginu sem ylli því að hann hefði verið látinn hætta. Ástæðan er ekki sú að þátturinn hafi verið orðinn þreyttur og að stjórnendur hafi talið breytinga þörf. Nei, ástæðan er „ótti“.

Nú virðist það vera svo að um nokkurra mánaða skeið hafi verið tekist á um það hvort Egill sætti sig við að breyta til eða hvort hann hætti. Ef marka má Fréttablaðið í gær, þá lauk fyrri átökum stjórnenda og Egils með því að stjórnendurnir „gáfust upp“ og leyfðu honum að halda áfram með óbreyttan þátt. Ætli „ótti“ hafi ekki ráðið þeirri ákvörðun? Ætli það geti ekki einmitt verið að stjórnendur stöðvarinnar hafi í lengstu lög viljað forðast að lenda milli tannanna á þeim mönnum sem mest tjá sig í fjölmiðlum og eru vísir með að taka undir með Agli og gagnrýna stjórnendurna? Það skyldi þó ekki vera að fyrri ákvörðun um að leyfa Agli að breyta ekki þættinum hafi verið tekin af ótta, en að nú hafi stjórnendunum tekist að yfirvinna óttann og fylgja sannfæringu sinni. Hvort stjórnendurnir óttast Egil eða aðra menn veit víst enginn nema þeir sjálfir, þótt telja verði heldur ótrúlegt að þeir skjálfi af ótta. Það sem þeir gætu þó einna helst óttast er að rekstur Skjás eins muni ekki ganga sem skyldi og að stöðin verði rekin með tapi. Það er nokkuð sem stjórnendur og eigendur fyrirtækja óttast yfirleitt einna helst. Og það er einmitt ástæðan fyrir því að þeir eru oftast betur til þess fallnir en aðrir að taka ákvarðanir um rekstur fyrirtækjanna, þar með talið þá þjónustu sem fyrirtækin veita.