Mánudagur 18. ágúst 2003

230. tbl. 7. árg.

Dag eftir dag hafa fjölmiðlar nú fjallað um og lagt út af þeim atburði að fjármálaráðherra þekktist laxveiðiboð fjármálafyrirtækis eins; um svipað leyti og fyrirtækið sameinaðist Búnaðarbanka Íslands í framhaldi af því að ríkið seldi hlut sinn í bankanum. Fjölmiðlamönnum þykir aldeilis matur í þessu og þó þeir segi það kannski ekki berum orðum þá gefa þeir auðvitað í skyn að nú hafi komist upp um eitthvað stórmerkilegt. Það er eins og þeir haldi að það komi til álita að fjármálaráðherra hafi verið keyptur með laxveiðidegi. „Pssst Geir, heyrðu hérna sko, eins og þú veist þá hérna voru vinir okkar að bjóða í þarna Búnaðarbankann, já sem sagt, nei þetta er nú ekki sérstaklega gott boð svona þannig, en hérna humm hérna við hérna sko eigum lausa stöng í Soginu einn dag í seinnipart júní hérna og ef sko þig og Ingu Jónu langar að skreppa ha þá væri það mjög gaman ha. Know what I mean? Nudge-nudge. Say no more. Say no more.“

Í framhaldi af þessu hefur DV gengið á hvern þingmanninn og borgarfulltrúann eftir annan og spurt hann hvort hann hafi þegið slík boð og hvort honum finnist að slíkt komi til álita. Fáir kannast við að hafa þegið slík boð og sumir eru snöggir að lýsa því yfir að það komi nú ekki til greina og þykir jafnvel hugmyndin siðlaus. Ætli DV fari nú ekki annan hring og spyrji að minnsta kosti þá sem telja af og frá að þingmenn þiggi boð í laxveiðitúr hvort þeir telji koma til greina að þingmaður þiggi stuðning í prófkjörsbaráttu. Það væri að minnsta kosti skemmtilegt að heyra þá þingmenn, sem fussa og sveia yfir því að mönnum svo mikið sem detti í hug að þeir þiggi laxveiðitúr, greina frá því að fyrr skuli þeir dauðir liggja en fá framlag í kosningasjóð.

Sumir telja að kjósendur þurfi að fá að vita um allar boðsferðir sem stjórnmálamaður þiggur, svo kjósandinn geti lagt sitt eigið mat á dómgreind hans. Jájá. Hvar ætli menn hafi hugsað sér að nema staðar? Einhver getur kannski ímyndað sér að stjórnmálamaður taki breytta afstöðu til aðila sem hefur boðið honum í laxveiðitúr og jafnvel útvegað honum maðk með, en í raunveruleikanum er afar ólíklegt að menn láti kaupa sig með slíkum hætti. Sumir gera kröfu um það að „allt sé uppi á borðinu“ en krafan um að „allt sé uppi á borðinu“ er í raun nútímalegt orðalag um það að einhver annar eigi engin einkamál. Hvar ætla menn að hætta, hvað á ekki að vera „uppi á borðinu“? Á stjórnmálamaður að gefa skýrslu um það þegar honum er boðið í leikhús eða til opnunar myndlistarsýningar? Boðsmiðar fyrir tvo í leikhús eitt leikár kosta meira en dagur í venjulegri laxveiðiá. Ef rithöfundur sendir menntamálaráðherra áritaða bók, á ráðherrann þá ekki að „upplýsa“ það svo umbjóðendurnir geti beitt eigin dómgreind á næstu úthlutun listamannalauna? Og verður ekki stjórnmálamaðurinn að leggja fram tæmandi lista yfir þá menn sem hafa einhvern tíma rétt honum hjálparhönd og hann gæti talið sig í þakkarskuld við? Svona svo að kjósendur komist að með dómgreind sína. Já og er ekki enn mikilvægara að stjórnmálamaðurinn leggi fram lista yfir alla þá sem honum kann að vera í nöp við? Er ekki öruggast að stjórnmálamaðurinn afhendi lista yfir vini, kunningja og skólasystkini ásamt hreinskilnislegu áliti sínu á hverjum og einum? Ef laxveiðitúr hefur þessi áhrif sem blaðamannastéttin virðist ímynda sér, hversu mikilvægt er þá ekki að fá að vita hvort einhver stal kærustunni af þingmanni þegar hann var í menntó? Það er svo aukaatriði hverjir kæra sig um að sinna stjórnmálastarfi þegar endanlega verður búið að hafa allt einkalíf af þeim sem það gera.

Nei, menn verða einfaldlega að sætta sig við það að ýmis atriði geta haft áhrif á þær ákvarðanir sem stjórnmálamaður tekur og á það fyrir hvaða málum hann beitir og hvernig framganga hans er. Við því má gefa tvenn mismunandi svör, annað klént en hitt nokkuð gott. Lakara svarið er svar eftirlitsins, þess að hafa bara „allt uppi á borðinu“ og svo geti menn verið í eilífum vangaveltum um það hvort eitthvað hafi í raun haft áhrif eða ekki. Hitt svarið er hins vegar miklu betra. Það er að færa völd frá stjórnmálamönnum til borgaranna sjálfra, það er að segja, að minnka áhrif hins opinbera á líf borgaranna, fækka reglum, einkavæða fyrirtæki og leggja stofnanir niður. Þá þarf enginn að hafa áhyggjur af því hver er vinur hvers eða hver fer með hverjum í lax.

Ígær hélt annar prestur dómkirkjunnar í Reykjavík pópúlistapredikun yfir söfnuði sínum. Fyrir einhverja tilviljun reyndust kvikmyndatökumenn Ríkissjónvarpsins vera á staðnum. Hvernig ætli hafi staðið á því? Ætli þeir séu tíðir gestir í kirkjunni, tilbúnir að senda út hvenær sem prestarnir blanda sér í þjóðmálaumræðurnar? Ætli þeir hafi njósnað um prestinn, setið uppi í tré og í gegnum kíki séð hann semja predikun sína? Eða ætli skýringin sé hversdagslegri, presturinn hafi bara hringt upp í sjónvarp og sagt að nú kæmi bomba?