Helgarsprokið 17. ágúst 2003

229. tbl. 7. árg.

Tóbaksvarnarlög, gömul og ný, fíkniefnabann og bann við einkadansi. Þessi upptalning kemur lesendum eflaust kunnuglega fyrir sjónir og skyldi engan undra enda þreytist Vefþjóðviljinn ekki á því að andmæla þessu. Og svo lengi sem bæði lifa, Vefþjóðviljinn og bönnin, þá verður bönnunum andmælt á síðum þessa blaðs.

„Víðtæk boð og bönn sem ætlað er að vernda einstaklingana gegn sjálfum sér ganga þannig gegn siðmenn- ingunni…“

Af og til ber svo við að einhver dregur af þessu þá ályktun að Vefþjóðviljinn sé drykkfelldur, keðjureykjandi klámhundur og fíkniefnaneytandi. Hér þarf að fara varlega í að fella dóma því þó ályktunin sé að sönnu kjánaleg þá er hún ofur eðlileg í ljósi þeirrar ofgnóttar af „réttinda-“ og hagsmunabaráttu sem sækir réttlætingu á kröfum sínum í kröfurnar sjálfar. Til dæmis um þessa réttinda- og hagsmunabaráttu má taka svo kallað Stúdentaráð sem nú ætlar að berjast fyrir því að skattgreiðendur „láni“ stúdentum fyrir bjór vegna þess að stúdentum þykir bjór góður. Er þá ekki frekari réttlætingar þörf af hálfu ráðsins.

Vefþjóðviljinn hefur andmælt tóbaksvarnarlögum, fíkniefnabanni og banni við einkadansi á þeim forsendum fyrst og fremst að bönnin brjóti gegn rétti einstaklingsins til einkalífs, atvinnufrelsi, eignarétti og samningsfrelsi. Vefþjóðviljinn hefur líka tínt það sem kalla mætti nytjarök máli sínu til stuðnings og bent á að sú verðhækkun sem bönnin valda ýmist auki á vandann eða búi til nýjan vanda þar sem enginn var fyrir. Enn má finna rök gegn þessum bönnum.

Frjáls borgari tekur ákvörðun.

Eitt megininntak þess að maðurinn er siðferðisvera er að hann getur valið. Hann getur breytt, ýmist rétt eða rangt. Hann getur til dæmis vegið hagsmuni sína með tilliti til hagsmunum annarra, sett sig í annarra spor, komist að niðurstöðu og breytt samkvæmt henni. Ef kostunum sem manninum standa til boða hefur verið fækkað þannig með bönnum að í hverju máli standi aðeins einn kostur til boða þá er vandséð hvernig hægt er að kalla hann siðferðisveru. Manninum er í hverju máli þröngvað til réttrar breytni (eða rangrar!) eftir því sem bönnin segja til um. Eftir sem áður kann hann að gera sér grein fyrir muninum á réttu og röngu en breytni hans ræðst ekki af þeim greinarmun heldur af þeim boðum og bönnum sem honum eru sett.

Eitt helsta byggingarefni siðmenntaðra samfélaga er einmitt allt það fólk sem á hverjum degi tekur ákvarðanir sem siðferðisverur og breytir samkvæmt þeim. Víðtæk boð og bönn sem ætlað er að vernda einstaklingana gegn sjálfum sér ganga þannig gegn siðmenningunni þar sem þau takmarka þetta val einstaklinganna sem á hvað stærstan þátt í að gera þá að siðferðisverum.

Annað byggingarefni siðmenntaðra samfélaga er það sem David Hume nefndi reynsludyggðir. Í þeim felst að virða gerða samninga, eignarétt, viðskiptaskuldbindingar og leikreglur. Reynsludyggðir eins og þær sem Hume tiltekur voru ekki smíðaðar af honum, né heldur neinum einum öðrum manni. Þær urðu til á löngum tíma og hafa enst fram á þennan dag vegna þess að þær reyndust vel. Til marks um hversu vel þær hafa reynst þá má nefna að á nýliðinni öld gerðu menn nokkrar tilraunir með að taka þær að hluta eða öllu leyti úr sambandi víðsvegar í veröldinni og enduðu þær tilraunir allar með ósköpum. Ef menn hefðu, frá upphafi vega, verið reyrðir niður með boðum og bönnum þá hefðu reynsludyggðirnar ekki myndast.

Einkenni farsælla samfélaga er einmitt að þau eru að stærstum hluta sjálfsprottið skipulag sem meðal annars hvílir á reynsludyggðum Humes. Þetta skipulag hefur ekki orðið til fyrir valdboð eða ráðstjórn heldur frjáls samskipti einstaklinga á markaði. Það er með öðrum orðum skipulegt án þess að hafa verið skipulagt. Friedrich A. Hayek á líklega mestan heiðurinn af því að benda mönnum á þetta sjálfsprottna skipulag en þeirri hugmynd má finna stað í velflestum verka hans. Fyrir rúmum tveimur árum kom út bók eftir Atla Harðarson, Af jarðlegum skilningi, þar sem Atli fjallar meðal annars um sjálfsprottin skipulög og er fengur að þeirri bók. Vefþjóðviljinn leyfir sér að benda lesendum sínum á hana en hún fæst að minnsta kosti í Eymundsson í Kringlunni og Bóksölu stúdenta.