Laugardagur 16. ágúst 2003

228. tbl. 7. árg.

Eftir að R-listinn hefur stýrt Reykjavíkurborg í rúmlega tvö kjörtímabil þá er svo komið að Orkuveitan, fyrirtæki sem ætti að geta verið með þeim öflugustu á landinu, ræður ekki við gott veður. Að minnsta kosti segir R-listinn að hlýindin síðustu vikur séu slík að nú verði Orkuveitan að hækka gjaldskrá sína. Svo gegndarlaus hefur eyðslan verið undanfarin ár, en þeir Alfreð Þorsteinsson stjórnarformaður og Helgi Hjörvar, sem þar til nýlega var varaformaður hans, virðast hafa fengið að ráðskast með Orkuveituna að vild og án nokkurs eftirlits annarra borgarfulltrúa meirihlutans. Slíkt ástand kemur reyndar ekki á óvart þegar uppbygging R-listans er skoðuð; vinstri meirihlutinn er í raun nokkrir smákóngar þar sem hver og einn fær að stjórna sínu og hver valdar annan, vitandi það að meirihlutinn springur um leið og einhver ætlar að taka á öðrum. Eða hvaða aðra skýringu á að gefa á því hvernig farið hefur verið með Orkuveituna? Af hverju hefur aldrei neinn tekið í taumana? Getur verið að skýringin sé sú að aðrir borgarfulltrúar meirihlutans séu í raun hæstánægðir með stjórnvisku Alfreðs? Þá eru þeir enn verri en Vefþjóðviljinn hélt. Og var hann nú ekki bjartsýnn á þá.

En nú vita borgarbúar þó að það er til einskis að fara sparlega með orkuna. Orkuveitan þarf að fá ákveðna upphæð í tekjur í hverjum mánuði og ef notkunin minnkar þá verður gjaldskráin bara hækkuð til samræmis. Úr því að neytendur munu alltaf þurfa að greiða sama gjaldið hversu mikið sem þeir nota, þá geta þeir alveg eins notað eins mikið og þeir geta. Fólk sem hefur til dæmis sleppt því að fá sér heitan pott í garðinn eða kynt minna en það hefur viljað, til þess að reyna að lækka orkureikninginn, það hefur nú enga sérstaka ástæðu til að halda í við sig. Reikningurinn verður alltaf sá sami svo nú er bara að skrúfa frá.

En Orkuveitan gerir fleira en að hækka gjaldskrána – sem hækkar vísitölu og þar með skuldir þeirra sem eru skuldugir – reisa stórhýsi eða stunda rækjueldi. Í kvöld verður „menningarnótt“ slitið með ógurlegri flugeldasýningu sem verður „í boði Orkuveitunnar“. Vel að merkja, í boði Orkuveitunnar en ekki í boði orkunotenda í Reykjavík, almennra borgara sem eru að fá hækkaða reikninga Orkuveitunnar. Fyrst fá menn hækkaða reikninga, svo geta þeir farið í bæinn og séð Alfreð Þorsteinsson skjóta peningunum þeirra upp í loftið. Í boði Orkuveitunnar.