Því einatt má á orðum stikla einmitt þegar hugtak geymir veilu. Með orðum má uppi halda deilu með orðum byggja upp kerfin heilu. Á orð er fyrirtak að trúa. |
– Johann Wolfgang von Goethe í þýðingu Yngva Jóhannessonar. |
Þau eru mikilvæg, orðin, og hætt við að samskipti fólks yrðu heldur fábreytt ef þau yrðu að fara fram orðalaust. Orð geta vakið bæði skilning og misskilning og meðal annars þess vegna er heppilegra að nota rétt orð en röng, að minnsta kosti þegar mikilvæg mál eru í húfi. Þó flestir reyni eflaust oftast að nota rétt orð um hugsun sína þá grípa ýmsir iðulega til þeirra ráða að nota hugtök, beinlínis til að gefa villandi mynd af sér og sínum málstað. Eða ranga mynd af málstað annarra.
Sumir gæta þess jafnan, þegar þeir ræða utanríkismál, alþjóðastjórnmál, eða öryggis- og varnarmál eigin lands, að tala um sjálfa sig og samherja sína sem „friðarsinna“. Þeir og þeir einir séu „friðarsinnar“. Með þessu er gefið í skyn að fylkingar séu tvær, annars vegar sú sem vill frið og svo hin, þessi sem sennilega vill stríð eða er að minnsta kosti ekki að hugsa um að varðveita friðinn. Ef menn reyna hins vegar að fræðast ögn meira um Friðarsinnann þá kemur í ljós að þessi mynd er vafasöm. Í sjálfu sér má alveg trúa því að mikill hluti „friðarsinna“ vilji í raun að friður ríki, bæði hjá mönnum og álfum. En „friðarbarátta“ þeirra snýst hins vegar um það helst að berjast fyrir því að varnir Vesturlanda verði sem veikastar, að Vesturlönd svari hvorki árásum né útþenslu annarra, að Vesturlönd geri sem minnst til að vera búin undir árásir hryðjuverkamanna og svo framvegis. Þeir sem vilja að land sitt sé svo varið að það dragi úr möguleikum á árásum á það, þeir þykja aldrei „friðarsinnar“. Þeir eru öfgamenn, kaldastríðsmenn og svo framvegis. Þeir eru sagðir taglhnýtingar erlendra ríkja – og þá einkum þess lands sem „friðarsinnar“ hatast sem mest við. Og þetta hatur „friðarsinna“ á þessu landi verður svo sérstakara þegar á það er horft að á síðustu öld kom þetta land lýðræðisríkjum Vestur-Evrópu til bjargar í tveimur heimsstyrjöldum og stóð þétt við bakið á þeim áratugum saman eftir það, svo þau urðu ekki kommúnismanum að bráð. Og hefur nokkur, nokkru sinni, heyrt einn einasta „friðarsinna“ þakka þeim þá varðstöðu?
Annað dæmi um orðanotkun snertir íslenska „friðarsinna“ dálítið, en um nokkurra áratuga skeið hafa þeir sjaldan kallað bandaríska herliðið á Suðurnesjum nokkuð annað en „hernámsliðið“. Nú hefur aldrei verið neitt við því að segja að menn hafi ólíkar skoðanir á því hvort þar skuli rekin bandarísk herstöð, en því fer fjarri að þar hafi setið hernámslið. Herstöðin í Keflavík hefur verið starfrækt í samræmi við vilja lýðræðislega kjörins alþingis og í það eina skipti sem íslensk ríkisstjórn hugðist gera breytingar þar á, þá gerðist það að meirihluti atkvæðisbærra Íslendinga mótmælti þeirri fyrirætlun með sérstakri undirskriftasöfnun. Þeir sem tala eins og á Íslandi sé bandarískt hernámslið, þeir fara með fleipur og eru eiginlega rannsóknarefni ef þeir trúa eigin málflutningi. Þeir menn sem ætíð kalla sig „friðarsinna“, þeir fara ekki með jafn borðliggjandi ósannindi, en hver getur svarað því fyrir sig hvorir leggja meira af mörkum til að friður haldist, þeir sem ætíð hafa lagt áherslu á að land sitt sé varið og öryggi þess tryggt – eða hinir sem áratugum saman hafa barist gegn hvoru tveggja.