Miðvikudagur 6. ágúst 2003

218. tbl. 7. árg.

Í Morgunblaðinu í gær lýsti formaður Tóbaksvarnarráðs yfir nýju stríði á hendur reykingarmönnum og eigendum veitinga- og skemmtistaða. Nú telur hann að rétti tíminn sé til að taka „næsta skref“ í tóbaksvörnum og „keyra í gegn“ algert bann við reykingum á veitinga- og skemmtistöðum. Þó flestum finnist líklega býsna langt gengið að ætla að banna alfarið reykingar á veitinga- og skemmtistöðum er rétt að benda á að ofstækismenn líta aðeins á slíkt bann sem „næsta skref“. Þetta er ekkert lokaskref, aðeins enn eitt skrefið á þeirri leið að banna reykingar og tóbak alfarið. Gott dæmi um þetta viðhorf kemur einmitt fram í Morgunblaðinu í gær þegar haft er eftir framkvæmdastjóra heilsu- og neytendaverndar hjá Evrópusambandinu að hann ræði ekki lengur við fulltrúa tóbaksframleiðenda. Hann hafi hætt því þegar hann uppgötvaði að þeir vildu að fyrirtæki sín skiluðu hagnaði en hann vildi að þau hættu framleiðslu. Hann hafði sum sé átt fundi með tóbaksfyrirtækjunum, væntanlega undir því yfirskini að hann vildi ræða tóbaksvarnir, en hætti því þegar í ljós kom óvænt auðvitað að eigendur þeirra vildu ekki hætta rekstri.

Nú á hófstilling af þessu tagi áfram að ráða för hjá Tóbaksvarnarráði og formaður þess telur sig hafa upplýsingar um að veitingahús tapi bara alls ekkert á því að reykingar séu bannaðar. Þvert á móti aukist velta þeirra umtalsvert, enda staldri reyklausir skemur við á veitingastöðunum, viðskiptavinunum fjölgi, þar með talið barnafólki og auk þess þurfi minna að þrífa staðina. Ef þetta er raunin og ekki einvörðungu sett fram í áróðursskyni, hvernig stendur þá að því að veitingastaðir þurfa hjálp ríkisins til að stórgræða á því að banna reykingar? Hvers vegna sjá veitingamenn þetta ekki hjálparlaust og banna einfaldlega reykingar á stöðum sínum? Hvers vegna stofnar formaður Tóbaksvarnarráðs ekki reyklausan veitingastað í miðborg Reykjavíkur og efnast vel á gríðarlegri veltu fjölmargra viðskiptavina sem eyða miklu en staldra stutt við?

Rökin um að veitingastaðir tapi ekki á reykingabanni eru lítið annað en áróðursbragð til að þrengja enn réttindi almennings. En þó að rökin séu lítils virði skiptir þó meira máli að þau eru algert aukaatriði í þessu máli. Mergur málsins er að eigendur veitinga- og skemmtistaða eru þeir sem eiga að ákveða hvort reykja má á stöðunum eða ekki. Þeir sem ekki vilja reyk fara ekki á staði sem leyfa reyk og þeir sem vilja reykja fara ekki inn á staði sem banna reykingar. Það á enginn heimtingu á að fá að reykja í annarra manna húsum og það á ekki heldur neinn rétt á því að aðrir banni reykingar í húsum sínum. Ef farið er að líta svo á að eignarrétturinn skipti engu og ofstækið eigi alfarið að ráða gerist það sem gerðist við samþykkt síðustu breytinga á tóbaksvarnarlögunum. Þá tókst að koma því þannig fyrir að á sumum einkaheimilum er nú bannað að reykja í tilteknum hlutum húsanna. Ofstækismennirnir fá aldrei nóg. Þeir munu alltaf vilja taka eitt skref enn. Og ef þeim tekst að banna alla meðferð tóbaks munu þeir snúa sér að því næsta, til að mynda feitmeti, áfengi, snjóbrettum, innanhússfótbolta, eða hverju öðru sem þeir kunna að telja að geti verið skaðlegt heilsunni.