Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Fréttablaðsins heldur úti dálki í blaðinu sem heitir Mín skoðun. Í gær ræddi hann í þessum dálki um það hvort skattskrár ættu að vera opinberar og leitaðist við að færa rök fyrir því að svo ætti að vera. Gunnari Smára er sérstaklega illa við mótmæli Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, við birtingu skránna. Hann nefnir þau rök félagsins að launakjör séu trúnaðarmál og komi öðrum ekki við og virðist fallast á það sjónarmið. Hins vegar sé það ekki gilt í þessari umræðu þar sem fáir á lista yfir skattkónga séu launamenn! Skömmu síðar er á Gunnari Smára að skilja sem vafasamt sé að birta lista yfir skattgreiðslur launþega eftir því hvaða starfsstétt þeir tilheyri. En þessir listar séu reyndar hvort eð er ekki nákvæmir vegna þess að þeir séu „mengaðir af áætluðum tekjum, fjármagnstekjum og öðru“ svo þeir gefi í raun litla hugmynd um venjubundin launakjör.
Þessi málflutningur ritstjórans er allur hinn undarlegasti og illskiljanlegur með eindæmum. Honum virðist þykja í lagi að birta lista yfir tekjur manna ef þær eru ekki launatekjur, en hefur efasemdir um birtingu þegar um launatekjur er að ræða. Og það er líka nóg að „flestir“ þeir sem borga hæstu skattana hafa tekjurnar af öðru en launum. Litlu virðist skipta þótt ef til vill sé brotið á rétti örfárra launamanna, réttur þeirra verður að víkja fyrir forvitni ritstjórans, sem væntanlega vill næst fá að kynna sér stöðu á bankabókum landsmanna, enda segja þær lítið um launakjör þeirra.
Þá er á ritstjóranum að skilja að álagningarskráin sé svo ónákvæm að hún gefi í raun alls ekki rétta mynd af launum manna. Ekki er gott að ráða af pistlinum hvað ritstjóranum finnst um að leyfa þessa birtingu, en hann segir að hún sé „ef til vill annar handleggur“, sem gæti þýtt að ekki eigi að birta þann lista. Sem þó getur varla verið því ritstjórinn leggur upp úr því í pistli sínum að allar þessar skrár eigi að liggja frammi. Það er ekki fyrir hvern sem er að átta sig á því hver skoðun ritstjórans nákvæmlega er, en ef til vill er það af langri reynslu sem „álitsgjafinn“ kýs að viðra skoðun sína með þeim hætti að hann geti viðrað einhverja allt aðra skoðun síðar. Það er nefnilega svo fínt í kaffihúsaspjallinu að geta haft alls konar skoðanir á sama hlutnum á sama tíma.
Þessi undarlegi málflutningur er þó ekki það sem helst stakk í augu í pistli ritstjórans. Það sem kom mest á óvart er að það skuli einmitt vera ritstjóri Fréttablaðsins sem gagnrýnir Heimdall fyrir að vilja ekki að einkamál manna séu til opinberrar umræðu og fyrir opnum tjöldum. Hann telur að Heimdallur ætti frekar að „berjast fyrir að þögninni yrði aflétt sem víðast og ljósi varpað á það sem áður hefur verið hulið myrkri“. Þetta er alveg undarlegt frá ritstjóra Fréttablaðsins komið, því þessi sami ritstjóri harðneitaði um margra mánaða skeið að gefa upp hverjir eigendur blaðs hans væru. Það kæmi engum við og yrði ekki gefið upp þrátt fyrir fyrri fyrirheit um annað. Nú er það ekki svo að Vefþjóðviljinn telji sig eiga sérstaka heimtingu á að vita hverjir eiga Fréttablaðið. En þeir sem líta svo á að eignir manna séu þeirra einkamál og komi ekki öðrum við, hvernig geta þeir haldið því fram að það sé í góðu lagi að ríkið birti árlega upplýsingar um fjárhagsleg einkamál manna? Þarf ekki að varpa ljósi á eignir manna fyrir opnum tjöldum? Er nóg fyrir opnum tjöldum að varpa aðeins ljósi á tekjur af þessum eignum?