Föstudagur 1. ágúst 2003

213. tbl. 7. árg.

Ýmsir hafa sjálfsagt verið spenntir í gær að sjá hvað kæmi upp úr umslaginu frá skattstjóranum sínum. Plús eða mínus? Skulda ég nóg til að fá vaxtabætur og sleppa við eignarskattinn? Vann ég of mikið til að fá vaxtabætur? Vann ég svo mikið að ég lendi í sérstökum tekjuskatti? Þarf ég þá að greiða sérstakan tekjuskatt fyrirfram vegna næsta árs?

Flestir hefðu raunar getað fengið að vita um stöðu sína gagnvart skattinum fyrir viku með því að spyrja vinnuveitanda sinn. Skattstjórar senda nefnilega vinnuveitendum reglulega upplýsingar um stöðu launþega gangvart skattinum. Vinnuveitendum er svo æltað að draga skuldina frá launum næstu mánaða. Víkjum því aðeins til hliðar að vinnuveitandi sé launalaust settur í það verk að innheimta skatta af launum manna fyrir ríkið. Hann þarf hvort eða er að standa skil á staðgreiðslu skatta, tryggingagjaldi, orlofsgjaldi, skyldusparnaði í lífeyrissjóð, viðbótarsparnaði í lífeyrissjóð, stéttarfélagsgjaldi, gjaldi í endurmenntunarsjóð, sjúkrasjóðgjaldi, gjaldi í fellihýsasjóði verkalýðsfélaganna og hvað þetta heitir nú allt saman sem dregið er af launum nú til dags, meira og minna með lagaboði.

Það er hitt sem er ekki síst einkennilegt að vinnuveitendur, af öllum mönnum, fái reglulega um það tilkynningar frá skattinum hvað starfsmenn þeirra skulda í skatta. Oftast eru þetta skattskuldir sem starfsmaður hefur stofnað til annars staðar en með vinnu sinni fyrir fyrirtækið sem fær tilkynninguna um að starfsmaðurinn sé með allt niður um sig gagnvart skattinum og þurfi að vinna allan sólarhringinn næstu mánuðina til að eiga fyrir skuldinni. Ef til vill kærir starfsmaðurinn sig ekkert um að vinnuveitanda hans sé blandað í skattamál sín með þessum hætti. Kannski kærir starfsmaðurinn sig ekkert um að vinnuveitandinn hafi veður af því að hann hafi umsvif annars staðar. Kannski þykir sumum vinnuveitendum ekkert betra að láta blanda sér í einhver skattamál sem þeim koma bara alls ekkert við.

En þetta er náttúrulega smámál við hliðina á því að álagningarskrár séu birtar og skattstjórar láti starfsfólk sitt í lok júlí ár hvert vinsa úr skránum þá sem skatturinn telur að eigi að greiða hæstu skattana og senda þær upplýsingar til matreiðslu fyrir fjölmiðlamenn af lakari sortinni. Í janúar, þegar endanleg álagning liggur fyrir, er leikurinn svo endurtekinn.