Það styttist í hið árlega skemmtiefni. Nú um mánaðamótin senda skattstjórar út álagningarseðla og áhugamenn um einkamál annarra leggjast yfir álagningarskrárnar sem ríkið lætur liggja frammi handa þessu fólki. Og eins og það sé ekki nægilegt þá munu skattstjórarnir enn eitt árið senda út lista yfir þá einstaklinga sem þeir taka mest fé af, svona til að gera fréttirnar safaríkari. Enn hefur hún því lengst, biðin eftir því að tekið verði fyrir þessa ógeðfelldu einkamáladreifingu. En einkamál eru þetta, þó fjölmiðlamenn sem velta sér upp úr fjármálum saklausra borgara, láti jafnan eins og í landinu séu engin einkamál. Sumir færa þau rök fyrir birtingu álagningarskráa að ríkissjóður sé „sameiginlegur sjóður okkar allra“ og þar með eigi „við öll“ rétt á því að fá að vita hverjir borgi í hann og hvað mikið. Önnur röksemd sem stundum heyrist, er að birting álagningarskráa minnki líkur á því að mönnum takist að „svíkja undan skatti“ þar sem skarpskyggnir menn geti með þessu móti komið upp um þá samborgara sína sem lifa hátt en gefa upp litlar sem engar tekjur.
Ef það er í raun svo, að vegna eðlis ríkissjóðs þá eigi hinn almenni borgari rétt á því að fá að vita hve mikið hver maður greiði til sjóðsins, þá hlýtur hið sama að gilda um greiðslur úr sjóðnum. Ef menn eiga rétt á upplýsingum um það hve mikinn tekjuskatt einhver maður greiðir, þá eiga þeir líka rétt á því að fá að vita hversu háar bætur hann fær úr ríkissjóði. Slíkar upplýsingar yrðu auk þess miklu líklegri en hinar til að koma í veg fyrir að ríkissjóður væri hlunnfarinn. Maður getur haft full tök á því að lifa hátt þó hann hafi undanfarið haft lágar tekjur. Hann getur verið að ganga á eigur sínar og svo framvegis. En það er mun meiri vísbending um svik ef heilsuhraustur maður þiggur örorkubætur, sístarfandi maður er á atvinnuleysisbótum og svo framvegis. Þannig að þeir sem vilja birtingu skráa í þeim tilgangi að standa vörð um hag ríkissjóðs, þeir ættu fyrst og fremst að krefjast birtingar bótaskráa. Birting álagningarskráa hefur hins vegar sárasjaldan leitt af sér gagnlegar vísbendingar til skattyfirvalda, eins og þau hafa margviðurkennt.
Fjölmiðlamenn láta mikið með þær upplýsingar sem þeir veiða úr álagningarskrám – þó misjafnt sé hversu rétt þeir reikna upp úr skránum. Þeir gefa gjarnan þá skýringu á ákafa sínum að þeir séu að birta upplýsingar um þjóðþekkt fólk sem „almenningur“ hafi áhuga á. En það er bara engin afsökun. Þó eitthvert fólk sé þjóðþekkt þá á það sama rétt til einkalífs og annað fólk og fjölmiðlamönnum á ekki að haldast uppi að brjóta þau réttindi niður. Hugsanlegur „áhugi“ annarra skiptir engu máli. En svo er annað sem vekur athygli og segir talsvert um hugarfar þeirra fjölmiðlamanna sem þylja upp misrangar tölur um tekjur annarra. Fréttamennirnir nefna aldrei sínar eigin tekjur. Í langflestum tilfellum eru þeir sjálfir þó þekktari en það fólk sem þeir eru að fjalla um. Og í eigin tilfellum þyrftu þeir ekki að styðjast við ónákvæmar áætlanir eða vafasaman reikning úr álagningarskrám. Þeir fá launaseðil heim í hverjum mánuði og gætu birt upplýsingar sem væru réttar upp á krónu. En „réttur almennings til upplýsinga um þjóðþekkt fólk“ – hann nær víst ekki til þjóðþekktra fréttamanna.
Það er beinlínis til skammar hvernig fjölmiðlamenn munu haga sér næstu daga.