Miðvikudagur 30. júlí 2003

211. tbl. 7. árg.

Mælingar á fátækt eru ekki nema hóflega nákvæm vísindi. Þrátt fyrir skort á nákvæmni koma niðurstöður fátæktarmælinga oft upp í umræðunni, að minnsta kosti þegar nálgast kosningar. Þá eru alls kyns fræðingar búnir til, þeim eru gefin sérkennileg nöfn og látnir bera vitni um fátækt sem er svo mikil og svo víða að enginn kannast við þjóðfélagið sem verið er að lýsa. Og það er ekki bara á Íslandi sem spilað er á þessa hörpu, menn fitla víða við hana með svipaðri niðurstöðu. Gene Epstein ritaði á dögunum grein um fátæktarmælingar í Bandaríkjunum þar sem hann benti á að ef einstaklingur flokkast fátækur þar í landi þá eru 73% líkur á að hann eigi bíl, 46% líkur á að hann eigi eigið húsnæði, 65% líkur á að hann eigi þvottavél, 56% líkur á að hann eigi þurrkara, 73% líkur á að hann eigi örbylgjuofn og 78% líkur á að hann eigi loftkælingu. Og það þarf vart að taka fram að öll hafa þessi hlutföll hækkað nokkuð frá árinu 1995 og þar til síðasta mæling var gerð árið 2001.

Nú er það auðvitað ánægjulegt að fátækir skuli hafa það æ betra, en getur verið að stór hluti þeirra sem mælast fátækir séu það bara alls ekki? Já, það getur meira en verið, því þótt þeir séu til sem eru fátækir, þá eru þeir sem betur fer mun færri en tölur gefa yfirleitt til kynna. Epstein bendir á að ástæða þess að allt þetta „fátæka“ fólk – 11,7% Bandaríkjamanna mælast fátæk – á öll þessi tæki og hús er einmitt að fólkið er ekkert fátækt. Fátæktin er mæld með því að kanna tekjur fólks tiltekið ár, en flestir hafa árin á undan haft mun meiri tekjur og stór hluti vinnur sig út úr fátæktinni. Epstein vitnar í rannsókn sem sýnir að 20%-30% þeirra sem mælast fátækir tiltekið ár eru ekki lengur undir fátæktarmörkum ári síðar. Og það sem er enn athyglisverðara er hve margir færast af botninum og upp í efstu þrep tekjustigans. Þannig hefur verið sýnt fram á að 29% þeirra sem voru í tekjulægsta fimmtungnum árið 1975 voru árið 2001 komin upp í tekjuhæsta fimmtunginn. Rúmlega 30% til viðbótar voru komin í næst hæsta fimmtunginn. Með öðrum orðum þá voru um 60% þeirra fátækustu árið 1975 komin yfir meðallag árið 2001.

Staðreyndin er nefnilega sú, og það gleymist oft, að fólk færist upp og niður tekjustigann og fæstir sitja fastir á botninum – eða eru fastir á toppnum ef því er að skipta. Það gleymist líka í svona mælingum að margir hafa lágar tekjur um skamma hríð vegna náms þegar þeir eru ungir og eru að búa sig undir að afla tekna í framtíðinni. Þá gleymist að þó að menn hafi lágar tekjur einstök ár getur verið að þeir eigi eignir sem þeir geta selt og þannig brúað bilið þar til tekjurnar aukast á ný. Eignasala er nefnilega eitt af því sem ekki er talið með þegar fátækt er mæld.