Fimmtudagur 17. júlí 2003

198. tbl. 7. árg.

E

Hann lækkaði verð til neytenda og galt fyrir það með viðskiptafrelsi sínu.-  Í furðuveröld Samkeppnisstofnunar geta menn lent í járnum fyrir að hækka verð, lækka verð og bjóða sama verð og aðrir.

nn á ný skjótast höfðingjarnir á Samkeppnisstofnun fram á sjónarsviðið. Nú voru þeir að banna flugfélaginu Flugleiðum hf. að mæta samkeppni nýs flugfélags með því að lækka farmiðaverð á þeim leiðum þar sem hið nýja félag flýgur. Þeir á Samkeppnisstofnun telja sig nefnilega vita hvað vakir fyrir Flugleiðamönnum. Nú eigi að lækka verðið þar til baráttan gangi af nýja félaginu dauðu og svo verði hækkað rakleiðis aftur. Því sé það í raun betra fyrir farþega, svona til lengri tíma litið, að Flugleiðum verði bannað að lækka verðið og hinu félaginu einu leyft að bjóða það sem því sýnist.

Nú má það alveg vera að Flugleiðir myndu hækka verð sitt að nýju ef hitt flugfélagið gæfist upp. Við því væri einfaldlega ekkert að segja. Verðlagning á einfaldlega að vera frjáls og í frjálsri samkeppni eru allir aðilar jafn frjálsir að verðlagningu. Það er alltaf verið að biðja um samkeppni vegna þess að hún sé líkleg til að leiða til lægra verðs. En þá verður líka að leyfa verðinu að lækka. Jafnvel þó Flugleiðir geti boðið betur en nýja félagið þá yrði það aldrei til þess að drepa nýja félagið. Það eru farþegar sem ráða því hvaða félög skila árangri og hver ekki. Ef að farþegum þykir sem sér sé í raun í hag að „tryggja samkeppni“ með því að skipta við hið nýja flugfélag, þá gera þeir það einfaldlega og láta sig engu skipta hvað Flugleiðir bjóða. Ef farþegar eru annarrar skoðunar, þá það. Þessu verður fólk að fá að ráða sjálft án afskipta þeirra á Samkeppnisstofnun. Neytendur eiga að hafa síðasta orðið um þessi efni en ekki einhverjir kontóristar á Samkeppnisstofnun. Samkeppnisstofnun á ekki að taka valdið af neytendum.

En það er fleira sem máli skiptir. Það er einfaldlega verulega ósanngjarnt að meina frjálsu fyrirtæki að verja sig með því móti að reyna að bjóða betur en keppinautarnir. Þeir sem telja að Flugleiðir megi ekki bjóða betur en hið nýja flugfélag, hvernig vilja þeir að Flugleiðir svari samkeppninni? Mega þær kannski bara ekki svara og verða að missa öll viðskipti á arðbærustu flugleiðunum? Og segjum sem svo að þróunin stöðvist ekki við það eina nýja félag sem nú hefur komið á markaðinn. Segjum að fjölmörg ný félög komi, eitt fyrir hverja leið Flugleiða, og öll bjóði þau betur en Flugleiðir gera í dag. Hvað mættu Flugleiðir gera? Ekkert? Sumir láta jafnan eins og vígstaða félaga sé afar ójöfn og í hag þeim sem fyrir er. En ef fylgt er meinlokum samkeppnisréttarsinna þá er vígstaðan frekar ójöfn í hina áttina. Samkvæmt þeim þurfa ný félög nefnilega ekki að gera annað en að athuga verðskrá þess sem fyrir er, bjóða svo aðeins betur um stund og þá er björninn unninn. Hinn má nefnilega ekki svara í sömu mynt. Því það yrði „andstætt samkeppni“.