Miðvikudagur 16. júlí 2003

197. tbl. 7. árg.

S

Hver hefði trúað því fyrir rúmum áratug að Vesturlönd gætu lært skattlagningu af Rússum?

vo virðist sem flatur skattur geti orðið ofaná í hinum nýfrjálsu ríkjum Evrópu. Áður hefur verið sagt frá því hér að Rússland hafi árið 2001 breytt tekjuskattskerfi einstaklinga þannig að allir greiða sama hlutfall, 13%, launa sinna í skatta, og að í maí hafi Úkraína fylgt í kjölfarið. Nú hafa yfirvöld í Slóvakíu ákveðið að þar í landi verði lagður á 19% flatur skattur frá og með næstu áramótum. Þá hefur forsætisráðherra Póllands lýst áhuga á því að taka upp þess háttar skattkerfi og nýtur í því stuðnings stjórnarandstöðuflokka. Eistland, sem er með 26% flatan skatt, og Lettland, sem er með 25% flatan skatt, riðu á vaðið í þessum efnum á síðasta áratug og hefur gengið vel. Hagvöxtur hefur verið góður og fjárlagahallinn hefur ekki verið vandamál líkt og í vesturhluta Evrópu, þar sem hann ógnar nú samkomulagi um stöðugleika og þar með evrunni. Í vesturhluta Evrópu er sem kunnugt er stighækkandi tekjuskattur á einstaklinga, enda hafa stjórnvöld þar fallið fyrir þeirri ranghugmynd að slíkur skattur sé réttlátari og skili meiri tekjum.

Eitt af því sem hefur gerst í kjölfar þess að skatthlutfallið var lækkað í Rússlandi og lagt jafnt á alla er að skatttekjur ríkissjóðs hafa aukist til mikilla muna. Þetta á sér þær skýringar að með lægra þrepi er meiri hvati hjá fólki til að afla meiri tekna og minni hvati til að afla svartra tekna. Ísland gæti lært af þessum nýfrjálsu þjóðum og fært tekjuskattskerfi sitt í rétta átt. Raunar er ætlunin að gera það á þessu kjörtímabili með lækkun skatthlutfallsins, en æskilegt væri að ganga mun lengra. Með því að leggja af persónuafsláttinn og lækka skatthlutfallið í staðgreiðslunni til að mynda niður í 18%, sem er það hlutfall sem fyrirtæki greiða, yrði skattkerfið bæði skilvirkara og réttlátara.