Leit Samfylkingarinnar að sjálfri sér og stefnu sinni tekur á sig ýmsar myndir. Nú í vikunni birtust fréttir í flestum fjölmiðlum um að nýskipaður formaður framtíðarstefnuhóps flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, væri á förum til Lundúna til að sitja alþjóðlega ráðstefnu krataflokka, sem í þessu tilviki hafa gefið sjálfum sér heitið „framsæknir flokkar“. Mátti skilja fréttirnar svo, að þátttaka Ingibjargar væri liður í undirbúningi framtíðarstefnuhópsins undir stefnumótunarvinnu, sem ætlunin er að fara í með haustinu.
„Nú þegar viðkvæm staða er komin upp í viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarstöðvarinnar, keppast Samfylkingarmenn hins vegar við að tala um þörf á að endurskilgreina varnarþörf landsins, sem getur ekki þýtt annað en stefnubreytingu varðandi varnarsamstarfið. Það var ekki á stefnuskránni fyrir kosningar og má spyrja hvað hafi breyst.“ |
Nú er auðvitað í sjálfu sér ekkert við það að athuga að stjórnmálamenn sæki fundi erlendis til að hitta kollega sína frá öðrum löndum, skiptast á skoðunum, afla upplýsinga og jafnvel að sækja hugmyndir, sem nýta má í stefnumótunarvinnu. Í þessu tilviki væri til dæmis gagnlegt fyrir Ingibjörgu Sólrúnu að kynna sér sjónarmið gestgjafanna, Verkamannaflokksins í Bretlandi og Tony Blairs, varðandi utanríkis- og öryggismál. Í þeim málaflokki hefur Blair haldið fram stefnu, sem er ólíkt skýrari og samkvæmari sjálfri sér heldur en Samfylkingin á Íslandi. Í öðrum málaflokkum er hins vegar hætt við að hún fái fáar góðar hugmyndir. Í málum er snerta efnahagsmál og starfsumhverfi atvinnulífsins er til dæmis ekki gott að leita fyrirmynda hjá Blair, því þótt hann og flokkur hans hafi á undanförnum árum kastað gömlum slagorðum um þjóðnýtingu og að vissu leyti tileinkað sér orðfæri fylgismanna frjáls markaðar hefur reynslan af stjórnarstefnu hans ekki verið í þeim anda. Þannig hefur bresku atvinnulífi verið íþyngt stórlega með sífellt vaxandi regluverki og skattheimta verið aukin með ýmsum hætti; fyrst og fremst með ýmsum lítið áberandi sérsköttum og gjöldum, sem hver um sig vekur ekki mikla athygli eða umtal, en hafa þegar allt kemur til alls stóraukið kostnað fyrirtækjanna. Hafa þessar breytingar ekki síst komið niður á litlum fyrirtækjum, sem jafnan hafa minna svigrúm til að bregðast við flóknara regluumhverfi og auknum opinberum gjöldum. Er það nokkuð hlálegt í ljósi þess að Blair og aðrir sem kalla sig á tyllidögum „nútímalega jafnaðarmenn“, tala oft eins og þeir séu sérstakir málsvarar smáfyrirtækja.
En óháð því hvað Ingibjörg Sólrún lærir eða lærir ekki af því að sitja ráðstefnuna í Lundúnum verður fróðlegt að fylgjast áfram með hinu sífellda stefnumótunarferli Samfylkingarinnar. Frá því Samfylkingin kom fyrst fram á sjónarsviðið fyrir kosningarnar 1999 hefur átt sér stað stöðug umræða um það hvers konar flokkur þar væri á ferðinni og hver stefnan í helstu álitamálin ætti að vera. Fyrir þær kosningar kynnti flokkurinn bæði kosningastefnu og verkefnaskrá. Á landsfundi 2001 var samþykkt ítarleg stjórnmálaályktun í mörgum köflum og að auki svokölluð stefnuyfirlýsing, sem einnig var kölluð „manifesto“, til að sýna að hér væri raunverulega um alþjóðlegan og nútímalegan flokk að ræða. Fyrir kosningarnar í vor var svo kynnt kosningastefnuskrá, sem í öllum aðalatriðum var samhljóða yfirlýsingunum frá 2001. Nú að loknum kosningum hefur svo verið skipaður framtíðarstefnuhópur undir forystu Ingibjargar Sólrúnar, sem á eins og nafnið gefur til kynna, að móta stefnu flokksins til framtíðar.
Það er auðvitað hverjum stjórnmálaflokki hollt að fjalla reglulega um stefnumál sín, ræða málin innbyrðis, móta sér stefnu og kynna hana svo fyrir almenningi. Í tilviki Samfylkingarinnar hefur hins vegar sú stefnumótunarvinna ekki skilað mjög skýrri stefnu og kjósendur í landinu hafa ekki haft glögga mynd af því hver afstaða flokksins væri í veigamiklum atriðum. Öll þau stefnuplögg, sem vísað er til hér að framan, eiga það sammerkt, að þau eru uppfull af innantómum slagorðum og merkingarlitlum frösum um „nýja tíma“, „nútímalega stjórnarhætti“, „faglega stefnumörkun“, „lýðræðisleg vinnubrögð“, „faglega framtíðarsýn“ og svo má lengi telja. Þegar kemur að einstökum, mikilvægum málaflokkum verður myndin hins vegar óskýrari, orðalagið loðið og markmiðin hulin þoku. Þar sem einhverja ákveðna stefnu hefur verið hægt að lesa út úr ályktununum hafa talsmenn flokksins keppst við eftirá að útskýra, að ekki hafi verið átt við það sem sagði í plöggunum. Dæmin um þetta eru fjölmörg og nægir að nefna skattamálin, þar sem talsmenn flokksins og einkum aðaltalsmaðurinn og forsætisráðherraefnið, fóru heljarstökk aftur á bak og áfram í yfirlýsingum sínum þannig að hvorki flokksmenn sjálfir eða kjósendur gátu áttað sig á hver stefnan væri. Svipaða sögu var að segja um fiskveiðistjórnunina, þar sem allskýrt var kveðið á um það í stefnuyfirlýsingunum að flokkurinn vildi þjóðnýta allan kvóta á fáum árum. Þegar sú stefna mæltist illa fyrir, einkum í sjávarbyggðum landsins, var farið út í að draga úr þessum efnisatriðum, flækja umræðuna og lofa út og suður byggðakvótum og bótum fyrir þjóðnýttar aflaheimildir.
Í utanríkis- og varnarmálum var ekki annað að skilja á stefnuplöggum Samfylkingarinnar en að flokkurinn vildi standa vörð um aðildina að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfið við Bandaríkin. Á einstökum framboðsfundum mun reyndar hafa glitt í gamla herstöðvarandstæðinginn hjá einstökum talsmönnum, en hin opinbera lína var skýr; Samfylkingin boðaði engar breytingar á stefnu íslenskra stjórnvalda í þessum mikilvæga málaflokki. Nú þegar viðkvæm staða er komin upp í viðræðum Íslendinga og Bandaríkjamanna um framtíð varnarstöðvarinnar, keppast Samfylkingarmenn hins vegar við að tala um þörf á að endurskilgreina varnarþörf landsins, sem getur ekki þýtt annað en stefnubreytingu varðandi varnarsamstarfið. Það var ekki á stefnuskránni fyrir kosningar og má spyrja hvað hafi breyst.
Í ljósi reynslunnar má búast við því að stefnumótunarferlið taki langan tíma hjá Samfylkingunni. Reikna má með því að þegar framtíðarstefnuhópur Ingibjargar Sólrúnar lýkur störfum taki einhver nýr hópur til starfa til að halda verkinu áfram. Það hljómar nefnilega ekki illa að vera í stefnumótunarvinnu. Það getur verið þægilegt að hliðra sér hjá því að svara erfiðum spurningum um stefnu í einstökum málaflokkum með því að vísa til þess að stefnumótunarvinna sé í gangi. Þegar flokkar reyna að vera öllum allt og gera öllum til geðs á sama tíma, er auðvelda lausnin alltaf sú að segjast munu taka sjónarmið til gaumgæfilegrar skoðunar í stefnumótuninni. Ef stefna reynist röng eða óvinsæl er þægilegt að geta kastað gömlu áhersluatriðunum og tekið upp ný, allt eftir því hvernig vindar blása í skoðanakönnunum. Þetta vinnulag reyndist Samfylkingunni ágætlega í kosningunum í vor, stefnan var hæfileg óskýr til að margir gátu samsamað sig henni. Hitt er svo annað mál, að fyrir stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn er nauðsynlegt, til lengri tíma litið, að þekkja sjálfan sig, vita hvað maður vill og vera óhræddur að standa við skoðun sína. Þegar fram í sækir kunna kjósendur að meta slíka flokka en treysta illa þeim sem sveiflast til og frá eins og lauf í vindi.