Laugardagur 12. júlí 2003

193. tbl. 7. árg.

G

Verður bannað í framtiðinni að draga upp staðalímyndir af körlum og konum í Evrópusambandinu?

ríski jafnaðarmaðurinn og femínistinn Anna Diamantopoulou fer nú fyrir atvinnu- og félagsmálum Evrópusambandsins. Diamantopoulou er þeirrar skoðunar að Evrópusambandið þurfi að ganga lengra í átt til afskipta af borgurunum og nú vill hún koma í veg fyrir staðalímyndir í fjölmiðlum og auglýsingum. Væntanlega má lengi deila um hvað er ‘staðalímynd’ og hvað ekki og í þeim drögum að reglum sem Diamantopoulou hefur látið setja saman er staðalímynd ekki skilgreind. Dregur tiltekin auglýsing fram staðalímynd af körlum eða konum? Eru sápuóperur sjónvarpsstöðvanna ef til vill fullar af staðalímyndum? Byggjast kvikmyndirnar Charlie’s Angels og Terminator 3 á staðalímyndum? Mun Evrópusamband Stóru systur banna slíkar myndir? Um það er ekkert hægt að segja sem stendur, en nái hugmyndirnar fram að ganga er að minnsta kosti ljóst að Evrópusambandið mun hafa vald til að ákveða hvað eru staðalímyndir og hvað ekki og þar með hvað það bannar og hvað ekki. Þetta hljómar ef til vill fjarstæðukennt, en það er engu að síður staðreynd að einn af æðstu yfirmönnum Evrópusambandsins vinnur að því að koma slíkum reglum á til að ritskoða fjölmiðla og auglýsingar í þeim tilgangi að takmarka notkun ‘staðalímynda’.

Það verður að viðurkennast að hugmyndaflug forkólfa Evrópusambandsins kemur sífellt á óvart. Á dögunum sagði Vefþjóðviljinn til að mynda frá því að vilji stæði til þess að banna þá stjórnmálaflokka sem ekki hentuðu Evrópuhugsjóninni, og nú er reynt að banna hvers kyns tjáningu sem dregur fram óæskilegar ‘staðalímyndir’. Hvað næst? Um það er engin leið að segja – og raunar stórhættulegt að skálda upp fáránlegar hugmyndir því þær kynnu að rata inn í evrópskar reglugerðir. Eitt má þó fullyrða: Reglusmiðir Evrópusambandsins munu áfram vinna dag og nótt að því að sauma að varnarlitlum borgurum sambandsins.