Föstudagur 11. júlí 2003

192. tbl. 7. árg.

Merkilegt hvað umsjónarmönnum Kastljóss Ríkissjónvarpsins tekst stundum að efna til spennandi umræðu. Á þriðjudagskvöldið voru mættir undir kastljósið samgönguráðherrann og bæjarstjórinn á Siglufirði til að ræða tvenn göng til Héðinsfjarðar fram og til baka. Ef það hefur farið framhjá einhverjum þá er það ætlun stjórnvalda að láta hvern Íslending styðja þessi göng með 24 þúsund króna framlagi. Helstu rökin fyrir þessu almenna en nauðuga örlæti landsmanna er að Siglufjörður tilheyri nú Norðausturkjördæmi. Af því leiðir víst af sjálfu sér að komast þarf frá Siglufirði um Héðinsfjörð til Ólafsfjarðar.

Einhvern veginn fundu umsjónarmenn Kastljóssins það út að mest púðrið væri í því að fá í sjónvarpssal fulltrúa þeirra sem vilja byrja að grafa göngin á þessu ári i og svo fulltrúa þeirra sem vilja gera það á þarnæsta ári. Spennandi andstæður atarna. Ekki síst þegar haft er í huga að svo skemmtilega vildi til að þessir fulltrúar andstæðra sjónarmiða höfðu fyrr um daginn sæst á að byrja að grafa á næsta ári. Þarna fengu þeir sumsé færi á að fallast aftur í faðma fyrir alþjóð eftir að hafa fært rök fyrir sínu máli. Núna eða eftir tvö ár. Spennan magnast. Svo sættast allir á eitt ár. Stórbrotið.

Það sem var svo dæmigert fyrir þessa umræðu í Kastljósinu var að þarna sátu tveir fulltrúar eyðenda en enginn fulltrúi greiðenda. Sem svo oft áður var því ekki spurt hvort ætti að eyða fé skattgreiðenda heldur aðeins hvernig og hvenær. Líklega stóð Héðinsfjarðarfárið í rúma viku. Fjölmiðlamenn höfðu því nægan tíma til að láta sér detta í hug að kannski mætti ræða við einhvern skattgreiðanda. Jafnvel skattgreiðanda sem gat ekki aðeins hugsað sér að fresta greftrinum til Héðinsfjarðar um nokkra mánuði heldur um ófyrirséða framtíð.