Mánudagur 14. júlí 2003

195. tbl. 7. árg.

H

Hið opinbera mælir með aukinni neyslu grænmetis en þó ekki af þessum akri.

afnfirskir tollverðir gerðu góða ferð í rússneskt skip í síðustu viku og fundu þar hvorki fleiri né færri en níutíu og fjögur þúsund vindlinga sem einhver hafði ætlað að smygla til landsins og selja án þess að ríkissjóður fengi krónu í sinn hlut. Í fréttum af þessu kom einnig fram að vindlingasmygl hefur stóraukist á síðustu misserum en smygl á víni dregist mjög saman – eða það halda þeir að minnsta kosti – og var það skýrt með því að tóbak hefur hækkað mjög í verði hér á landi og því eftir meiru að slægjast, bæði fyrir smyglarann og kaupandann. Má af því ætla að skammt kunni að vera í „bannáraástand“ á tóbaksmarkaði, og hljóta smyglarar og leynisalar að hlakka til þess.

Það eru ofstækismenn í öllum löndum. Sumir lifa fyrir einhvern málstað, aðrir ganga fyrir hatri á málstað einhvers annars. Sumir fremja glæpi í nafni trúar eða stjórnmálaskoðana, aðrir öskra sig hása yfir fótboltaleikjum. Sumir berjast alla ævi fyrir eða gegn sjálfstæðu ríki Palestínumanna, aðrir hafa séð alla leiki Plymouth síðan í júli sjötíuogsex. Og svo framvegis. Einn af leiðinlegri ofstækishópunum eru þeir menn sem ekki geta unnt samborgurum sínum þess að kveikja sér í vindlingi. Þessi áhrifamikli þrýstihópur hefur náð ótrúlegum árangri í baráttu sinni við saklausa samborgara sína og víða um heim náð að þrengja að fólki sem ekkert hefur til saka unnið, annað en það að neyta tóbaks af og til. Þeir hafa náð að knýja fram bann við reykingum inni í húseignum annars fólks, svo sem á veitingastöðum, þeir hafa fengið fram bann við að tóbaksframleiðendur auglýsi kosti framleiðslu sinnar og þeir hafa víða fengið lagða stórfellda skatta og tolla á tóbak til að hækka það í verði og rýra þannig lífskjör reykingafólks.

Tóbaksvarnarliðið heldur því iðulega fram að þeir sem reyki verði háðir þeirri neyslu sinni og eigi sér vart undankomu auðið. Á sama tíma krefst þetta sama fólk þess að tóbak verði haft sem allra dýrast. Ef að það er nú rétt að reykingamaðurinn geti ekki án tóbaksins verið, hvort ætli efnalítill reykingamaður neiti sér þá um tóbak eða einhverja aðra neysluvöru sem ekki er eins „ávanabindandi“? Ætli álögur á tóbak séu þá líklegar til að fá fólk til að hætta að reykja? Eða ætli þær verði einkum til þess að rýra lífskjör efnaminni reykingamanna sem vegna þeirra verða að neita sér um eitthvað annað en tóbakið sitt?

En jafnvel þó að ofurverð á tóbaki hefði þær afleiðingar sem tóbaksvarnarliðið óskar sér, þá er það aukaatriði. Það er einfaldlega óþolandi að menn noti opinbert vald til að stjórna lífi borgaranna með þeim hætti sem reynt er með tóbaksvörnunum. Hver og einn á að vera sjálfráða um það hvort hann reykir eða ekki og hvort hann leyfir eða bannar reykingar í sínum húseignum svo lengi sem hann neyðir engan til að dvelja þar. Það getur vel verið að reykingamaðurinn kaupi ánægju sína háu verði. Þó hann hafi ánægju af vindlingi sínum í dag þá má alveg vera að hann greiði þá ánægju með slæmri heilsu á morgun. Þá ákvörðun á hann hins vegar að taka sjálfur. Rétt eins og fólk á að ráða því sjálft hvort það borðar „hollan“ eða „óhollan“ mat, hvort það klæðist skjólfatnaði í köldu veðri, hvort og þá hvaða menntunar það aflar sér, hvort það velur sér hættulegt starf eða ekki og svo framvegis. Fólk á að fá að ráða sem mestu um eigið líf án afskipta þeirra sem alltaf þykjast vita betur.