Mánudagur 23. júní 2003

174. tbl. 7. árg.

Ætli þetta eigi að vera árleg uppákoma? Í fyrra bar það til að nokkrir menn mættu á Austurvöll að morgni þjóðhátíðardags í þeim tilgangi að setja með skiltum og vígorðum svip á þá hátíð sem þar var haldin. Lauk því með því að lögregla tók skiltin af mönnunum en handtók hins vegar engan. Þetta tókst nokkrum fréttamönnum að gera að spurningu um „tjáningarfrelsi“, sem er eitt af þeim orðum sem mest hefur verið gengisfellt í pólitísku reiptogi undanfarinna missera. Þetta mál var rætt fram og til baka í fjölmiðlum, einkum ríkisfjölmiðlum en fréttamönnum þeirra tókst að láta eins og meiriháttar mannréttindabrot hefðu verið framin með því að ekki mættu allir mæta með prívatbaráttumál sín inn á hátíðir sem aðrir aðilar væru að halda. Nú ári síðar endurtók þjóðhátíðarsagan sig. Nokkrir menn mættu með baráttuskilti sín inn á hátíðina sem verið var að halda á Austurvelli. Hins vegar varð ekki sami fjölmiðlasirkusinn úr, enda hugsanlegt að jafnvel fjölmiðlamenn hafi áttað sig á vindganginum í umræðunum í fyrra.

Í gærkvöldi bar hins vegar svo við að Finnur Beck, fréttamaður Ríkissjónvarpsins, ákvað að reyna að blása lífi í umræðuna frá því í fyrra, með því að helga heilan kastljóss-þátt þessu umræðuefni. Má banna mönnum að mæta með pólitísk baráttuskilti inn á Austurvallarhátíðina? Fyrir ári, þegar mest líf var í tjáningarfrelsissinnum, þessum sem telja að tjáningarfrelsi þýði að allir megi fara með skilti sín inn á alla fundi og samkomur annarra manna, fjallaði Vefþjóðviljinn um þetta álitamál og er blaðið reiðubúið að endurtaka þá umfjöllum sína svo lengi sem þarf. Fyrir ári sagði Vefþjóðviljinn og getur endurtekið svo lengi sem þessari einkennilegu umræðu er haldið áfram:

Hvað er „tjáningarfrelsi“? Ætli ekki megi segja að maður njóti tjáningarfrelsis ef honum er ekki af hálfu hins opinbera almennt meinað að láta í ljós skoðanir sínar, og skipti þá litlu hvort tálmanir hins opinbera séu lagðar á með fyrirfram banni eða hörðum refsingum eftir á. Þó lögregla hafi hindrað menn með kröfuspjöld á hátíðardagskránni á Austurvelli er hins vegar nokkuð langt seilst að segja tjáningarfrelsi umræddra manna hafa verið skert sérstaklega. Þessir menn gátu haldið fram sjónarmiðum sínum úti um allan bæ, þeir gátu skrifað í blöð, farið í mótmælagöngur, haldið útifundi og talað óhindrað í útvarp og sjónvarp þar sem þeir eru reyndar aufúsugestir fréttamanna. Það eina sem var gert var að þeim var ekki hleypt með skilti sín inn á hátíð sem annar aðili var að halda. Þessir menn máttu standa með skilti sín á öllum opnum svæðum um allt land nema þessum eina litla bletti, Austurvelli, þessar fáu mínútur sem aðrir menn héldu þar hátíð.
Auðvitað er strangt til tekið hægt að segja að með því einum aðila sé leyft að halda samkomu á tilteknum stað og tilteknum tíma, að þá sé frelsi annarra til að tjá sig akkúrat á sama stað og sama tíma skert. En að fara af því tilefni að tala í geðshræringu um „skerðingu á tjáningarfrelsi“ – eru menn þá ekki að gera heldur lítið úr kúgun þess fólks sem býr við raunverulega skerðingu á tjáningarfrelsi?.
  
Það er skerðing á tjáningarfrelsi ef manni er til dæmis bannað að boða þá kenningu sína að Guð sé ekki til eða að einhver tiltekin trúarbrögð séu ein rétt en öll önnur tóm hindurvitni og bull. En svari nú hver fyrir sig hvort það sé alvarleg skerðing á tjáningarfrelsi ef menn eru hindraðir í að ryðjast inn á samkomur trúaðra með slíkar kenningar. Ef til dæmis múslimar fá leyfi til að halda samkomu einhvers staðar, er það þá spurning um „tjáningarfrelsi“ að allir aðrir megi skálma með krossa inn á samkomuna? Það er mikill munur á því hvort skilti er fjarlægt þar sem maður gengur með það í sakleysi sínu eða hvort það er tekið af manni sem fer með það inn á hátíð sem aðrir halda og hafa fengið fullt leyfi fyrir, í þeim tilgangi að spilla hátíðinni fyrir þeim. Eða svo annað dæmi sé tekið: Auðvitað er mönnum frjálst að berjast fyrir því að í næstu kjarasamningum verði laun lækkuð en vinnuvika lengd. Menn mega gefa út bæklinga, flytja ávörp, skrifa greinar og bera skilti til að leggja áherslu á slíkar kröfur og það væri skerðing á tjáningarfrelsi ef hið opinbera legði bann við því. En hvað ætli menn segðu, ef mikill fjöldi manna tæki upp á því að útbúa mikil skilti með slíkum kröfum og standa svo fremstur í flokki á útifundi verkalýðsfélaganna 1. maí? Þó væri það mun veigaminni aðgerð en að storma með skilti á hátíðina á Austurvelli. Á útifundinum 1. maí er þó gert ráð fyrir skiltum og kröfuspjöldum og aðrir yrðu með sín skilti til mótvægis. Á útifundum 1. maí er beinlínis gert ráð fyrir kröfuspjöldum. Á Austurvelli, að morgni 17. júní, kemur fólk saman til að fagna sigrum sjálfstæðisbaráttunnar.