Helgarsprokið 22. júní 2003

173. tbl. 7. árg.

Flestar kennslubækur í hagfræði eru keimlíkar. Bækurnar kynna lesendum það sem á ensku er kölluð micro- eða macro-hagfræði, en hefur á íslensku yfirleitt verið þýtt rekstrar- eða þjóðhagfræði. Helsti munurinn á bókunum er hvort viðfangsefnið þær taka fyrir og hvort þær eru skrifaðar fyrir byrjendur eða lengra komna. Ein af þeim bókum sem skera sig úr fjöldanum er An Introduction to Economic Reasoning eftir David Gordon, sem Ludwig von Mises Institute gaf út árið 2000. Eins og bókartitillinn ber með sér er um byrjendarit að ræða og þar sem stofnun kennd við einn helsta hagfræðing austurrísku hagfræðinnar gefur bókina út kemur sennilega engum á óvart að bókin er skrifuð út frá þeirri aðferð eða þeim skóla. Í inngangi bókarinnar segir að í stað þess að líta á hagfræðina sem lista yfir lauslega tengd viðfangsefni, einkennist austurríska hagfræðin af rökleiðslu. Austurríska hagfræðin sé leidd út frá einu grundvallaratriði – hegðun mannsins – og nokkrum viðbótarforsendum.

„Helsta röksemd Gordons fyrir því að fólk þurfi að kynna sér grundvallaratriði hagfræðinnar er að ef fólk skilji þau ekki stefni í óefni. Til að hagkerfið gangi vel þurfi nægilega margir að skilja einfaldar staðreyndir um það hvernig verðmyndunarkerfið gangi fyrir sig.“

Þeir sem kjósa að kynna sér hagfræði í gegnum stærðfræðiformúlur ættu að lesa flestar aðrar bækur en þessa. Þeir sem hafa gaman af liprum texta og hagfræðilegri röksemdafærslu með heimspekilegu ívafi hafa hins vegar vafalítið bæði gagn og gaman af bók Gordons. Niðurstaða Gordons er í helstu atriðum hin sama og flestra annarra kennslubókarhöfunda í hagfræði. Hann sýnir svo dæmi séu tekin fram á gildi frjálsra viðskipta og ókosti verðlagshamla líkt og gert er í flestum bókum sem fjalla um þessi viðfangsefni. Það er helst í umfjöllun hans um peninga sem leiðir skilja með öðrum kennslubókarhöfundum. Gordon, líkt og austurrískir hagfræðingar almennt, tortryggir þá peninga sem ríkið býður upp á nú á dögum og telur betra að peningar styðjist við gullfót en þá ófullkomnu ábyrgð sem ríkið gefur fyrir því að peningar haldi verðgildi sínu – ef á annað borð hægt er að tala um að ríkið veiti einhverja ábyrgð á verðgildi peninga undir núverandi fyrirkomulagi.

Eitt af þeim viðfangsefnum sem Gordon tekur sérstaklega fyrir eru lágmarkslaun. Í heimspekilegum útúrdúr um jöfnuð segir Gordon að þegar fólk kvarti yfir launamun taki það almennt sem gefnum hlut að best færi á því að allir hefðu jöfn laun. Flestir viðurkenni að ekki sé hægt að ná fullkomnum launajöfnuði, en að við ættum að reyna að nálgast það markmið eins og mögulegt sé án þess að fórna of mikilli framleiðni. Gordon spyr hvers vegna menn gefi sér að jafnstaða sé góð og segir að svarið kunni að virðast augljóst. Bent sé á muninn á heimilislausum sveltandi manni og milljónamæringi í þessu sambandi. Hann segir hins vegar að þetta sé slæmt dæmi ef aðeins sé verið að tala um jöfnuð, því þegar slíkt dæmi sé tekið blandist inn í að fólk vilji ekki að aðrir hafi það mjög slæmt. Fyrrnefnt dæmi snúist því ekki aðeins um jöfnuð. Spurningunni um það hvort jöfnuður sé sérstaklega ákjósanlegur megi fremur svara með því að bera saman milljónamæring og milljarðamæring og Gordon spyr hvort það sé verulegt siðferðilegt vandamál að milljarðamæringurinn er miklu ríkari en milljónamæringurinn. Ef menn telji það ekki verulegt vandamál segi það sína sögu um mikilvægi jafnaðar.

í bókinni er lipur og gagnlegur texti um hagfræðilega röksemdafærslu

Gordon sýnir fram á að ef sett eru lögbundin lágmarkslaun verði það til þess að auka atvinnuleysi. Röksemdafærslan er í grunninn ekki flókin og þeir sem hafa velt fyrir sér samspili eftirspurnar og framboðs þekkja hana. Ef löggjafinn ákveður að fyrirtæki skuli greiða að lágmarki 1.000 krónur í laun á tímann, þá missa þeir menn vinnuna sem fyrirtæki telja ekki svo mikils virði. Allir þeir sem eru fyrirtækjum 900 króna virði missa til dæmis vinnuna, því fyrirtæki myndu tapa 100 krónum á tímann ef þau hefðu þá á launaskrá. Hér verður þessi umræða úr bók Gordons ekki rakin frekar, en þó er ástæða til að nefna tvö atriði sem komið er inn á. Annað atriðið er að laun eru ekki aðeins launataxtinn sjálfur heldur einnig ýmiss lögbundinn launatengdur kostnaður fyrirtækja. Einnig má nefna að ýmsar reglur á vinnumarkaði, til að mynda þær sem gera fyrirtækjum erfitt að segja starfsmönnum upp, hafa svipuð áhrif. Allur þessi aukakostnaður sem fylgir starfsmönnum á til að mynda stóran þátt í miklu atvinnuleysi innan Evrópusambandsins eins og hagfræðingar hafa lengi, en árangurslaust, bent á. Hitt atriðið er að ríkið þarf ekki að ákveða lágmarkslaun beint til að afleiðingarnar séu neikvæðar. Verkalýðsfélög, sérstaklega ef þau njóta lögbundinnar verndar til að knýja fram launahækkun með verkföllum og valdbeitingu, geta haft sömu áhrif.

Í upphafi bókar sinnar veltir Gordon upp þeirri spurningu hvers vegna menn ættu að leggja stund á hagfræði. Hann segir að eitt svarið geti verið að mannlífið allt tengist hagfræði, en þetta svari því þó ekki hvers vegna menn ættu að leggja út í kerfisbundið nám í þessum fræðum. Allir – hann hefur að því er virðist ekki fylgst með flugi búddamunka – séu háðir þyngdaraflinu, en þar með sé ekki gefið að allir verði að læra eðlisfræði. Helsta röksemd Gordons fyrir því að fólk þurfi að kynna sér grundvallaratriði hagfræðinnar er að ef fólk skilji þau ekki stefni í óefni. Til að hagkerfið gangi vel þurfi nægilega margir að skilja einfaldar staðreyndir um það hvernig verðmyndunarkerfið gangi fyrir sig. Traust hagkerfi krefjist þess að fólk hafi frelsi til athafna og ef stjórnmálamenn hafi afskipti af hinum frjálsa markaði, eða reyni að skipta honum alveg út fyrir sósíalískt hagkerfi, þá sé okkur vandi á höndum. Ef fólk verji dálitlum tíma í að kynna sér hagfræði geti það komið í veg fyrir heilmikinn vanda síðar. Gordon hefur tekist það vel upp við skrif bókar sinnar til að óhætt er að fullyrða að ein ágæt aðferð til að kynnast helstu lögmálum hagfræðinnar er einmitt að lesa bók hans.