Laugardagur 21. júní 2003

172. tbl. 7. árg.

D

Dinesh D’Souza segir vísindi, lýðræði og kapítalisma, en ekki kúgun og arðrán, skýra velgengni Vesturlanda.

inesh D’Souza skrifaði síðast liðinn þriðjudag grein í The Washington Times um það hvernig Vesturlönd urðu rík. D’Souza segir að því sé stundum haldið fram að Vesturlönd hafi efnast á kostnað annarra heimshluta með kúgun og arðráni, þrælahaldi og heimsvaldastefnu. Þessu er hann afar ósammála. Hann bendir á að þrælahald og heimsvaldastefna Vesturlanda fyrrum tíð sé ekkert einsdæmi; Persar, Mongólar, Kínverjar og Tyrkir hafi til að mynda rekið sams konar stefnu áður fyrr. Hann bendir á að áður en Bretar komu til Indlands, en D’Souza er að indverskum uppruna, hafi Persar, Mongólar, Tyrkir, Afganir og Arabar ráðist inn í landið og hertekið það. Þá segir hann að í gegnum tíðina hafi þrælahald hvarvetna verið tíðkað og nefnir Kína, Indland og Afríku sem dæmi. Jafnvel Indíánar í Ameríku hafi haft þræla löngu áður en Kólumbus sigldi þangað. Á Vesturlöndum hafi þrælahald hins vegar verið afnumið og það sé sérstakt að þar hafi andstaða þrælanna ekki orðið til að þrælahald var afnumið, heldur hugsjónabarátta frjálsra manna – sem hefðu sjálfir getað haft þræla.

D’Souza segir að á Vesturlöndum hafi komið fram þrjár nýjungar sem skýri ríkidæmi þessara landa í dag; vísindi, lýðræði og kapítalismi. Hann segir að vissulega hafi aðrir en Vesturlandabúar leitað þekkingar, en vísindalegar aðferðir eins og þær eru tíðkaðar nú á tímum séu uppgötvun Vesturlanda. Þá hafi lýðræðið, sem feli í sér kosningar, friðsamlega tilfærslu valds og aðskilnað valdastofnana, orðið til á Vesturlöndum. Loks sé kapítalisminn upprunninn á Vesturlöndum. Menn hafi vissulega átt viðskipti sín á milli áður en vestræn menning kom til sögunnar, en kapítalisminn, sem feli meðal annars í sér eignarrétt, frjáls viðskipti, kauphallir og lánastofnanir, hafi orðið til á Vesturlöndum.