Föstudagur 13. júní 2003

164. tbl. 7. árg.

Þ

Nú geta menn áhyggjulausir skolað af sér í friðuðum sturtum Sundhallarinnar.

eir sem höfðu hugsað sér að breyta sturtunum í Sundhöllinni í Reykjavík en voru ekki búnir að því, þeir eru búnir að missa af lestinni. Héðan af verður sturtunum ekki breytt, að minnsta kosti ekki nema með því að ganga gegn brýnu banni Tómasar Inga Olrichs sem ákvað á dögunum að friða sturturnar. Og það eru ekki aðeins umræddar sturtur sem tímans þungi niður mun sneiða hjá eftirleiðis, menntamálaráðherra hefur einnig skipað að sama gildi um fleiri mannvirki, svo sem „fyrirkomulag stiga við anddyri Héraðsskólans á Laugarvatni“ – og er rétt að taka fram að samkvæmt orðanna hljóðan verður ekki annað ráðið en að skólinn sé ekki við vatnið heldur á því, og er þá mikilvægt að vatnið gæti þess að gárast ekki svo mjög að fyrirkomulag stiganna raskist. Gott og vel, þetta eru auðvitað útúrsnúningar, skólinn er við vatnið og Tómas Ingi var ekki að missa vitið heldur gerist það af og til að menntamálaráðherra fellst á tillögu húsafriðunarnefndar ríkisins og friðar byggingu að hluta eða í heild.

Það er ekki aðeins að mannvirki séu friðuð með einstökum ákvörðunum eins og þessum. Samkvæmt lögum eru friðuð öll hús sem reist hafa verið árið 1850 eða fyrr og má engar breytingar á þeim gera án leyfis opinberrar nefndar. Og ekki nóg með það heldur er einnig í lögum sú regla að eigendum húsa, sem reist voru fyrir árið 1918, er skylt að leita álits þessarar nefndar „með góðum fyrirvara“ ef þeir hyggjast breyta húsi, flytja það eða rífa. Jafnvel þó húsið sé yngri en þetta þá getur eigandinn ekki verið viss um að hann fái að ráða eign sinni sjálfur, en í lögum segir að friða megi „mannvirki, hús eða húshluta, sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Friðun getur náð til nánasta umhverfis friðaðs mannvirkis. Friða má samstæður húsa sem hafa sama gildi og að framan greinir og gilda þá reglur friðunar um hvert einstakt þeirra.“

Flestum þykir eflaust sem gömul hús sem vel er haldið við setji skemmtilegan svip á umhverfi sitt. Það eigi ekki að ryðja hinu gamla úr vegi þó ný tíska og tækni hafi unnið sér land. Mörgum finnst sárt ef eigendur gamalla húsa vilja endilega rífa þau niður og hrúga upp smekklitlum kössum í staðinn og þá skiljanlegt að mörgum detti helst í hug að banna eigendum húsanna einfaldlega slíka ráðstöfun eignanna. Geta slíkir varðveislusinnar bent á að auðvelt er að skipta síðar um skoðun og rífa hið friðaða mannvirki, en það sem einu sinni hefði verið rifið yrði aldrei aftur heimt. Þrátt fyrir þetta er ástæða til að fara rólega í friðunartilskipunum. Þegar eign er friðuð, þannig að eigandinn má ekki lengur breyta henni eins og hann sjálfur kýs, er verið að skerða mjög eign hans; og er rétt að minnast þess að fæstir eiga verðmætari eign en fasteign sína. Annað atriði, sem friðunarsinnar mættu hafa í huga, er að friðunareglur geta ýtt á að húseigendur breyti eða rífi hús sín ef þau nálgast verndunarmörk. Ef til dæmis er ákveðið að öll hús, 75 ára og eldri, skuli vera friðuð og allar breytingar á þeim bannaðar; hvað er þá líklegt að eigandi 74 ára gamals húss geri?

En auðvitað er hinn kosturinn, sá að húseigendur geti farið sínu fram, ekki gallalaus fyrir alla. Strangar húsafriðunarreglur gætu hlíft mörgum við því að sjá á eftir húsum sem þeim eru kær. Einu sinni var rekið gistihús sem nefndist Hótel Hekla og áttu þar margir góðar stundir. En einn daginn var sú sæla á enda, eins og ort var um:

Nú drekka menn ekki lengur á Hótel Heklu
né hátta þar allskyns konur ofan á dívana.
Það stafar þó hvorki af kvenfólks- né áfengiseklu
heldur einfaldlega vegna þess að það er búið að ríf’ana