A
Ísland eyðir með því mesta sem þekkist í menntamál. Skyldi það ekki benda til að aðrar leiðir en aukið fjármagn séu best til þess fallnar að bæta menntun Íslendinga? |
ð ræða menntamál, stöðu þeirra og stefnu í málaflokknum hefur löngum þótt afar mikilvægt og til vinsælda fallið að mati flestra sem að stjórnmálum koma. Svo mætti að minnsta kosti ætla af kosningabaráttu liðinna ára. Vandinn við þá umræðu er hins vegar sá að hún lýtur nánast eingöngu að fjármálum skólanna, á hvaða skólastigi sem er. Þeir sem helst taka þátt í þessari umræðu vilja gjarnan sannfæra þjóðina um að mikilla úrbóta sé þörf í skólakerfinu en vilja hins vegar ekki íhuga þann möguleika að þær úrbætur felist í öðru og meira en hinni sívinsælu leið aukinnar fjárveitingar hins opinbera. Vei þeim manni, sérstaklega ef hann er utan klíku „skólamanna“, sem vogar sér að benda á að aðrar leiðir séu vænlegri til úrbóta. Þá sjá umræðustjórnmálamennirnir sér þann kost vænstan að hverfa frá skoðunum sínum um að úrbóta sé þörf og telja, allt í einu, íslenska skóla þá bestu í heiminum og að hér megi engu breyta.
Þetta gerðist einmitt þegar Verslunarráð Ísland kynnti skýrslu um valfrelsi í skólamálum á fundi í fyrradag. Í skýrslunni er meðal annars varpað fram þeirri skoðun að íslenskir grunnskólar virðist oft vera reknir með hagsmuni veitenda þjónustunnar í huga fremur en hagsmuni neytenda hennar. Á fundinum mótmælti borgarstjóri Reykjavíkur þessari skoðun harðlega og sagði þvert á móti að það væru hagsmunir nemendanna sem ættu hug þeirra sem kæmu að rekstri borgarskólanna. Þessu heldur borgarstjórinn fram þrátt fyrir að formaður fræðsluráðs borgarinnar, Stefán Jón Hafstein, hafi á þessum sama fundi viðurkennt það að borgaryfirvöld væru töluvert bundin af erfiðum kjarasamningum við kennara. Á fundinum benti fræðslustjóri Reykjavíkur einnig á að lagarammar þeir sem skólum væri gert að fylgja væru of stífir og gæfu lítið svigrúm til sjálfstæðis skóla. Borgarstjóri hafði aftur á móti sagt stuttu áður að sjálfstæði grunnskóla væri afar mikið.
En hvaða hagsmuni er verið að vernda með lögum um grunnskóla, lögum um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda og lögum um lögverndun á starfsheiti kennara og skólastjórnenda, svo ekki sé minnst á kjarasamningana? Skyldi það ekki einmitt vera þannig að hagsmunir þessara starfsstétta séu í fyrirrúmi? Er ekki hugsanlegt að menntamál á Íslandi séu í gíslingu stéttarfélaga starfsfólks skólanna? Gæti það ekki verið skólum hér á landi til framdráttar ef menn hvíldu sig og aðra á umræðunni um aukið skattfé til skóla en hugleiddu þess í stað hvort ekki mætti gera töluverðar formbreytingar í þessum efnum?