Fimmtudagur 12. júní 2003

163. tbl. 7. árg.

B

Er  líklegt að Ísland muni hafa einhver áhrif á efnahagsstefnu evrusvæðisins?

resk stjórnvöld, sem langar mikið til að ýta Bretlandi nær Evrópu, hafa hafnað evrunni. Ýtarleg rannsókn þeirra hefur leitt í ljós að evran henti ekki Bretlandi og því komi ekki til greina að taka upp þennan gjaldmiðil – í bili að minnsta kosti. Ekkert er útilokað um framtíðina og vafalítið verður reynt að finna smugu sem fyrst. Þótt ýmsir haldi þannig í vonina um að koma öllum Evrópubúum undir einn gjaldmiðil er ekkert útlit fyrir að aðstæður muni breytast á þann veg að hagstætt verði fyrir Breta að kasta pundinu og taka upp evruna. Og af sömu ástæðum er ekki heldur neitt sem bendir til þess að evran verði góður kostur fyrir Íslendinga í framtíðinni.

Í grein í The Wall Street Journal á dögunum voru tíndar til nokkrar ástæður þess að jafn illa hefur gengið á evrusvæðinu og raun ber vitni. Í greininni er bent á að árið 1999, þegar gengi gjaldmiðlanna sem runnu saman í evruna var fest, voru hagskerfi landanna ekki orðin sambærileg – og þau séu það ekki enn. Afleiðingin sé sú að vaxtastefna Seðlabanka Evrópu henti engu evrulandanna. Reynt sé að fara meðalveg, en ekkert landanna sé „meðalland“ og þess vegna geti vaxtastefnan aldrei hentað neinu þeirra.

Einn vandinn við að taka upp evruna – fyrir lönd sem búa við sæmileg efnahagsskilyrði – er að stærstu ríki evrusvæðisins eru afar illa stödd efnahagslega. Breytinga á því er ekki að vænta í bráð vegna þess að ástæðurnar fyrir efnahagserfiðleikunum eru meðal annars ósveigjanlegur vinnumarkaður, allt of háir skattar og miklar reglugerðir. Þeim sem lesa tvær skýrslur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem komu út sitt hvoru megin við síðustu mánaðamót verður fljótlega ljós sá munur sem er á efnahagsástandi Íslands og evrulandanna. Fyrir mánaðamót gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn út skýrslu um evrulöndin, þar sem lýst var miklum áhyggjum af efnahagslífi svæðisins í bráð og lengd. Eftir mánaðamót kom svo út skýrsla um Ísland þar sem efnahagsástandinu og þeim umbótum í átt til aukinnar markaðsvæðingar sem gerðar hafa verið á nýliðnum árum er hrósað. Þegar fjallað er um evruna er nauðsynlegt að hafa í huga að lönd sem eru betur stödd en evruríkin þyrftu að búa við efnahagsstjórn sem tekur mið af viðvarandi efnahagsvanda stóru landa Evrópu.

Þótt sumum þyki af einhverjum ástæðum líklegt að Ísland hefði ógurleg áhrif innan Evrópusambandsins, dettur varla nokkrum manni í hug að efnahagsstefnan á evrusvæðinu verði miðuð við hagsmuni Íslands en ekki til dæmis Þýskalands, sem er rúmlega þrjú hundruð sinnum fjölmennara.