Æ
Réttmæti innrásarinnar í Írak er hvorki háð því að þar finnist gereyðingarvopn né að þar finnist Saddam Hussein. |
tli þessi „Saddam Hussein“ hafi nokkurn tíma verið til? Sjálfsagt er hann bara ein lygin enn. Og þessir „synir“ hans sem Bandaríkjastjórn þóttist eiga í höggi við, ætli það sé ekki sama sagan með þá? Ættingjar þessara manna eru sjálfsagt flestir tilbúningur líka. Að ekki sé talað um megnið af gjaldeyrisforða Íraks, hann hefur aldrei verið til. Nú hafa Bretar og Bandaríkjamenn haft margar vikur til að finna þetta fólk en hafa ekkert fundið. Af því leiðir vitaskuld að ekkert af þessu hefur verið til. Allt saman tóm lygi og sett fram til þess að réttlæta árás á friðsamt menningarríki þar sem mannréttindi voru í hávegum höfð. Þarna er Kananum rétt lýst.
Undanfarnar vikur hefur það ekki farið fram hjá neinum að Bandaríkjamönnum og Bretum hefur ekki tekist að finna þau vopn sem þeir töldu Saddam Hussein hafa undir höndum. Á því hefur verið klifað í fréttatímum og ósjaldan látið að því liggja að annað hvort finnist þessi vopn og það sem fyrst eða þá að réttlæting hernaðarins er orðin að engu. Það er eins og „fréttaskýrendur“ sjái aðeins þessa tvo möguleika. Annað hvort finnast vopnin og þá geta Bush og Blair hlegið að gagnrýnendum sínum, eða þá að vopnin finnast ekki og þá eru þeir félagar með allt niður um sig frammi fyrir samanlögðum besserwisserum heimsins. Og eins og venjulega þá horfa fjölmiðlamenn fram hjá ýmsu sem máli skiptir þegar þeir fylla fréttatíma sína með upplestri úr The Guardian.
Í fyrsta lagi hlýtur að vera augljóst að það er í það minnsta hugsanlegt að þessi vopn séu enn í Írak þó ekki hafi tekist að hafa upp á þeim. Írak er gríðarstórt land og Saddams-stjórnin hafði mörg ár til að koma vopnunum fyrir á öruggum stöðum. Ef að Saddam Hussein, þekktasti maður Íraks, getur ásamt öllum sínum nánustu horfið eins og jörðin hafi gleypt hann – og tekið ríkiskassann með sér – þá skyldu menn fara varlega í að fullyrða að það sem Bandaríkjamenn ekki finna hafi aldrei verið til. Í öðru lagi má vera að vopnunum hafi verið komið úr landi áður en innrásarherinn næði til þeirra. Í þriðja lagi er hugsanlegt að Saddam hafi látið eyðileggja vopnin á lokasprettinum, svona til að innrásarherinn stæði uppi tómhentur þegar allt yrði um garð gengið. Loks er hugsanlegt að Saddam hafi látið eyða þessum vopnum fyrir nokkrum árum og því sagt satt þegar hann hélt því fram í vetur að hann ætti engin svo kölluð gereyðingarvopn.
Eitt er hins vegar klárt. Saddam Hussein og stjórn hans átti slík vopn. Eftir fyrra Persaflóastríð upplýsti Saddam hvaða vopnum hann réði yfir og sýndi síðan aldrei fram á hvað varð um þau vopn. Þrátt fyrir ótal ályktanir Sameinuðu þjóðanna og mikinn alþjóðlegan þrýsting gaf Saddam ekki upp hvar þessi vopn voru niður komin og færði aldrei neinar sönnur á þá fullyrðingu að þeim hefði verið eytt. Þeir sem halda því fram að Bandaríkjamenn og Bretar hafi ráðist inn í til þess að gera vopnlaust land, þeir verða þá að minnsta kosti að láta eins og þeir trúi því að Saddam Hussein hafi í raun eytt hættulegustu vopnum sínum og það án þess að hafa eftir á nokkurn skapaðan hlut í höndunum til að sýna fram á það. Því það liggur alveg fyrir að Saddam Hussein réði yfir hættulegum vopnum. Það sem ekki er vitað enn, er hvort og hvar þau vopn eru niðurkomin nú.
Og þegar Saddam hvorki sýndi vopnin né sýndi fram á hvað af þeim varð þá höfðu önnur ríki þann kost einan að líta svo á að hann réði enn yfir þessum vopnum. Menn geta svo deilt um það hvort þessi ætlaða vopnaeign getur réttlætt innrás, – það er einfaldlega önnur spurning -, en jafnvel þó svo fari að ekki takist að finna þessi vopn í Írak nú, þá mun það engum úrslitum ráða um réttmæti innrásar. Ekki frekar en innrás yrði réttmæt við það að vopnin fyndust.