F
Lýðræðislega kjörnir fulltrúar geta varla fundað fyrir fólki sem álítur öll meðul leyfileg í ákafri baráttu fyrir innihaldslausum frösum sínum. |
rasar af ýmsu tagi hafa ekkert orðið óalgengari með árunum. Margir grípa til margnotaðra frasa til að lýsa skoðunum sínum á hinu og þessu. Þannig segist ákveðin tegund stjórnmálamanna berjast fyrir „nútímalegum viðhorfum“ og flokkur þeirra sé „nútímalegur jafnaðarmannaflokkur“. Heyrst hefur að nauðsynlegt sé að „styrkja samkeppnisyfirvöld“ og „efla samkeppnislögin“ því markaðurinn „þurfi jú að vera frjáls“ en „regluverkið í lagi“. Ekki hefur heldur verið óalgengt að heyra þá skoðun viðraða að „fjölga þurfi konum í stjórnmálum“. Þá má ekki gleyma lýsingum íþróttakappleikja en þær ganga nær undantekningalaust eingöngu út á umfjöllun um tilþrif sem annað hvort eru „frábær“ eða „stóóóórkostleg“.
Fullyrðingar sem þessar eru auðvitað oftast settar fram án nokkurs rökstuðnings en það er nú einmitt það sem gerir þær að frösum. Almennt gerir þessi málnotkun ekki meira af sér en það að vera þreytandi. Stundum er hún þó til þess fallin að valda misskilningi. Dæmi um það er barátta manna síðustu daga á götum úti í Sviss. Tilefnið er fundur forystumanna iðnríkjanna, aðferðin er eyðilegging eigna annarra og markmiðið er sagt vera að vinna gegn „alþjóðavæðingunni“. Og hvernig skyldi hún svo vera nákvæmlega þessi væðing sem er svo skelfileg að réttlætanlegt sé að valda einstaklingum, sem fyrir einskæra tilviljun búa í nágrenni fundarstaðs, milljónatjóni í baráttunni gegn henni? Jú, dæmi sem oft er tekið er að Vesturlönd fari illa með ríki þriðja heimsins og eru hinar tæknilegu hindranir sem ríki þriðja heimsins rekast á í viðleitni sinni við að koma vörum sínum á markaði á Vesturlöndum talin til marks um þetta. Það er út af fyrir sig rétt að tæknilegar hindranir gegn innflutningi eru slæmar og Vefþjóðviljinn hefur margoft bent á óhagkvæma og ósanngjarna afstöðu til dæmis Evrópusambandsins og Bandaríkjanna í tollamálum. En það þarf skringileg gleraugu til að sýnast að sú afstaða helgist af „alþjóðavæðingu“ frekar en þröngri hagsmunagæslu heimamanna, eiginlega algerri andstæðu alþjóðavæðingarinnar. Ef hugtakið alþjóðavæðing vísar til einhvers er helst að það vísi til frelsis til viðskipta og opinna hagkerfa, án íhlutunar sérhagsmunahópa. Ef alþjóðavæðing er skilgreind með þeim hætti er hún öllum til góðs, bæði ríkari og fátækari íbúum heimsins, hvar sem þeir búa. Þeir sem berjast gegn henni með yfirgangi og ofbeldi gera sér sennilega – eða í besta falli – enga grein fyrir þessu. Þeir hafa misst allt jarðsamband, uppfullir af innihaldslausum frösum.