Helgarsprokið 1. júní 2003

152. tbl. 7. árg.

Íbúar Raufarhafnar eiga í vandræðum. Þeir eru 284 og stærsta fyrirtæki staðarins hyggst fækka um 28 stöðugildi, sem þýðir að á að giska 10% bæjarbúa missa vinnuna. Þetta er hlutfallslega svipað og ef 10.000 Reykvíkingum yrði sagt upp á einu bretti. Skellurinn er það mikill að sumir ræða nú um að Raufarhöfn eigi ekki lengur framtíð fyrir sér og byggð þar hljóti að leggjast af. Þá er talað um að slíkt hefði hugsanlega keðjuverkandi áhrif og næstu staðir myndu fylgja í kjölfarið ef þessi yrði raunin. Ekkert skal fullyrt um það hvort þessi lýsing á afleiðingunum er rétt, en ljóst er að áfallið er mikið fyrir íbúana og slík fækkun starfa er mikil blóðtaka fyrir fámenna byggð.

„Þetta er að ýmsu leyti skiljanlegt og það er eðlilegt að fólk finni til með Raufarhafnarbúum þegar svona stendur á. Það þýðir hins vegar ekki að Raufarhafnarbúar eigi rétt á aðstoð ríkisins til að búa áfram á Raufarhöfn.“

Þegar slíkir atburðir gerast eru viðbrögð ýmissa þau að krefjast aðgerða ríkisins. Nú verði byggðastofnun að grípa inn, byggðakvóti þurfi að renna til staðarins og ríkið verði með þessum og öðrum tiltækum ráðum að tryggja hvað sem það kostar að á Raufarhöfn haldist svipuð byggð og nú. Erfiðleikar heils byggðarlags eru skiljanlega mikið tilfinningamál og þess vegna hreyfa þessar uppsagnir nú mun meira við fólki en sambærilegar uppsagnir í Reykjavík. Ef 284 Raufarhafnarbúar þurfa að taka sig upp og flytja vekur það mun meiri athygli en þegar 284 Reykvíkingar lenda í sambærilegum aðstæðum. Þetta er að ýmsu leyti skiljanlegt og það er eðlilegt að fólk finni til með Raufarhafnarbúum þegar svona stendur á. Það þýðir hins vegar ekki að Raufarhafnarbúar eigi rétt á aðstoð ríkisins til að búa áfram á Raufarhöfn. Og það þýðir ekki heldur að skynsamlegt sé að ríkið grípi inn í og reyni að halda uppi byggð á Raufarhöfn. Ef til vill á staðurinn ekki framtíð fyrir sér án stöðugrar aðstoðar ríkisins og þá væri með aðstoð verið að gera lítið annað en fresta því óumflýjanlega.

Í Morgunblaðinu var haft eftir sveitarstjóra staðarins að menn verði að svara því „hvort leyfa eigi þessum litlu byggðum að lifa með varanlegum aðgerðum“ og átti við að ríkið yrði að svara því hvort það vildi taka fé af íbúum utan Raufarhafnar og afhenda Raufarhafnarbúum til að þeir þurfi ekki að flytja, eða hvort leyfa ætti byggðaþróun að halda áfram. Hér á landi hefur, líkt og annars staðar í heiminum, átt sér stað sú þróun að fólk sækir í þéttbýli og staðir á landsbyggðinni smækka og þeim fækkar. Þannig var Raufarhöfn til að mynda þriðjungi fjölmennari fyrir tíu árum en hún er nú, svo þessi vandi er ekki nýr af nálinni heldur miklu frekar framhald þróunar sem hefur átt sér stað í það minnsta áratugum saman.

Það er ekki sjálfgefið að öll núverandi byggð á landinu haldist óbreytt og þó byggð leggist af á einhverjum stöðum verður það ekki í fyrsta sinn í sögunni. Sumir staðir henta einfaldlega ekki lengur til búsetu og þá er betra að viðurkenna það – hversu sárt sem það kann að vera fyrir þá sem þurfa að taka sig upp og flytja annað – en að viðhalda byggð með styrkjum frá ríkinu. Nefna má sem dæmi staði á borð við Jökulfirði og Hornstrandir, en byggð þar, sem var talsverð, lagðist af fyrir nokkrum áratugum. Til lengri tíma litið er engum greiði gerður með því að viðhalda byggð sem ekki getur staðið án utanaðkomandi aðstoðar. Betur fer á því að menn sætti sig við orðinn hlut en reyni um leið að nýta byggðina með öðrum hætti. Hún getur til að mynda hentað vel til sumardvalar og á sumrin má jafnvel hafa þar þjónustu við ferðamenn, svo sem gert er á fyrrnefndum stöðum á Vestfjörðum. Þannig geta menn haldið tengslum við heimahagana og notið að nokkru þess góða sem þeir hafa upp á að bjóða, en búið og starfað þar sem aðstæður eru betur til þess fallnar.

Mörgum væri eftirsjá í byggð á Raufarhöfn, en það eru ekki næg rök fyrir inngripum ríkisins.

Byggðastofnun var sett á fót árið 1985 og fer með hluta þess málaflokks sem talist getur til byggðamála, en á undan henni höfðu starfað ýmsar stofnanir og sjóðir, svo sem Framkvæmdastofnun ríkisins og Atvinnubótasjóður. Byggðirnar eru þó studdar með ýmsum öðrum hætti, svo sem í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga og með samgöngumannvirkjum sem ekki gætu staðið undir sér án atbeina ríkisins. Ríkisstyrkir til byggða landsins hafa tíðkast í langan tíma og miklu fé hefur verið varið til að viðhalda byggð um allt land. Það hefur þó ekki orðið til að leysa vanda þeirra byggða sem staðið hafa höllum fæti, en miklu frekar orðið til þess að draga vandann á langinn og fresta því að horfst sé í augu við hann. Því fé sem varið hefur verið í þessum tilgangi hefur því að stórum hluta verið illa varið og þessi stefna, byggðastefnan svo kallaða, hefur þannig haft öfug áhrif við það sem ætlað var. Hún hefur orðið til þess að draga úr hagsæld í landinu en ekki auka hana.

Vilji ríkið verja skattfé til að aðstoða íbúa í hnignandi byggðum er kominn tími til að stefnan verði endurskoðuð og að horft verði til varanlegri lausna en hingað til hefur verið gert. Það er ekki skynsamlegt að líta svo á að „jafnvægi í byggð landsins“ eigi að vera markmiðið, enda er vonlaus barátta að ætla sér að viðhalda slíku jafnvægi. Miklu nær er að stefna að því að fólk geti búið í blómlegum byggðum sem eiga sér framtíð án stuðnings ríkisins. Ef ríkið vill styðja við bakið á íbúum landsbyggðarinnar er betra að gera það með öðrum hætti en nú er gert og gera það þá þannig að ekki þurfi að koma aftur síðar og leysa vandann á ný. Ein slík lausn gæti til dæmis verið að því fé sem varið er til byggðamála verði fremur varið til að styrkja fólkið beint og gera því kleift að flytja í blómlegri byggð, en að greiða því óbeint fyrir að vera áfram á sama stað. Til langs tíma litið væri þetta ódýrara fyrir skattgreiðendur, hagkvæmara fyrir landið í heild og farsælla fyrir viðkomandi íbúa og afkomendur þeirra, þó að til skamms tíma litið kunni að vera sársaukaminna að fresta vandanum.