Miðvikudagur 28. maí 2003

148. tbl. 7. árg.

H

ún getur huggað sig við það, sú líttskilgreinda persóna sem kölluð er íslenska þjóðin, að það eru jafnan ýmsir sem taka að sér að tala í nafni hennar og setja fram kröfur fyrir hennar hönd. Að vísu eru það ekki endilega þeir sömu og næst kæmust því að geta sagst hafa umboð til slíks, en menn fá nú ekki allt í lífinu. Nú að loknum alþingiskosningum eru svo óvenjumargir sem virðast telja sig hafa í höndum aðfararhæfan „dóm þjóðarinnar“, dóm sem einmitt virðist vera þess eðlis að þar hafi verið fallist á allar þeirra kröfur og málskostnaður skuli auk þess greiðast úr ríkissjóði. Einn þessara talsmanna þjóðarinnar virðist vera Magnús Þór Hafsteinsson, fyrrverandi sjávarútvegsfréttamaður Ríkissjónvarpsins, og núverandi alþingismaður Frjálslynda flokksins. Við umræður um stefnuræðu forsætisráðherra í gærkvöldi ræddi þingmaðurinn um fiskveiðistjórnun og ekkert nema fiskveiðistjórnun. Og það leyndi sér ekki í umræðunum að þar talaði maður sem hafði þjóðina að baki sér.

Það breytir engu hve lítið fylgi  sumir menn hafa, alltaf geta þeir talað fyrir munn einhvers sem þeir kalla íslensku þjóðina.

Í alþingiskosningunum hafnaði íslenska þjóðin nefnilega kvótakerfinu. Það er að segja ef miðað er við úrslit sem Magnús Þór Hafsteinsson virðist hafa undir höndum en ekki hafa verið kynnt öðrum opinberlega. Að minnsta kosti vafðist það ekki fyrir Magnúsi að láta stóryrðin ganga yfir þingheim í gær. Magnús Þór telur nefnilega að það hafi verið kosið um kvótakerfið, og að andstæðingar þess hafi sigrað. Nú er auðvitað svona og svona að segja að beinlínis hafi verið kosið um tiltekið deilumál í alþingiskosningum, en það er rétt hjá Magnúsi Þór Hafsteinssyni að mikið fór fyrir sjávarútvegsmálum í liðinni kosningabaráttu og því sennilega líklegra en oft áður að úrslit kosninganna segi sögu um afstöðu kjósenda til þeirra mála. Og úrslit kosninganna urðu einfaldlega þau, að þeir tveir stjórnmálaflokkar sem styðja aflamarkskerfið, „kvótakerfið“, í öllum meginatriðum, þeir flokkar fengu ríflegan meirihluta atkvæða. Sá stjórnmálaflokkur sem einn þingflokka hafnaði kvótakerfinu í öllum meginatriðum, Frjálslyndi flokkurinn, fékk 7,2 % greiddra atkvæða. Í þessu samhengi er svo eðlilegt að telja atkvæði greidd „Nýju afli“ til þeirra sem lýst hafi sig andvíg kvótakerfinu, en það framboð náði prósenti.

Samfylkingin og Vinstri hreyfingin – grænt framboð verða varla talin hafa hafnað kvótakerfinu sem fiskveiðistjórnartæki, en þessir flokkar vildu í kosningunum, eftir því sem næst varð komist, byggja áfram á því kerfi en taka kvótana í áföngum frá útgerð til ríkis og úthluta þeim svo aftur eftir einhverjum reglum. Í þessum skilningi má segja að þeir flokkar sem hafna kvótakerfinu og vilji gerbreyta um fiskveiðistjórnun hafi fengið um 8 % greiddra atkvæða en aðrir flokkar hafi fengið rúm 90 % atkvæða. Og hvernig sem menn vilja túlka atkvæði greidd Samfylkingu og vinstrigrænum, þá er það einfaldlega svo að þeir stjórnmálaflokkar sem styðja kvótakerfið í öllum grundvallaratriðum, þeir fengu meirihluta atkvæða.

Og svo koma þingmenn Frjálslynda flokksins og hrópa að „þjóðin“ hafi hafnað kvótakerfinu. Hvernig er það, hversu frjálslyndir geta menn verið í mati sínu á því hvað sé rétt og hvað rangt? Af hverju velta þessir áköfu baráttumenn því aldrei fyrir sér hvort mögulegt sé – sé það á annað borð rétt hjá þeim að það hafi verið „kosið um kvótakerfið“ – að kvótakerfið hafi einfaldlega unnið? Nóg var nú talað um sjávarútvegsmál í kosningabaráttunni. Er þingmönnum Frjálslynda flokksins ómögulegt að draga nokkrar ályktanir af þeirri staðreynd að rúmlega 92 % kjósenda greiddu þeim ekki atkvæði sitt?