Þriðjudagur 27. maí 2003

147. tbl. 7. árg.

Á laugardag upplýsti Morgunblaðið, í merkilegri frétt, að til er nokkuð sem heitir Tryggingardeild Útflutnings, skammstafað TRÚ, og starfar á vegum ríkisins. Deild þessi, TRÚ, hefur það með höndum að ábyrgjast að útflytjendur fái greitt fyrir vöru sína. Þetta þarfnast nánari skýringar eða í það minnsta endurtekningar, svo hvumsa lesendur trúi sínum eigin augum: deild þessi hefur það með höndum að ábyrgjast að útflytjendur fái greitt fyrir vöru sína. Með öðrum orðum, ef útflytjandinn ætlar að selja Hrappi Hrappssyni, forstjóra Svika og pretta í Nígeríu, skreið, flugferðir eða það sem er allrabest: hugbúnað, þá getur hann gert það óhræddur því ef svo ólíklega vill til að Hrappur standi ekki í skilum með greiðslur, þá borgar deildin góða, TRÚ. Svona einfalt er það!

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir Ingibjörgu H. Þráinsdóttur, sérfræðingi hjá Nýsköpunarsjóði (en TRÚ er í vist hjá Nýsköpunarsjóði) að TRÚ hafi áður heyrt undir iðnlánasjóð og reglur um TRÚ hafi verið afar takmarkandi, svo takmarkandi reyndar „að við þurftum stundum að hafna umsóknum frá fyrirtækjum sem þó var talin full ástæða til að veita ábyrgð“. En nú er blessunarlega búið að „nútímavæða lagarammann og aðlaga hann að alþjóðlegum reglum“. Þetta þýðir á mannamáli að núna er hægt að ábyrgjast allskyns vitleysu sem ekki var hægt að ábyrgjast áður. Ennfremur er haft eftir Ingibjörgu þessari að ábyrgðir TRÚ séu ekki í formi ríkisstyrkja og að markmiðið með þessum ábyrgðum sé að „jafna samkeppnisstöðu íslenskra útflytjenda á við það sem útflytjendur annarra landa búa við“.

Það þarf styrka trú og ansi hreint nútímavætt hugarfar til að halda því fram að þessar ábyrgðir séu ekki ríkisstyrkir. Auðvitað eru þessar ábyrgðir ríkisstyrkir, ef ábyrgðin fellur er útflytjandanum greitt úr sjóðnum en sjóðurinn fær greitt úr ríkissjóði sem svo aftur fær greitt frá skattgreiðendum. Þetta sjá og skilja allir sem vilja.

Annað, sem liggur kannski ekki eins ljóst fyrir, er að ábyrgðir sem þessar hafa áhrif á viðskiptakostnað útflytjandans, jafnvel þó ábyrgðin komi aldrei til greiðslu. Þannig þarf útflytjandinn ekki að leggja í jafn mikinn kostnað við að afla sér öruggra viðskiptasambanda, safna svo upplýsingum um viðskiptin og greina slæma viðskiptamenn frá góðum. Það er einfaldlega ekki eins brýnt þar sem ríkið ábyrgist hvort eð er greiðslur. Áhættan er ekki lengur vegin inn í viðskiptin, hún liggur nú hjá skattgreiðendum. Þannig hverfa mikilvægar upplýsingar um hver kostnaður viðskiptanna í raun og veru er og um leið er á huldu hvort viðskiptin séu í raun og veru arðbær. Og þrátt fyrir að útflytjandinn greiði einhverja þóknun til TRÚ er ekkert sem segir að sú þóknun sé sambærileg við það sem útflytjandinn hefði þurft að greiða fyrir samskonar tryggingu hjá einkareknu tryggingafélagi eða banka. Ef svo væri þá myndi útflytjandinn hreinlega snúa sér til næsta banka eða tryggingafélags.

Þetta hefur svo aftur þau áhrif að viðskiptamönnum er mismunað. Segjum sem svo að tveir fiskverkendur í Malaví ætli sér að kaupa sína flökunarvélina hvor frá íslenskum framleiðanda. Annar fiskverkandinn hefur alla tíð staðið í skilum og kannski fórnað til þess allnokkru. Hinn fiskverkandinn er áðurnefndur Hrappur Hrappsson sem nú reynir fyrir sér í Malaví og lætur sér sem fyrr í léttu rúmi liggja, að standa skil á nokkrum sköpuðum hlut. Þegar þeir ræða við sölumann íslenska fyrirtækisins kemur í ljós að hann hefur lítinn áhuga á greiðslugetu eða greiðslusögu þeirra, heiðarlega fiskverkandanum til mikillar furðu en Hrappi til ánægju. Sölumaðurinn þarf einfaldlega sölusamninga til að leggja fyrir nefnd í vist hjá Nýsköpunarsjóði, annað er það nú ekki. Þannig þrífst Hrappur áfram og það forskot sem heiðarlegi fiskverkandinn hafði er að engu orðið. Þetta er kannski það sem átt er við með jöfnun á samkeppnisstöðu?

Það er hæpið að rökstyðja tilveru sjóðs eins og TRÚ með því að vísa til þess að sambærilegir sjóðir séu til í öðrum löndum og því þurfi að jafna samkeppnisstöðu íslenskra útflytjanda gagnvart útflytjendum erlendis. Það eru til allskonar ósiðir erlendis, ekki síst í ríkisrekstri og það að aðrir stundi þessa ósiði er ekki sjálfkrafa réttlæting þess að íslendingar eigi að taka þá upp. Miklu nær væri að létta álögum almennt af fyrirtækjum og einstaklingum þannig að þeir stæðu betur að vígi en þeir sem kappi er att við í öðrum löndum.

Í lok fyrrnefndrar fréttar segir að ábyrgðir TRÚ séu frekar veittar til þeirra sem flytja út til landa í svo kölluðum þriðja heimi þar sem áhætta er meiri en til þeirra sem flytja út til þróaðri landa eins og Evrópulanda. Það má færa að því gild rök að það sem lönd í til að mynda Afríku þurfi síst á að halda séu vöggustofuviðskipti á borð við þau sem TRÚ boðar. Þau þurfi miklu heldur raunveruleg viðskipti við alvöru fyrirtæki. Það sé eina von þeirra til að eignast alvöru fyriræki sem stunda raunveruleg viðskipti.